Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Garðabæjar
10. (906). fundur
18.08.2022 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Garðabæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Sveinatungu, Garðatorgi.
Fundinn sátu: Sigríður Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar. Almar Guðmundsson bæjarfulltrúi. Björg Fenger bæjarfulltrúi. Bjarni Theódór Bjarnason varabæjarfulltrúi. Hrannar Bragi Eyjólfsson bæjarfulltrúi. Gunnar Valur Gíslason bæjarfulltrúi. Harpa Rós Gísladóttir varabæjarfulltrúi. Þorbjörg Þorvaldsdóttir bæjarfulltrúi. Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi. Sara Dögg Svanhildardóttir bæjarfulltrúi. Hlynur Elías Bæringsson varabæjarfulltrúi.

Fundargerð ritaði: Guðjón Erling Friðriksson bæjarritari.
Fundurinn er hljóðritaður og streymt beint á vef bæjarins.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.

Fundargerð fundar bæjarstjórnar frá 16. júní 2022 er lögð fram.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið: 
1. 2206024F - Fundargerð bæjarráðs frá 21/6 ´22.
Sara Dögg Svanhildardóttir, ræddi 8. tl., tillögu Viðreisnar og Framsóknarflokks varðandi áheyrnarfulltrúa í fastanefndum.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, ræddi 9. tl., skipun fulltrúa í undirbúningsnefnd vegna uppbyggingar miðbæjarsvæðis í Garðabæ.

Fundargerð bæjarráðs sem er 9 tl., er samþykkt samhljóða.
2. 2206033F - Fundargerð bæjarráðs frá 28/6 ´22.
Ingvar Arnarson, ræddi 14. tl., ákvæði sveitarstjórnarlaga um endurskoðun siðareglna og 23. tl., bréf Landverndar og Fuglaverndar varðandi efnislosun á Álftanesi.

Almar Guðmundsson, ræddi 14. tl., ákvæði sveitarstjórnarlaga um endurskoðun siðareglna og 23. tl., bréf Landverndar og Fuglaverndar varðandi efnislosun á Álftanesi, dags. 23.06.22.

Fundargerð bæjarráðs sem er 24 tl., er samþykkt samhljóða.
3. 2207001F - Fundargerð bæjarráðs frá 5/7 ´22.
Sara Dögg Svanhildardóttir, ræddi 3. tl., opnun tilboða í framkvæmdir við íbúðakjarna við Brekkuás 2 og 5. tl., úrskurð kærunefndar útboðsmála varðandi rammaútboð Garðabæjar um þjónustu rafiðnaðarmanna. Sara Dögg fór fram á að bókun Guðlaugs Kristmundssonar á fundi bæjarráðs verði færð til bókar í fundargerð bæjarstjórnar.

„Viðreisn áréttar mikilvægi þess að vanda til verka við útboð og dreginn verði lærdómur af niðurstöðum þegar útboð eru ekki framkvæmd á réttan hátt. Útboð sem er ólöglegt eða illa ígrundað dregur úr eða eyðir algjörlega þeim ávinningi sem að af útboðum hlýst, ávinningi sem réttilega ætti að sitja í höndum skattgreiðenda í Garðabæ. Til þess að útboð heppnist vel þarf að vera jákvætt viðhorf fyrir útboðum hjá bæjarstjórn Garðabæjar og starfsmönnum bæjarins. Viðreisn telur að vel heppnuð útboð séu heilbrigðismerki fyrir góðum rekstri og áætlanagerð.“

Þá ræddi Sara Dögg 7. tl., tillögu um samstarf við Samtökin 78.

Björg Fenger, ræddi 3. tl., opnun tilboða í framkvæmdir við íbúðakjarna við Brekkuás 2, 4. tl., opnun tilboða í framkvæmdir við 2. áfanga Urriðaholtsskóla og 7. tl., tillögu um samstarf við Samtökin 78.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, ræddi 7. tl., tillögu um samstarf við Samtökin 78.

Gunnar Valur Gíslason, ræddi. 3. tl., opnun tilboða í framkvæmdir við íbúðakjarna við Brekkuás 2 og 4. tl., opnun tilboða í framkvæmdir við 2. áfanga Urriðaholtsskóla og 7. tl., tillögu um samstarf við Samtökin 78.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, ræddi 7. tl., tillögu um samstarf við Samtökin 78.

Harpa Rós Gísladóttir, 7. tl., tillögu um samstarf við Samtökin 78.

Almar Guðmundsson, ræddi 3. tl., opnun tilboða í framkvæmdir við íbúðakjarna við Brekkuás 2, 7. tl., tillögu um samstarf við Samtökin 78 og 5. tl., úrskurð kærunefndar útboðsmála varðandi rammaútboð Garðabæjar um þjónustu rafiðnaðarmanna. Almar lagði fram eftirfarandi bókun varðandi 5. tl.

"Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja árétta að mjög jákvætt viðhorf er hjá bæjarstjórn og starfsmönnum Garðabæjar fyrir útboðum. Það má styðja með fjöldamörgum vel heppnuðum útboðum á vegum bæjarins undanfarin ár, sem ekki hefðu átt sér stað ef viðhorfið væri neikvætt. Kærumál eru tíð í þessum málaflokki almennt og því eðlilegt að bregðast þurfi við úrskurðum um einstök mál annað veifið."

Fundargerð bæjarráðs sem er 9 tl., er samþykkt samhljóða.
4. 2207005F - Fundargerð bæjarráðs frá 12/7 ´22.
Björg Fenger, ræddi 7. tl., bréf mennta- og barnamálaráðuneytis varðandi styrk vegna tómstunda- og menntunarúrræða barna á flótta.

Fundargerð bæjarráðs sem er 10 tl., er samþykkt samhljóða.
5. 2207017F - Fundargerð bæjarráðs frá 26/7 ´22.
Fundargerð bæjarráðs sem er 8 tl., er samþykkt samhljóða.
6. 2208004F - Fundargerð bæjarráðs frá 9/8 ´22.
Ingvar Arnarsson, ræddi 6. tl., tilkynningu frá Umhverfisstofnun varandi stöðuskýrslu fráveitumála 2020.

Sara Dögg Svanhildardóttir, ræddi 5. tl., erindi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar varðandi rammasamning milli ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032.

Almar Guðmundsson, ræddi 5. tl., erindi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar varðandi rammasamning milli ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og 6. tl., tilkynningu frá Umhverfisstofnun varandi stöðuskýrslu fráveitumála 2020.

Ingvar Arnarson, ræddi að nýju 6. tl., tilkynningu frá Umhverfisstofnun varðandi stöðuskýrslu fráveitumála 2020 og 9. tl., erindi íbúa varðandi ágengni máfa á Sjálandi.

Gunnar Valur Gíslason, ræddi 6. tl., tilkynningu frá Umhverfisstofnun varðandi stöðuskýrslu fráveitumála 2020.

Almar Guðmundsson, ræddi 9. tl., erindi íbúa varðandi ágengni máva á Sjálandi.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, ræddi 9. tl., erindi íbúa varðandi ágengni máva á Sjálandi.

Fundargerð bæjarráðs sem er 11 tl., er samþykkt samhljóða.
7. 2208012F - Fundargerð bæjarráðs frá 16/8 ´22.
Sara Dögg Svanhildardóttir, ræddi 5. tl., afgreiðslu skipulagsnefndar varðandi verkefnalýsingu vegna tillögu að deiliskipulagi fyrir golfvöll Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar og útivistarskóg Skógræktarfélags Garðabæjar í Smalaholti.

Björg Fenger, ræddi 5. tl, afgreiðslu skipulagsnefndar varðandi verkefnalýsingu vegna tillögu að deiliskipulagi fyrir golfvöll Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar og útivistarskóg Skógræktarfélags Garðabæjar í Smalaholti.

Almar Guðmundsson, ræddi 9. tl., innritun í leikskóla haustið 2022.

Gunnar Valur Gíslason, ræddi 9. tl., innritun í leikskóla haustið 2022.

Ingvar Arnarson, ræddi 9. tl., innritun í leikskóla haustið 2022.

Almar Guðmundsson, ræddi að nýju 9. tl., innritun í leikskóla haustið 2022.

Fundargerð bæjarráðs sem er 14 tl., er samþykkt samhljóða.

Afgreiðsla mála.
 
2106536 - Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2022 - viðauki nr. 3.
 
„Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi viðauka nr. 3 við fjárhagsáætlun 2022 samkvæmt 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Viðauki nr. 3.
Í gildandi kjarasamningum Sambands ísl. sveitarfélaga eru tengiákvæði við lífskjarasamninga á almennum markaði um greiðslu hagvaxtarauka.
Forsendunefnd ASÍ og SA hefur staðfest að hagvaxtarauki að fjárhæð 10.500 kr. komi á öll taxtalaun frá 1. apríl 2022 og greiðist með launum þann 1. maí 2022.

Samband ísl. sveitarfélaga hefur gengið frá kjarasamningum við kennarafélögin um kjarasamninga við grunnskólakennara, leikskólakennara og tónlistarskólakennara. Kjarasamningarnir eru með gildistíma frá 1. janúar 2022.

Hækkun launaliðar sameiginlegs kostnaðar er tilkomin vegna ákvæða kjarasamninga 5,0 mkr og uppgjörs á launum bæjarstjóra 19,5 mkr

Ofangreindar hækkanir á launum á árinu 2022 eru metnar á 226,1 mkr. og skiptast þannig niður á einstaka málaflokka og deildir:

Fjölskyldusvið kr. 15.500.000
Fræðslusvið kr. 170.000.000
Menningarmál kr. 2.500.000
Æskulýðs- og íþróttamál kr. 6.200.000
Tæknideild kr. 2.600.000
Umhverfismál kr. 2.400.000
Sameiginlegur kostnaður kr. 24.500.000
Eignasjóður kr. 100.000
Þjónustumiðstöð kr. 2.000.000
Samveitur kr. 300.000
Samtals kr. 226.100.000


Fjárhagsáætlun 2022 gerir ráð fyrir fjárveitingu að fjárhæð 160 mkr. vegna sumarátaks ungs fólks. Áætlað er að raunkostnaður verði um 240 mkr. Ekki varð af þátttöku Vinnumálastofnunar í verkefninu á árinu 2022 eins og var árið 2021.

Sumarátak vegna vinnu ungs fólks kr. 80.000.000

Samtals hækkun launaliða kr. 306.100.000

Fjármögnun viðauka
Útgjaldaauka er mætt með varasjóði og hækkun á staðgreiðslu útsvars.

Varasjóður kr. -68.000.000 31916-7179
Staðgreiðsla útsvars kr. -238.100.000 00010-0021
Samtals kr. -306.100.000“
 
 
2202488 - Afgreiðsla skipulagsnefndar varðandi verkefnalýsingu vegna tillögu að deiliskipulagi fyrir golfvöll Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar og útivistarskóg Skógræktarfélags Garðabæjar í Smalaholti.
 
„Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar um verkefnalýsingu deiliskipulagstillögu fyrir svæði golfvallar Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar og útivistarskóg Skógræktarfélags Garðabæjar í Smalaholti, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.“ (Mál nr. 2202488)
 
 
2207039 - Afgreiðsla skipulagsnefndar varðandi óverulega breytingu á deiliskipulagi Vífilsstaðavegar og Bæjarbrautar vegna lóða við Garðatorg.
 
„Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar um óverulega breytingu á deiliskipulagi Vífilsstaðavegar og Bæjarbrautar varðandi lóðir við Garðatorg nr. 4 og 6, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan gerir ráð fyrir heimild fyrir verslanir og veitingastaði að nýta sér útisvæði. Tillagan skal grenndarkynnt samkvæmt 44. gr. skipulagslaga.“ (Mál nr. 2207039)
 
 
2205204 - Afgreiðsla skipulagsnefndar varðandi umsókn um breytingu á deiliskipulagi vesturhluta Urriðaholts vegna lóðarinnar við Víkurgötu 7.
 
„Bæjarstjórn samþykkir með tíu atkvæðum að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar að hafna umsókn lóðarhafa að Víkurgötu 7 um skiptingu raðhúsaeiningar í tvær íbúðir.“ (Mál nr. 2205204)

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, greiddi atkvæði gegn samþykkt tillögu skipulagsnefndar. Þorbjörg gerði grein fyrir atkvæði sínu.
 
8. 2206012F - Fundargerð fjölskylduráðs frá 15/6 ´22.
Gunnar Valur Gíslason, ræddi 2. tl., breytingar á barnaverndarlögum sem taka gildi 1. janúar 2023.

Fundargerðin lögð fram.
9. 2206026F - Fundargerð skipulagsnefndar frá 23/6 ´22.
Björg Fenger, ræddi 2. tl., tillögu að breytingu á vaxtarmörkum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og almennt um mál sem eru til meðferðar hjá skipulagsnefnd.

Sara Dögg Svanhildardóttir, ræddi 7. tl., breytingu á deiliskipulagi 4. áfanga norðurhluta Urriðaholts vegna lóðarinnar við Urriðaholtsstræti 9.

Fundargerðin lögð fram.
10. 2208005F - Fundargerð skipulagsnefndar frá 10/8 ´22.
Björg Fenger ræddi 2. tl., kynningu ráðgjafa á mótun skipulags á þróunarsvæði A og Hafnarfjarðarvegi milli bæjarmarka.

Sara Dögg Svanhildardóttir, ræddi 2. tl., kynningu ráðgjafa á mótun skipulags á þróunarsvæði A og Hafnarfjarðarvegi milli bæjarmarka og 3. tl. breytingu á deiliskipulagi miðbæjarsvæðis.

Fundargerðin lögð fram.
11. 2206019F - Fundargerð umhverfisnefndar frá 15/6 ´22.
Ingvar Arnarson, ræddi 1. tl., loftlagsstefnu Garðabæjar og 7. tl., leyfi fyrir uppsetningu á skjálftamælum.

Almar Guðmundsson, ræddi 7. tl., leyfi fyrir uppsetningu á skjálftamælum.

Fundargerðin lögð fram.
12. 2207010F - Fundargerð umhverfisnefndar frá 14/7 ´22.
Ingvar Arnarson, ræddi 2. tl., mengunarmælingar.

Almar Guðmundsson, ræddi 1. tl., viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi.

Fundargerðin lögð fram.
13. 2202013 - Fundargerð heilbrigðisnefndar frá 27/6 ´22.
Fundargerðin lögð fram.
14. 2201365 - Fundargerðir stjórnar SSH frá 13/6 og 5/7 ´22.
Bjarni Th. Bjarnason, ræddi 1. tl., 2. tl., og 3. tl., 540. f. og 4. tl., 541. f., er varða málefni skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.

Sara Dögg Svanhildardóttir, ræddi málefni skíðasvæðanna og 5. tl., 541. f., málefni Fjölsmiðjunnar.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, ræddi 5. tl., 541. f., málefni Fjölsmiðjunnar.

Fundargerðin lögð fram.
15. 2202087 - Fundargerðir stjórnar SHS frá 18/3, 22/4 og 27/5 ´22.
Fundargerðin lögð fram.
16. 2201214 - Fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 1/7 ´22.
Hrannar Bragi Eyjólfsson, ræddi 3. tl., endurskoðun fjárhagsáætlunar 2022, 2. tl., kaup á rafvögnum og 4. tl., önnur mál - næturstrætó í Reykjavík.

Ingvar Arnarson, ræddi 2. tl., kaup á rafvögnum og 4. tl., önnur mál - gjaldfrjálsan strætó og greiðslukerfið Klapp.

Hrannar Eyjólfsson, ræddi 4. tl., önnur mál - greiðslukerfið Klapp.

Hlynur E. Bæringsson, ræddi 2. tl., kaup á rafvögnum og pöntunarþjónustu strætó.

Björg Fenger, ræddi 4. tl., önnur mál - greiðslukerfið Klapp.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, ræddi 4. tl., önnur mál - næturstrætó og gjaldfrjálsan strætó.

Ingvar Arnarson 4. tl., önnur mál - gjaldfrjálsan strætó.

Hrannar Bragi Eyjólfsson, ræddi 4. tl., önnur mál - gjaldfrjálsan strætó

Sara Dögg Svanhildardóttir, ræddi 4. tl., önnur mál - gjaldfrjálsan strætó og pöntunarþjónustu strætó

Gunnar Valur Gíslason, ræddi pöntunarþjónusta strætó.

Harpa Rós Gísladóttir, ræddi 4. tl., önnur mál - gjaldfrjálsan strætó.

Fundargerðin lögð fram.
17. 2205417 - Kosning varamanns í fjölskylduráð.
Bæjarstjórn samþykkir að kjósa Söru Dögg Svanhildardóttir, sem varamann í fjölskylduráð í stað Ástu Sigríðar Guðjónsdóttur sem beðist hefur lausnar frá störfum varamanns.
18. 2206129 - Tilnefning fulltrúa í öldungaráð.
Á fundi bæjarstjórnar sem haldinn var 2. júní sl. voru eftirfarandi einstaklingar kosnir í öldungaráð.

Harpa Rós Gísladóttir, Jörundur Jökulsson, og Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir.

Félag eldri borgara í Garðabæ hefur tilnefnt Laufeyju Jóhannsdóttur, og Stefaníu Magnúsdóttur, til setu í öldungaráði

Félag eldri borgara á Álftanesi hefur tilnefnt Ólaf Jóhann Proppé, til setu í öldungaráði.

Heilsugæslan í Garðabæ hefur tilnefnt Margréti Björnsdóttur, til setu í öldungaráði.

Bæjarstjórn samþykkir ofangreindar tilnefningar samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, sbr. 8. gr. laga nr. 37/2018.
19. 2203101 - Gjaldskrá Tónlistarskóla Garðabæjar skólaárið 2022 - 2023.
Bæjarstjórn samþykkir gjaldskrá Tónlistarskóla Garðabæjar fyrir árið 2022 - 2023.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, tók til máls varðandi málefni skólans og rifjaði upp umræðu um þörf fyrir stækkun húsnæðis skólans.
20. 2208414 - Tillaga Viðreisnar um að aðgerðum í tillögum Haraldar Líndal Haraldssonar, um hagræðingar í rekstri verði markvist flýtt.
Sara Dögg Svanhildardóttir, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

„Bæjarstjórn samþykkir að flýta markvisst þeim aðgerðum sem eftir standa af tillögum sem lagðar eru fram í úttekt á stjórnsýslu Garðabæjar í skýrslu Haraldar Líndal Haraldssonar sem lögð var fram árið 2019.“

Greinargerð
Ábyrgur rekstur og aðhald í fjármálum er markmið okkar allra sem sitjum við bæjarstjórnarborðið. Fyrrgreind skýrsla Haraldar er ítarleg yfirferð á hagræðingar- og úrbótatækifærum sem skilar sér í betri rekstri sveitarfélagsins. Því ætti það að vera sameiginleg markmið okkar allra að stíga skrefið til fulls og beina sjónum að því hvernig við forgangsröðum verkefnunum. Fjárfrek verkefni líkt og viðhaldsþörf á skólahúsnæði sveitarfélagsins er eitt af þeim verkefnum sem Haraldur nefnir að megi ekki bíða. Þá leggur hann áherslu í skýrslunni á útboð á aðkeyptri þjónustu en þar hefur Viðreisn ekki þreyst á að benda á tækifærin til úrbóta sem á endanum skilar sér í hagkvæmari rekstri.
Viðhald á skólahúsnæði og öðrum byggingum sveitarfélagsins er ábótavant og því til mikils að vinna að forgangsraða fjármunum í viðhald á komandi misserum. Ef ekki verður gert ráð fyrir auknu fjármagni í viðhald má gera ráð fyrir enn meiri skaða vegna leka á skólahúsnæði með ófyrirséðum afleiðingum. Þá þarf að gefa lýðheilsu betri gaum í skólahúsnæði í Garðabæ og setja þau sjónarmið ofar í forgangsröðun verkefna enda vinnur það á mönnunarvanda leikskólanna, bætir starfsaðstöðu almennt og stuðlar að sjálfbærnivegferð Garðabæjar. Þær framkvæmdir sem falla undir græna lánaumgjörð Lánasjóðs sveitarfélaga er ennfremur tilvalið að fjármagna með grænni fjármögnun sem ber hagstæðari fjármögnunarkjör en önnur fjármögnun.
Aðkeypt þjónusta sveitarfélagsins er umtalsverð og til mikils að vinna að flýta þeim aðgerðum sem lagðar eru fram í úttekt Haraldar Líndal á stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Í árferði sem þessu og því sem framundan er skiptir hver króna enn meira máli.
Verðhækkanir á aðföngum að undanförnu hafa nú þegar haft töluverð áhrif á kostnað nýframkvæmda og því mikilvægt að nýta öll tækifæri til hagræðingar þar sem mikil uppbygging og stórar framkvæmdir eru í farvatninu.
Íslenska krónan, gjaldmiðillinn okkar, er ekki að hjálpa til við kaup á aðföngum erlendis frá og stýra að miklu leyti kostnaði og því enn ríkari ástæða til að leita allra þeirra leiða sem færar eru til að lækka útgjöld.
Með því að forgangsraða tillögum Haraldar Líndal og hrinda þeim í framkvæmd verður starfsaðstæður leik- og grunnskóla í Garðabæ bættar til muna og mun um leið ýta undir það mikilvæga markmið okkar allra að gera leik- og grunnskóla sveitarfélagsins enn eftirsóknarverðari vinnustaði.
Sara Dögg Svanhildardóttir.
Oddviti Viðreisnar.

Almar Guðmundsson tók til máls og lagði til að tillögunni verði vísað til bæjarráðs. Almar lagði fram eftirfarandi bókun.

„Skýrsla Haraldar Líndal um úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum Garðabæjar og tillögur var unnin að frumkvæði meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Reglulega hefur verið skýrt frá framvindu umbótaverkefna í bæjarráði, síðast í nóvember 2021. Þar hefur bæði komið fram hvaða tillögum hefur verið hrint í framkvæmd og eins ef ekki hafa verið talin rök fyrir að fylgja tillögunum eftir. Dæmi um tillögur sem eru komnar í framkvæmd eru ýmis útboðsmál, s.s. vegna máltíða í leik- og grunnskólum, aðlögun á innra skipulagi og rekstrarfyrirkomulag Ísafoldar. Áréttað er að frekari vinna að tillögunum er í gangi og verður eins og áður kynnt í bæjarráði.“

Bæjarstjórn samþykkir að vísa tillögunni til bæjarráðs.
21. 2208412 - Tillaga Garðabæjarlistans um hækkun hvatapeninga.
Ingvar Arnarson, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

„Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir að hækka hvatapeninga úr 50.000 kr. í 75.000 kr. fyrir árið 2023. Jafnframt verði eftirleiðis leitast við að hækkun hvatapeninga fylgi vísitölu neysluverðs frá ári til árs.“

Greinargerð
Íþróttir, æskulýðsstarf og tónlistarnám er afar mikilvægur þáttur í lífi barna og ungmenna, stuðlar að bættri lýðheilsu og hefur sterkt forvarnargildi. Garðabær hefur getið sér gott orðspor sem sveitarfélag sem styður sérstaklega vel við þennan málaflokk og ekki að ástæðulausu. Garðabæjarlistinn vill sjá Garðabæ áfram í fremstu röð hvað þetta varðar og leggur þess vegna til hækkun á hvatapeningum upp í 75.000 kr., en það er í samræmi við nýlega hækkun í Reykjavík.
Tilgangurinn með tillögunni er að stuðla að auknu fjárhagslegu svigrúmi fyrir barnafjölskyldur og að auka þátttöku barna í sveitarfélaginu í skipulögðum tómstundum, þá sérstaklega þeirra sem sökum efnahags eða félagslegra aðstæðna hafa ekki jafn greiðan aðgang að m.a. því öfluga starfi sem boðið er upp á í Garðabæ og styrkt af sveitarfélaginu.
Mikilvægt er í framhaldinu að stuðla beint að því að gjöld íþrótta- og æskulýðsfélaga í sveitarfélaginu verði ekki hækkuð í kjölfar þessara breytingar á hvatapeningum, heldur fylgi æfinga- og þátttökugjöld verðlagi og hvatapeningarnir þá sömuleiðis, líkt og lagt er til.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir.
Ingvar Arnarson.

Björg Fenger, tók til máls.

Hlynur E. Bæringsson, tók til máls.

Ingvar Arnarson, tók til máls.

Hrannar Bragi Eyjólfsson, tók til máls.

Gunnar Valur Gíslason, tók til máls.

Sara Dögg Svanhildardóttir, tók til máls.

Almar Guðmundson, tók til máls og lagði til að tillögunni verði vísað til fjárhagsáætlunar 2023.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, tók til máls.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa tillögunni til fjárhagsáætlunar 2023.
22. 2208413 - Tillaga Garðabæjarlistans um málstefnu Garðabæjar.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

„Bæjarstjórn samþykkir að ráðist verði í gerð málstefnu fyrir sveitarfélagið í samstarfi við Íslenska málnefnd, sbr. 130. gr. sveitarstjórnarlaga.“

Greinargerð
Mikilvægt er að upplýsingar sem koma frá Garðabæ séu skýrar, aðgengilegar sem flestum og settar fram á vönduðu máli.
Í sveitarstjórnarlögum er sérstök grein um málstefnu, sem heyrir undir „aðrar skyldur sveitarfélaga“. Þar er kveðið á um að sveitarstjórn móti málstefnu fyrir sveitarfélagið í samráði við Íslenska málnefnd og eftir atvikum málnefnd um íslenskt táknmál. Nánar er sagt til um ætlað innihald málstefnu, m.a. að öll gögn liggi fyrir á íslensku svo sem kostur er og að gert sé grein fyrir því hvenær víkja má frá þeirri reglu. Einnig eigi að ákveða hvaða gögn skuli samhliða liggja fyrir á erlendum málum og þá á hvaða tungumálum. Þá á í stefnunni að koma fram réttur íbúa af erlendum uppruna til samskipta við stofnanir sveitarfélagsins á öðrum málum en íslensku.
Gerð málstefnu Garðabæjar er til þess fallin að senda skýr skilaboð um vægi og virðingu íslenskrar tungu, en málstefna er einnig nytsamlegt tæki sem auðveldar starfsfólki að taka ákvarðanir um framsetningu gagna af ýmsu tagi og tryggir samræmi og fyrirsjáanleika í aðgengi fólks að upplýsingum.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir
Ingvar Arnarson.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, tók til máls og lagði til að vísa tillögunni til úrvinnslu bæjarstjóra..

Bæjarstjórn samþykkir að vísa tillögunni til bæjarstjóra.
23. 2208428 - Tillaga um nýtingu á óráðstöfuðu rými í Miðgarði.
Hrannar Bragi Eyjólfsson, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

„Bæjarstjórn samþykkir að fela íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar að hefja vinnu við skipulagningu á óráðstafaða rýminu sem til staðar er í nýju fjölnota íþróttahúsi Garðbæinga, Miðgarði. Íþrótta- og tómstundaráð skal hafa til hliðsjónar við vinnu sína að húsið nýtist sem flestum Garðbæingum, bæði ungum sem öldnum, og styðji og auki við þá fjölbreyttu flóru almennrar lýðheilsu, íþrótta og heilsutengdrar starfsemi sem fyrirfinnst í Garðabæ. Ráðið skal horfa sérstaklega til þess að mæta ólíkum hópum, jafnt keppnismiðuðum íþróttum sem og annarri ástundun og hreyfingu sem styðja við forvarnir og heilsueflingu bæjarbúa. Stefna skal að því að fjölbreytt heilsutengd starfsemi verði þar starfrækt jafnt af frjálsum félögum og sjálfstætt starfandi aðilum.
Íþrótta- og tómstundaráð skal leitast eftir að hafa samráð við aðrar nefndir, ungmennaráð, öldungaráð, frjáls félög og íbúa í bænum við mótun tillagna um ráðstöfun rýmisins.“

Greinargerð:
Fjölnota íþróttahúsið Miðgarður var tekið í notkun snemma árs 2022 og hafa frjálsu félögin í bænum getað nýtt knattspyrnuvöll, klifurvegg, upphitunaraðstöðu og fyrsta flokks styrktar- og þrekæfingaaðstöðu í húsinu frá opnun þess.
Enn á eftir að ráðstafa tveimur hæðum sem liggja sunnan megin í húsinu sem hvor um sig er um 1500 fermetrar að stærð. Með tillögunni er íþrótta- og tómstundaráði falið að hefja vinnu við skipulagningu rýmisins á þessum tveimur hæðum.
Því er sérstaklega beint til ráðsins að hafa það til hliðsjónar að rýmið nýtist sem flestum Garðbæingum og styðji við þá fjölbreyttu flóru íþrótta og heilsutengdrar starfsemi sem fyrirfinnst í Garðabæ. Þannig skal ráðið horfa til þess að rýmið nýtist æskulýðsstarfi, almenningsíþróttum, heilsutengdum forvörnum og félagsstarfi eldri borgara. Liður í þessari nálgun er að einnig verði horft sérstaklega til þess að mæta ólíkum hópum, jafnt keppnis- og afreksíþróttum, fólki með fötlun sem og annarri ástundun og/eða hreyfingu.
Ráðið skal einnig stefna að því að fjölbreytt heilsutengd starfsemi verði starfrækt í rýminu. Þar skal sérstaklega litið til þess að sjálfstætt starfandi aðilar, sem og frjálsu félögin, geti hafið rekstur á starfsemi sem nýtist sem flestum Garðbæingum, bæði ungum sem öldnum.
Vinna skal að því að Miðgarður sé og verði miðstöð lýðheilsu og mannlífs þar sem ungir sem eldri iðka hreyfingu, foreldrar fylgja börnum sínum á æfingar og allir njóti góðrar aðstöðu til samveru.
Íþrótta- og tómstundaráð skal leitast eftir því að vinna málið í samráði við aðrar nefndir á vegum bæjarins, s.s. ungmennaráð og öldungaráð, en einnig við frjáls félög og íbúa í bænum. Þannig skal ráðið hafa það fyrir augum að breið samstaða náist um heildarnýtingu rýmisins, sem fellur að því meginmarkmiði að Miðgarður verði sterk miðstöð fyrir samveru fjölskyldunnar, margs konar heilsueflingu og íþróttastarfsemi.
Hrannar Bragi Eyjólfsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Harpa Rós Gísladóttir, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.

Sara Dögg Svanhildardóttir, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Bæjarfulltrúi Viðreisnar hvetur íþrótta- og tómstundaráð til þess að gera sérstaklega ráð fyrir aðstöðu og búa svo um umhverfi í nýju fjölnota íþróttahúsi að stutt verði sérstaklega við almenna lýðheilsu fatlaðs fólks. Aðgengi fatlaðra barna og ungmenna að íþróttastarfi er takmarkað og því skiptir máli að styðja þannig við alla starfsemi í húsinu að gert verði ráð fyrir heilsutengdri iðkun þessa hóps sérstaklega en þeirra þörfum verði ekki ýtt til hliðar í skipulagi og forgangsröðun nýtingar á annars glæsilegu íþróttahúsi.“

Sigríður Hulda Jónsdóttir, tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu um breytingu við tillöguna.

Þriðji málsliður tillögunnar orðist þannig.

„Ráðið skal horfa sérstaklega til þess að mæta ólíkum hópum, fötluðum sem ófötluðum, jafnt keppnismiðuðum íþróttum sem og annarri ástundun og hreyfingu sem styðja við forvarnir og heilsueflingu bæjarbúa.“

Í greinargerðinni skal það einnig ávarpað með eftirfarandi breytingu.

Liður í þessari nálgun er að einnig verði horft sérstaklega til þess að mæta ólíkum hópum, jafnt keppnis- og afreksíþróttum, fólki með fötlun sem og annarri ástundun og/eða hreyfingu.

Ingvar Arnarson, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun.

„Í bæjarráði þann 1. febrúar 2022 lagði Garðabæjarlistinn fram eftirfarandi tillögu:
„Í ljósi þess að nú styttist í afhendingu á fjölnota íþróttahúsi leggur Garðabæjarlistinn til að skipaður verði rýnihópur skipaður af fulltrúum meiri- og minnihluta ásamt íþrótta-, tómstunda- og forvarnarfulltrúa, fulltrúa ungmennaráðs og félags eldri borgara.
Hlutverk rýnihóps er að kalla eftir hugmyndum um starfsemi í húsinu og kappkosta að sem fjölbreyttust sjónarmið komi fram. Rýnihópurinn kalli eftir sjónarmiðum félagasamtaka ásamt öðrum sem tengjast íþrótta- og tómstundastarfi í bænum.“
Tillaga meirihlutans sem nú er lögð fram er í takt við hugmyndir okkar í Garðabæjarlistanum líkt og fram kom í tillögu okkar 1. febrúar 2022 og munum við því styðja framkomna tillögu.“

Harpa Rós Gísladóttir, tók til máls.

Gunnar Valur Gíslason, tók til máls.

Hrannar Bragi Eyjólfsson, tók til máls.

Almar Guðmundsson, tók til máls.

Ingvar Arnarson, tók til máls á ný.

Björg Fenger, tók til máls.

Bæjarstjórn samþykkir framkomna tillögu með áorðinni breytingu.
24. 2208429 - Tillaga um úttekt á stöðu frístunda- og tómstundastarfs fyrir börn á gunnskólaaldri í Garðabæ
Björg Fenger, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

„Bæjarstjórn samþykkir að fela fræðslu- og menningarsviði að gera úttekt á stöðu frístunda- og tómstundastarfs fyrir börn á grunnskólaaldri í Garðabæ. Úttektin nái annars vegar yfir starf frístundaheimila grunnskóla og tengda starfsemi og hins vegar yfir framboð sumarnámskeiða fyrir börn á grunnskólaaldri. Í úttektinni skal frístunda- og tómstundastarf fyrir þennan aldurshóp sem er í boði innan Garðabæjar kortlagt með hliðsjón af þörfum barna og fjölskyldna, faglegum kröfum og hverjir veita þjónustuna. Áhersla skal lögð á börn á yngsta stigi grunnskóla og þjónustu á þessu sviði við fötluð börn. Markmið úttektarinnar er að kalla fram gögn sem styðja við frekari ákvörðunartöku varðandi framþróun frístunda-og tómstundastarfs þannig að það mæti þörfum barna á ýmsum aldri og auki stöðugleika í starfi.
Að auki er fræðslu- og menningarsviði falið að koma með ábendingar um hvar þörf er á aukinni eða betri þjónustu og hvernig unnt er að mæta því.“

Greinargerð:
Í Garðabæ eru starfrækt frístundaheimili við grunnskóla sem þjóna mjög mikilvægu hlutverki við að veita börnum á yngsta stigi verkefni og viðfangsefni við hæfi eftir að skólatíma lýkur.
Yfir sumartímann er boðið upp á fjölbreytta flóru námskeiða fyrir börn. Þessi námskeið eru aðallega haldin af frjálsum félögum í bænum með stuðningi frá sveitarfélaginu.
Mikilvægt er að þróa ofangreint starf áfram þannig að vetrarstarfið henti vel fyrir einstaka aldurshópa og sé eftirsótt af þeim. Fyrir liggur að börn í 3. og 4. bekk eru síður líkleg til að skrá sig á frístundaheimilin og skoða þarf hvort tilefni er til viðbragða við því.
Skoða þarf námskeiðsframboð að sumri með það fyrir augum að meta hvort framboð sé nægt, námskeið séu fjölbreytt og að þau dekki sumarleyfistíma barnanna. Þá þarf að skoða hvernig hægt er að mæta þörfum barna og fjölskyldna í Garðabæ betur með frístundastarfi í þeirra nærsamfélagi.
Úttektarvinnan er nauðsynleg forvinna þess að skoðað verði að Garðabær auki stuðning við frjálsu félögin þegar kemur að frístundastarfi barna á sumrin þannig að framboð á þjónustu verði fjölbreyttara og mæti sem allra best þörfum barnafjölskyldna. Að sama skapi þarf að skoða hvernig hægt er að bæta frístundastarf barna eftir skólatíma t.d. með aukinni samvinnu við frjáls félög.
Björg Fenger, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs
Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar

Sara Dögg Svanhildardóttir, tók til máls.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, tók til máls.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, tók til máls.

Harpa Rós Gísldóttir, tók til máls.

Bæjarstjórn samþykkir framkomna tillögu.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:00. 
Til baka Prenta

Fylgigögn eru birt með fundargerðum:

  • bæjarráðs, frá og með 12. fundi 2015
  • skólanefndar grunnskóla frá og með 14. fundi 2015
  • mannréttinda- og forvarnanefndar frá og með 16. fundi 2015
  • umhverfisnefndar frá og með 18. fundi 2015
  • leikskólanefndar frá og með 15. fundi 2015
  • menningar- og safnanefndar frá og með 12. fundi 2015
  • íþrótta- og tómstundaráðs frá og með 14. fundi 2015

Reglur um birtingu gagna með fundargerðum (sjá reglur undir stjórnsýslu).