Fundargerðir

Til baka Prenta
Skipulagsnefnd Garðabæjar
4. fundur
09.03.2023 kl. 08:00 kom skipulagsnefnd Garðabæjar saman til fundar í Sveinatungu, Garðatorgi.
Fundinn sátu: Björg Fenger formaður, Lúðvík Örn Steinarsson aðalmaður, Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir aðalmaður, Baldur Ólafur Svavarsson aðalmaður, Hlynur Elías Bæringsson aðalmaður, Guðlaugur Kristmundsson áheyrnarfulltrúi, Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri, Anna Guðrún Gylfadóttir byggingarfulltrúi, Guðbjörg Brá Gísladóttir sviðsstjóri umhverfissviðs, Hrönn Hafliðadóttir verkefnastjóri, Egill Daði Gíslason verkefnastjóri.

Fundargerð ritaði: Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið: 
1. 2302672 - Hnoðraholt N, dsk.br. Þorraholt 2 og 4.
Friðbert Friðbertsson forstjóri Heklu hf og Birgir Sigurðsson skipulagsfræðingur kynntu hugmyndir sínar um höfuðstöðvar fyrirtækisins á lóðunum Þorraholt 2 og 4.
Vísað til úrvinnslu hjá umhverfissviði og ráðgjöfum.
2. 2302671 - Hnoðraholt N,dsk.br. efstu hæðir ofl.
Lögð fram tillaga að breytingum á deiliskipulagi Hnoðraholts Norður sem miðar að því að nýta vel þá innviði sem byggðir hafa verið upp í Hnoðraholti. Sigurður Einarsson arkitekt og höfundur deiliskipulagsins gerði grein fyrir tillögunni. Tillagan gerir ráð fyrir því að bæta við inndregnum hæðum á fjölbýlishús og bæta við bílastæðum innan lóða til að mæta mögulegri fjölgun íbúða vegna aukins byggingarmagns. Tillagan gerir einnig ráð fyrir því að fjórum tveggja hæða einbýlishúsalóðum verði breytt í raðhús og parhús.
Samkvæmt tillögu getur íbúðareiningum fjölgað um 32.
Skipulagsnefnd vísar tillögunni til auglýsingar í samræmi við 1.mgr.43.gr.og 31.gr. skipulagslaga nr.123/2010.
3. 2303085 - Holtsvegur 20 dsk.br. Urriðaholt norðurhluti 1.
Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem birtur var 16. desember 2022, var byggingarleyfi, dags. 26. september 2022 fyrir 6 deilda leikskóla að Holtsvegi 20, fellt úr gildi. Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins megi hæðarkóti húss á lóðinni mest vera 55,00 en samkvæmt útgefnu byggingarleyfi er hæðarkóti hússins 57,31 Þá kemur einnig fram að skilmálar deiliskipulagsins heimili einungis að hús sé ein hæð að götu en ekki tvær.
Á fundi bæjarráðs Garðabæjar sem haldinn var 6. janúar 2023 voru samþykkt byggingaráform fyrir breyttan 5-deilda leikskóla á einni hæð. Byggingarleyfi var útgefið sama dag.
Bæjarráð hefur fjallað um stöðu framkvæmda við byggingu leikskóla að Holtsvegi á fundum sínum 2. janúar, 7. febrúar 21. febrúar og 28. febrúar 2023. Þá fundaði bæjarstjóri með þremur íbúum við Holtsveg 14-18 en íbúar hafa með bréfi, dags. 30, janúar 2023 krafist þess að ekki verði gerð breyting á deiliskipulagi lóðarinnar í þeim tilgangi að hækka hæð byggingarinnar.
Á fundi bæjarráðs sem haldinn var 28. febrúar sl. samþykkti bæjarráð að vísa til skipulagsnefndar að móta tillögu að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga norðurhluta Urriðaholts vegna lóðarinnar við Holtsveg 20 þannig að upphafleg hönnun byggingar leikskóla falli að skilmálum deiliskipulagsins. Fram kom að bæjarráð lýsir yfir vilja til að leita leiða til að lækka heildarhæð þess hluta leikskólans sem er tveggja hæða til að koma á móts við sjónarmið íbúa um að takmarka útsýnisskerðingu þeirra eins og kostur er.
Í bókun bæjarráðs kemur fram að lögð er áhersla á þá samfélagslegu hagsmuni sem að liggja því til grundvallar að byggja leikskóla fyrir 120 börn í Urriðaholti til standa undir væntingum og kröfum ungra barnafjölskyldna um að eiga kost á leikskóladvöl barna sinna frá 12 mánaða aldri.

Skipulagsnefnd samþykkir að auglýsa samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna tillögu að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga norðurhluta Urriðaholts vegna lóðarinnar við Holtsveg 20.
Um er að ræða tillögu að breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga.
Tillagan gerir ráð fyrir að aðkoma að byggingunni breytist. Í stað aðkomu á efri hæð verður aðkoma að neðri hæð. Kennisnið breytist til samræmis við breytta aðkomu. Hámarkshæð byggingar er lækkar úr 10 metrum í 9 metra. Byggingarreitur breytist. Hæð sem kallast kjallari breytist í aðkomuhæð (1.hæð), hæð sem kallast aðkomuhæð breytist í 2.hæð. Snið D-D í deiliskipulagsgreinargerð breytist og sýnir aðkomuhæð í 49.00 mys. Byggingarreitur neðri hæðar er óbreyttur en byggingarreitur efri hæðar minnkar og tekur nú aðeins til nyrsta hluta byggingarreits. Tafla sem sýnir stærðir lóðar og byggingarreits breytist þar sem að byggingarreitur efri hæðar minnkar verulega. Setning í texta greinargerðar um áætlaða stærð byggingar felld út og í stað setningar þar sem gert sé ráð fyrir 100 barna leikskóla kemur setning um 100-120 barna sex deilda leikskóla.
Tillagan skal auglýst eins og mælt er fyrir um í 31. gr. skipulagslaga og skal frestur til að gera athugasemdir við tillöguna ekki vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar. Jafnframt skal auglýsing tillögunnar borin út í nærliggjandi hús.
4. 2210617 - Gilsbúð 9 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi
Lögð fram umsókn um byggingarleyfi um breytingar á byggingu fyrirtækisins Sóma ehf að Gilsbúð 9. Sótt er um breytingu á annari hæð sem snýr að götu og gert er ráð fyrir að starfsmannamötuneyti verði komið fyrir í því rými.
Ekkert deiliskipulag telst í gildi á svæðinu.
Skipulagsnefnd vísar umsókninni til grenndarkynningar í samræmi við 44.gr.skipulagslaga nr.123/2010.
Grenndarkynna skal eigendum húsa við Gilsbúð og eigendum og íbúum að Bæjargili 16-24, 26-34,36-44,46-50 og 52-60.
Baldur Ó.Svavarsson vék af fundi undir þessum lið.
5. 2303016 - Mávanes 23 - stækkun byggingareits -Fyrirspurn til tækni- og umhverfissviðs
Lögð fram fyrirspurn um breytingu deiliskipulags Arnarness sem gerir ráð fyrir því að byggingarreitur í framhaldi af bílageymslu stækki.
Skipulagsnefnd tekur jákvætt í fyrirspurnina og metur tillöguna sem óverulega breytingu deiliskipulags Arnarness í samræmi við 2.mgr.43.gr.skipulagslaga nr.123/2010 og vísar henni til grenndarkynningar í samræmi við 44.gr.sömu laga. Grenndarkynna skal eigendum og íbúum Mávaness 21, 22,24 og 25.
6. 2303124 - Ægisgrund 12 Viðbygging - Fyrirspurn til tækni- og umhverfissviðs
Lögð fram fyrirspurn lóðarhafa að Ægisgrund 12 um hugmynd að breytingu hússins.
Svar: Á meðan að byggingin er undir hámarkshæð samkvæmt deiliskipulagi sem er 7 metrar og sett fram í kennisniði í fylgiskjali kallar breytingin ekki á deiliskipulagsferli.
7. 2302648 - Hólmatún 57 - Deiliskipulagsbreyting
Lögð fram umsókn um breytingu deiliskipulags Hólmatúns sem gerir ráð fyrir íverurými á 2.hæð.
Í deiliskipulagi Deildar og Landakots (Hólmatúns) kemur skýrt fram í grein 3.2. að íbúðarhús séu einnar hæðar og ekki sé leyfilegt að nýta ris. Hámarkshæð samkvæmt kennisniði skal vera 4,9 m yfir gólfkóta. Samkvæmt umsókn er hæð hússins um hálfum metra hærri.
Skipulagsnefnd telur að ákvæði deiliskipulagsins séu mjög skýr hvað hámarkshæð og nýtingu rishæðar varðar og er tillögunni því hafnað.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:00. 
Til baka Prenta

Fylgigögn eru birt með fundargerðum:

  • bæjarráðs, frá og með 12. fundi 2015
  • skólanefndar grunnskóla frá og með 14. fundi 2015
  • mannréttinda- og forvarnanefndar frá og með 16. fundi 2015
  • umhverfisnefndar frá og með 18. fundi 2015
  • leikskólanefndar frá og með 15. fundi 2015
  • menningar- og safnanefndar frá og með 12. fundi 2015
  • íþrótta- og tómstundaráðs frá og með 14. fundi 2015

Reglur um birtingu gagna með fundargerðum (sjá reglur undir stjórnsýslu).