Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Garðabæjar
12. (2065). fundur
21.03.2023 kl. 08:00 kom bæjarráð Garðabæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Sveinatungu, Garðatorgi.
Fundinn sátu: Björg Fenger formaður, Gunnar Valur Gíslason varaformaður, Margrét Bjarnadóttir aðalmaður, Ingvar Arnarson aðalmaður, Sara Dögg Svanhildardóttir aðalmaður, Hlynur Elías Bæringsson varaáheyrnarfulltrúi, Almar Guðmundsson bæjarstjóri, Guðjón Erling Friðriksson bæjarritari, Svanhildur Þengilsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs, Guðbjörg Brá Gísladóttir sviðsstjóri umhverfissviðs, Linda Udengård sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, Ásta Sigrún Magnúsdóttir samskiptastjóri.

Fundargerð ritaði: Guðjón Erling Friðriksson bæjarstjóri.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið: 
1. 2303126 - Afgreiðsla íþrótta- og tómstundaráðs varðandi endurskoðun reglna um afreksstyrki.
Bæjarráð vísar reglum um afreksstyrki til afgreiðslu bæjarstjórnar.
2. 2303304 - Sumarfrístundastarf barna sumarið 2023 í Garðabæ.
Sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs gerði grein fyrir undirbúningi að starfsemi sumarfrístundar 2023. Markmiðið er að um verði að ræða heilsdagsnámskeið með fjölbreyttum valmöguleikum til að mæta mismunandi áhugasviði barna. Stefnt er að því að kynna nánar upplýsingar um sumarfrístund á næstu vikum á vef Garðabæjar.
3. 2301140 - Skóladagatal leik- og grunnskóla 2023-2024.
Bæjarráð gerir ekki athugasemd við afgreiðslu leikskólanefndar og skólanefndar grunnskóla á skóladagatali 2023-2024.
skoladagatal-2023-2024 grunnur SÍ 9.pdf
4. 2211059 - Úthlutun úr þróunarsjóði grunnskóla 2023.
Lögð fram afgreiðsla skólanefndar um úthlutun úr þróunarsjóði grunnskóla 2023. Alls bárust 25 umsóknir samtals að fjárhæð 35.848.948. Allar umsóknir voru teknar til afgreiðslu og leggur skólanefnd til við bæjarráð að úthlutað verði kr. 28.000.000 í samræmi við heimild í fjárhagsáætlun til 23 verkefna. Bæjarráð staðfestir tillögur skólanefndar um úthlutun styrkja, sbr. 4. gr. reglna um þróunarsjóð grunnskóla.
5. 2303368 - Tilkynning frá innviðaráðuneytinu varðandi drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (hvítbók), dags. 17.03.23.
Í tilkynningunni kemur fram að drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (hvítbók) hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Frestur til að skila inn umsögnum er til og með 14. apríl nk.
Markmið hvítbókarinnar er að hvetja til umræðu um drög að stefnu ríkisvaldsins í málefnum sveitarfélaganna og möguleg áhrif hennar á íslenskt samfélag til skemmri og lengri tíma. Um er að ræða fyrstu hvítbókina í málefnum sveitarfélaga í samræmi við stefnumótun Stjórnarráðsins og samhæfingu áætlana á sviði byggða-, húsnæðis-, skipulags- og sveitarstjórnarmála frá upphafi.
6. 2211118 - Tilkynning frá innviðaráðuneyti varðandi breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, dags. 10.03.23.
Í tilkynningunni kemur fram að um er að ræða tillögur um gagngerar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem birtar eru í samráðsgátt stjórnvalda. Tillögurnar byggja á skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs. Frestur til að skila umsögn er til 27. mars 2023.

Meðal breytinga er:
 Nýtt jöfnunarframlag. Lagt er til að það verði veitt vegna sérstakra áskorana sem skiptist í:
Framlag vegna sérstaks byggðastuðnings.
Framlag til sveitarfélaga með sérstakt höfuðstaðarálag.

 Breytingar á framlögum vegna íslensku sem annað tungumál.
Lagt er til að Reykjavíkurborg fá greidd framlög vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál.

 Vannýting útsvars dregin frá framlögum.
Starfshópurinn leggur til að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum, þ.e. mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags.

Starfshópurinn leggur til að nýtt líkan jöfnunarframlaga verði innleitt í skrefum á fjögurra ára tímabili til að stuðla megi að fyrirsjáanleika í rekstri sveitarfélaga.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera athugasemdir við tillögur um skerðingu framlaga í þeim tilvikum sem sveitarstjórn nýtir sjálfsákvörðunarrétt sinn til ákvörðunar útsvars í samræmi við heimildir í 1. mgr. 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, sbr. einnig 1. mgr. 24. gr. laganna. Í lögunum kemur skýrt fram að það er á valdi hverrar sveitarstjórnar að ákvarða álagningarhlutfall útsvars innan ákveðinna marka og hefur sú ákvörðun engin áhrif á hlutdeild Jöfnunarsjóðs af útsvarsgreiðslum íbúa viðkomandi sveitarfélags.

Á árinu 2022 var hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvari Garðabæjar um 2,0 ma á sama tíma og sjóðurinn greiddi framlög til Garðabæjar að fjárhæð um 1,4 ma. Garðbæingar greiddu því í sjóðinn um 600 mill.kr. umfram það sem sjóðurinn greiddi sem framlög til Garðabæjar.
7. 2303307 - Tilkynning frá innviðaráðuneytinu varðandi samkomulag um að uppfæra samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, dags. 14.03.23.
Í tilkynningunni kemur fram að ríkið og sex sveitarfélög sem standa að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hafa ákveðið að hefja undirbúning að því að uppfæra sáttmálann og gera viðauka við hann. Gert er ráð fyrir að hægt verði að undirrita viðauka við samgöngusáttmálann í sumar.
8. 2303351 - Bréf innviðaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi hvatningu vegna tillagna verkefnisstjórnar um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum, dags. 15.03.23.
Bæjarráð vísar bréfinu ásamt skýrslu verkefnastjórnar um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa til bæjarstjóra.
9. 2303231 - Tilkynning frá innviðaráðuneyti varðandi Hvítbók um samgöngur ásamt mati á umhverfismatsskýrslu, dags. 10.03.23.
Í tilkynningunni kemur fram að drög að stefnu um samgöngur (hvítbók) ásamt umhverfismatsskýrslu hennar hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Frestur til að skila umsögn er til og með 21. apríl 2023.

10. 2302284 - Fundarboð aðalfundar Lánasjóðs sveitarfélaga árið 2023.
Lagt fram.
11. 2303306 - Erindi Fornleifastofnunar varðandi leyfi til fornleifarannsókna við seljarústir Vífilsstaðasels í landi Vífilsstaða, dags. 13.03.23.
Bæjarráð samþykkir að veita Fornleifastofnun leyfi til rannsókna við seljarústir Vífilsstaðasels í landi Vífilsstaða. Um er að ræða að gera könnunarskurði og hinsvegar borkjarnatöku. Að lokinni rannsókn verður gengið frá svæðinu, skurður/ir lokaðir og svæðið skilið eftir á snyrtilegan hátt.

Erindinu vísað til kynningar í skipulagsnefnd og umhverfisnefnd.
12. 2303204 - Bréf Alþingis varðandi frumvarp til laga um brottfall laga um orlof húsmæðra, nr. 53/1972, með síðari breytingum, 165. mál, dags. 09.03.23.
Bæjarráð lýsir yfir stuðningi við að frumvarpið nái fram að ganga enda verður að telja að greiðsla framlags til orlofs húsmæðra stríði gegn almennum viðhorfum sem grundvallast m.a. á jafnréttissjónarmiðum.
13. 2201384 - Bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu varðandi loftslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið, dags. 09.03.23.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja loftlagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið og felur bæjarstjóra umboð til undirritunar viðeigandi skjala.

14. 2207187 - Erindi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu varðandi útboð vegna rannsóknarborhola í Bláfjöllum, dags. 15.03.23.
Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti að farið verði í útboð vegna nýrra rannsóknarborhola í Bláfjöllum.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:00. 
Til baka Prenta

Fylgigögn eru birt með fundargerðum:

  • bæjarráðs, frá og með 12. fundi 2015
  • skólanefndar grunnskóla frá og með 14. fundi 2015
  • mannréttinda- og forvarnanefndar frá og með 16. fundi 2015
  • umhverfisnefndar frá og með 18. fundi 2015
  • leikskólanefndar frá og með 15. fundi 2015
  • menningar- og safnanefndar frá og með 12. fundi 2015
  • íþrótta- og tómstundaráðs frá og með 14. fundi 2015

Reglur um birtingu gagna með fundargerðum (sjá reglur undir stjórnsýslu).