Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Garðabæjar
9. (905). fundur
16.06.2022 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Garðabæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Sveinatungu, Garðatorgi.
Fundinn sátu: Sigríður Hulda Jónsdóttir bæjarfulltrúi. Almar Guðmundsson bæjarfulltrúi. Björg Fenger bæjarfulltrúi. Margrét Bjarnadóttir bæjarfulltrúi. Hrannar Bragi Eyjólfsson bæjarfulltrúi. Gunnar Valur Gíslason bæjarfulltrúi. Guðfinnur Sigurvinsson bæjarfulltrúi. Þorbjörg Þorvaldsdóttir bæjarfulltrúi. Greta Ósk Óskarsdóttir varabæjarfulltrúi. Sara Dögg Svanhildardóttir bæjarfulltrúi. Brynja Dan Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi.

Fundargerð ritaði: Guðjón Erling Friðriksson bæjarritari.
Fundurinn er hljóðritaður og streymt beint á vef bæjarins.

Fundargerð bæjarstjórnar frá 2. júní 2022 er lögð fram.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið: 
1. 2206002F - Fundargerð bæjarráðs frá 7/6 ´22.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, ræddi 1. tl., ráðningarsamning bæjarstjóra og óskaði eftir að bókun Ingvars á fundi bæjarráðs verði færð í fundargerð bæjarstjórnar.

„Hérna höfum við samning sem er gerður af Sjálfstæðisflokknum við oddvita þeirra og það án allrar aðkomu minnihlutans. Við í Garðabæjarlistanum viljum hafa laun bæjarstjóra lægri en þau sem eru í þessum samningi. Við teljum þetta of há laun fyrir þau störf sem bæjarstjóri í 18.000 manna sveitarfélagi á að fá.“

Þá ræddi Þorbjörg 17. tl., undirskriftarlista nemenda í Flataskóla varðandi áskorun um stóra rennibraut í Ásgarðslaug.

Almar Guðmundsson, ræddi 17. tl., undirskriftarlista nemenda í Flataskóla varðandi áskorun um stóra rennibraut í Ásgarðslaug og 21. tl., bréf Félags atvinnurekenda varðandi ályktun til sveitarfélaga vegna fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði.

Björg Fenger ræddi 1. tl., ráðningarsamning bæjarstjóra og lagði fram f.h. meirihlutans eftirfarandi bókun.

„Samkvæmt fyrirliggjandi ráðningarsamningi lækka launakjör bæjarstjóra Garðabæjar um ca 20% frá því sem áður var. Nú fær bæjarstjóri föst mánaðarlaun í stað grunnlauna ásamt fastri mánaðarlegri yfirvinnu og bifreiðastyrk vegna notkunar á eigin bifreið í stað þess að bærinn útvegaði áður bæjarstjóra bifreið og bar af henni allan kostnað. Af þessu hlýst bæði mikið hagræði og töluverður sparnaður fyrir Garðabæ. Við framangreindar breytingar var einnig tekið mið af starfskjörum bæjarstjóra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Órökstuddri endurtekinni fullyrðingu um að Garðabær sé á einhvern hátt að taka sér stöðu gegn almennri launaþróun í landinu er alfarið hafnað, enda er verið að lækka kjör bæjarstjóra verulega frá því sem var.“

Guðfinnur Sigurvinsson, ræddi 1. tl., ráðningarsamning bæjarstjóra.

Sara Dögg Svanhildardóttir, ræddi 1. tl., ráðningsamning bæjarstjóra.

Gunnar Valur Gíslason, ræddi 1. tl., ráðningsamning bæjarstjóra og 12. tl., tilkynningu frá mennta- og barnamálaráðuneytinu varðandi breytingar á barnaverndarlögum sem koma til framkvæmda 1. janúar 2023.

Guðfinnur Sigurvinsson, ræddi að nýju 1. tl., ráðningarsamning bæjarstjóra.

Fundargerðin sem er 21 tl., er samþykkt samhljóða.
 
2205413 - Ráðningarsamningur bæjarstjóra.
 
Bæjarstjórn staðfestir ráðningarsamning bæjarstjóra með sjö atkvæðum. (AG, BF, SHJ, MB, HBE, GVG, GS) Fjórir bæjarfulltrúar sitja hjá. (ÞÞ, GÓÓ, SDS, BDG)
 
2. 2206010F - Fundargerð bæjarráðs frá 14/6 ´22.
Greta Ósk Óskarsdóttir, ræddi að nýju 9. tl., bréf Styrktarsjóðs Garðasóknar varðandi ársreikning fyrir árið 2021.

Sara Dögg Svanhildardóttir, ræddi að nýju 9. tl., bréf Styrktarsjóðs Garðasóknar varðandi ársreikning fyrir árið 2021.

Almar Guðmundsson, ræddi 9. tl., bréf Styrktarsjóðs Garðasóknar varðandi ársreikning fyrir árið 2021.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, ræddi að nýju 9. tl., bréf Styrktarsjóðs Garðasóknar varðandi ársreikning fyrir árið 2021 og 11. tl., opnun tilboða í skólamáltíðir í grunn- og leikskólum Garðabæjar 2022-2025.

Greta Ósk Óskarsdóttir, ræddi að nýju 9. tl., bréf Styrktarsjóðs Garðasóknar varðandi ársreikning fyrir árið 2021.

Almar Guðmundsson, ræddi 11. tl., opnun tilboða í skólamáltíðir í grunn- og leikskólum Garðabæjar 2022-2025.

Afgreiðsla mála.


Fundargerðin sem er 11 tl., er samþykkt samhljóða.
 
2106536 - Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2022 - viðauki nr. 1.
 
Bæjarstjórn samþykkir viðauka nr. 1 við fjárhagsáætlun 2022 samkvæmt 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Í viðaukanum er búið að færa hlutdeild Garðabæjar í áætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpu bs. og Strætó fyrir árið 2022 í upphaflega samþykkta áætlun fyrir árið 2022.
Viðaukinn er gerður vegna breytinga á 20. gr. reglugerðar nr. 121/2015 þar sem kveðið er á um að færa samstarfsverkefni og byggðasamlög inn í samantekin reikningskil sveitarfélaga miðað við hlutfallslega ábyrgð sveitarfélags. Í yfirliti með viðaukanum eru sýnd áhrif hans á rekstur og sjóðstreymi samkvæmt fjárhagsáætlun.
Samkvæmt viðaukanum batnar rekstrarstaða A og B hluta um 13,5 mkr. Hlutur Garðabæjar í fjárfestingum byggðasamlaganna er áætluð um 103,6 mkr og er þegar fjármagnaður hjá félögunum.
 
3. 2205038F - Fundargerð menningar- og safnanefndar frá 23/5 ´22.
Gunnar Valur Gíslason, ræddi 3. tl., menningaruppskeruhátíð.

Guðfinnur Sigurvinsson, ræddi 3. tl., menningaruppskeruhátíð.

Fundargerðin lögð fram.
4. 2205039F - Fundargerð skólanefndar grunnskóla frá 1/6 ´22.
Sigríður Hulda Jónsdóttir, ræddi 2. tl., ráðningu skólastjóra Álftanesskóla, 3. tl., erindi Urriðaholtsskóla varðandi færslu á starfsdegi og 5. tl., samantekt á störfum skólanefndar kjörtímabilið 2018-2022.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, ræddi 4. tl., könnun á kynjajafnrétti, starfsþróun og símenntun.

Fundargerðin lögð fram.
5. 2205037F - Fundargerð skólanefndar tónlistarskóla frá 30/5 ´22.
Fundargerðin lögð fram.
6. 2204044F - Fundargerð öldungaráðs frá 4/5 ´22.
Fundargerðin lögð fram.
7. 2202013 - Fundargerð heilbrigðisnefndar frá 30/5 ´22.
Fundargerðin lögð fram.
8. 2201214 - Fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 20/5 ´22.
Gunnar Valur Gíslason, ræddi 1. tl., dómsmál Strætó bs. gegn Teiti Jónassyni ehf. og 2. tl., endurskoðun fjárhagsáætlunar 2022.

Fundargerðin lögð fram.
9. 2201292 - Fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 29/4 ´22.
Björg Fenger, ræddi framsetningu á fundargerðum stjórnar Sorpu bs. og kallaði eftir framlagningu fylgigagna sem til umfjöllunar eru varðandi afgreiðslu einstakra mála.

Sara Dögg Svanhildardóttir, ræddi fundargerðir stjórnar Sorpu bs. og tók undir ábendingar um framsetningu á fundargerðum. Sara Dögg lagði til að fundargerðir stjórna byggðasamlaganna verði teknar á dagskrá bæjarráðs.

Guðfinnur Sigurvinsson, nýkjörinn stjórnarmaður í Sorpu um tók undir ábendingar um framsetningu á fundargerðum stjórnar Sorpu bs. og kvaðst muni taka málið upp á vettvangi stjórnar Sorpu bs.

Fundargerðin lögð fram.
10. 2205417 - Kosning fulltrúa í kjörstjórn og heilbrigðisnefnd.
Bæjarstjórn samþykkir að kjósa Kristrúnu Jóhannsdóttur, sem varamann í yfirkjörstjórn Garðabæjar og Ástu Leonhards, sem varaáheyrnarfulltrúa.

Bæjarstjórn samþykkir að kjósa Jónu Sæmundsdóttur, sem varamann í heilbrigðisnefnd Garðabæjar.
11. 2206178 - Tillaga Viðreisnar og Framsóknarflokks um stefnumótunarvinnu á starfi félagsmiðstöðva Garðabæjar með það að markmiði að styrkja starf og bæta starfsumhverfi.
Sara Dögg Svanhildardóttir, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

„Bæjarfulltrúar Viðreisnar og Framsóknarflokks leggja til við bæjarstjórn að farið verði í stefnumótunarvinnu á öllu starfi félagsmiðstöðva Garðabæjar. Einnig leggja bæjarfulltrúar til að fjármagn verði tryggt til uppbyggingar á félagsstarfi á miðstigi grunnskólanna sem og við unglingastig Urriðaholtsskóla við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023.“

Greinargerð
Garðalundur er ein af stærstu félagsmiðstöðvum landsins og hefur í gegnum árin verið leiðandi í félagsstarfi ungmenna og starfsumhverfi þeirra. Starfsemi félagsmiðstöðva og hlutverk þeirra hefur tekið miklum breytingum frá því að uppganga þeirra hófst. Síðustu ár hefur orðið ákveðin stöðnun í þróun starfsins og er kominn tími til að stíga næstu skref í framþróun á þessu sviði. Í flestum sveitarfélögum er umræðan eins, skortur er á fagfólki til þess að tryggja gæði, nýbreytni og árangur starfsins.
Í bæjarfélögunum í kringum okkur hefur víða verið farið í mikla stefnumótun á starfi félagsmiðstöðva, tómstundamiðstöðva, frístundaheimila og annarrar þjónustu við börn.
Reykjavíkurborg hefur til að mynda gert ítarlega stefnuskrá fyrir tómstundamiðstöðvar og verklag og vert að líta til þeirra sem eru hvað mest leiðandi í þessu starfi. Þar er hlutverk félagsmiðstöðvanna mjög vel skilgreint og til eftirbreytni. Það er mat okkar í Viðreisn að nú sé þarft að fara í samskonar vinnu í Garðabæ.
Til að varpa ljósi á stöðuna í Garðabæ er vert að draga fram dæmi um nágrannasveitarfélag Garðabæjar, Hafnarfjörð til þess að setja hlutina í samhengi.
Að meðaltali eru um 160 börn í 8. ? 10. bekk í hverjum skóla í Hafnarfirði. Fjölmennasti skólinn er með 223 ungmenni í unglingadeild en sá minnsti er með 75. Ef tekið er inn í dæmið að í Hafnarfirði eru félagsmiðstöðvarnar að þjónusta frístund þá eru tveir skólar sem eru nálægt Garðaskóla í fjölda en annar (Hraunvallaskóli) er með 596 nemendur og hinn (Öldutúnsskóli) er með 608 nemendur í 1. til 10. bekk. Þessar starfsstöðvar hafa með sér auka stjórnendur og skólinn sem hefur náð 600 markinu hefur tvo auka stjórnendur.
Garðalundur er ein af stærstu félagsmiðstöðvum landsins í samhengi við hversu mörg börn hún á að þjónusta. Garðalundur er að þjónusta rétt undir 600 börn í unglingadeild og stefnir í yfir 600 næsta skólaár í samanburði við Hafnarfjörð er sá fjöldi á við unglingadeildir í 3-5 skólum í Hafnarfirði (3 fjölmennustu eða 5 minnstu).
Sara Dögg Svanhildardóttir - bæjarfulltrúi Viðreisnar
Brynja Dan Gunnarsdóttir - bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins

Björg Fenger, tók til máls um framkomna tillögu og lagði fram f.h. meirihlutans eftirfarandi bókun.

„Í lýðheilsu- og forvarnarstefnu Garðabæjar sem samþykkt var á síðasta ári er m.a. lögð áhersla á skipulagt frístunda- og tómstundastarf barna og unglinga. Enda hafa rannsóknir sýnt að skipulagt starf er ein besta forvörn fyrir börn og ungmenni. Starf félagsmiðstöðvanna er þar mikilvæg stoð enda eru þar skapaðar aðstæður fyrir börn og ungmenni til að njóta samveru og öðlast hlutverk undir leiðsögn leiðbeinenda.
Á undanförnum árum hefur samstarf og samvinna félagsmiðstöðvanna í bænum aukist sem hefur eflt og þroskað starfið sem og fjölbreytileika þess. Jafnframt hefur framboð á starfsemi í félagsmiðstöðvunum fyrir börn á miðstigi verið aukið.
Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí sl. er að finna fyrirheit um að starfsemi félagsmiðstöðva yrði efld, bæði fyrir börn og ungmenni. Einn liður í þeirri vinnu gæti verið stefnumótun fyrir félagsmiðstöðvarnar.
Lagt er til að tillögunni verði vísað til íþrótta- og tómstundaráðs og ungmennaráðs til nánari skoðunar og útfærslu.“

Bæjarstjórn samþykkir að vísa framkominni tillögunni til íþrótta- og tómstundaráðs og ungmennaráðs.
12. 2206179 - Tillaga Viðreisnar um starfshóp um þróun á grunnskólauppbyggingu Garðabæjar með hliðsjón af VSÓ skýrslu sem gerð var fyrir Garðabæ um íbúaþróun sveitarfélagsins til ársins 2040.
Sara Dögg Svanhildardóttir, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

„Viðreisn leggur til við bæjarstjórn að skipaður verði þverpólitískur stýrihópur sem leiddur verði af fræðslu- og menningarsviði sveitarfélagsins. Stýrihópurinn fái það hlutverk að rýna og leggja fram tillögur að grunnskólauppbyggingu Garðabæjar með hliðsjón af skýrslu VSÓ sem unnin var fyrir Garðabæ og kom út á vormánuðum 2022 um íbúaþróun til ársins 2040 og áhrifa hennar á skólasóknarsvæði sveitarfélagsins.“

Greinargerð
Í nýrri skýrslu VSÓ um íbúaþróun og skólasóknarsvæði Garðabæjar til ársins 2040 er dregin fram skýr mynd af verkefninu framundan. Það þarf að taka ákvörðun um skólauppbyggingu til framtíðar til þess að mæta fyrirsjáanlegri fjölgun íbúa. Það er ekki augljóst hvaða leið í því er best að fara. Því viljum við í Viðreisn staldra við, rýna þær sviðsmyndir sem liggja fyrir og meta þá reynslu sem fengin er með núverandi skipulagi.
Við höfum valfrelsi hér í Garðabæ, sem byggir á því að foreldrar geta valið grunnskóla, óháð því hverfi sem búið er í. Valfrelsi sem byggir á umhverfi gamla Garðabæjar þegar aðeins einn unglingaskóli var starfandi og tveir grunnskólar með nemendum frá 1. - 7. bekk.
Við í Viðreisn styðjum alvöru valfrelsi sem styður við jafnvægi í samsetningu nemenda í skólunum okkar og þann vöxt sem er fyrirsjáanlegur í bænum.
Í dag blasir við ójafnvægi, sérstaklega á milli unglingadeilda í bænum, sem eru í dag í þremur skólum. Við höfum einn unglingaskóla, Garðaskóla sem var lengi safnskóli fyrir alla unglinga í Garðabæ þegar einungis þrír grunnskólar voru starfandi í sveitarfélaginu. Nú er öldin önnur og sjö grunnskólar eru starfandi. Þar af eru tveir ætlaðir nemendum frá 1.-10. bekk og einn sjálfstætt starfandi, þar sem nemendur eru frá 5 ára og upp í 7. bekk. Þess utan er hér starfandi alþjóðaskóli fyrir grunnskólanemendur í 1. - 10. bekk.
Í greiningu um samsetningu nemenda eftir stuðningsþörf kemur fram að samsetning nemenda á milli skóla er ólík. Við sjáum líka að það er bara einn skóli sem býr við það mikla eftirspurn að húsnæðið er fyrir löngu sprungið, á meðan aðrir skólar ná ekki að fylla það rými sem þeir hafa, því aðsóknin er ekki nóg. Þetta er veruleiki sem við verðum að bregðast við. Við í Viðreisn viljum tryggja farsælt skólaumhverfi í öllum skólunum okkar fyrir öll börn og ungmenni og skapa umhverfi sem styður við jafnvægi þegar kemur að samsetningu nemenda í hverjum skóla fyrir sig.
Ástæður þessa ójafnvægis sem fyrst og fremst skapast á milli unglingadeilda eru margar. Þær þarf að rýna og finna jákvæðar og uppbyggilegar lausnir á þeim vanda sem ójafnvægið endurspeglar. Til lengri tíma gengur núverandi kerfi einfaldlega ekki upp. Hvorki fyrir skólasamfélagið okkar í heild sinni né rekstrarlega.
Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi Viðreisnar

Sigríður Hulda Jónsdóttir, tók til máls um framkomna tillögu og lagði fram f.h. meirihlutans eftirfarandi bókun.

„Skýrsla VSÓ um þörf fyrir uppbygginu húsnæðis grunn- og leikskóla í Garðabæ til ársins 2040 hefur verið tekin til umfjöllunar á fundum bæjarráðs, skólanefndar grunnskóla, leikskólanefnd og skipulagsnefnd. Sú umfjöllun mun halda áfram á þeim vettvangi, bæði hvað varðar skipulag, framkvæmdaáætlanir og eins innra skipulag og áherslur skóla. Skólanefnd mun áfram kalla eftir upplýsingum um nemendafjölda og ræða skólaþróun bæði varðandi framkvæmdir og innra starf skóla. Skipulag, staðsetning, uppbygging og breytingar á skólabyggingum og -lóðum munu að sjálfsögðu áfram vera á borði skipulagsnefndar og bæjarráðs.
Því er lagt til að tillögu um skipun sérstaks stýrihóps um málið verði hafnað.“

Sara Dögg Svanhildardóttir tók til máls.

Almar Guðmundsson, tók til máls.

Framkomin tillaga er felld með sjö atkvæðum (AG, BF, SHJ, MB, HBE, GVG, GS). Fjórir bæjarfulltrúar (ÞÞ, GÓÓ, SDS, BDG) greiða atkvæði með tillögunni.
13. 2206180 - Tillaga Viðreisnar um bætt rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi grunnskóla í Garðabæ.
Sara Dögg Svanhildardóttir, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

„Viðreisn leggur til við bæjarstjórn að rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi skóla verði breytt. Farið verði frá þeirri stefnu að greiða 100% framlag með hverju barni miðað við meðaltal reksturs grunnskóla sveitarfélagsins og skilyrði sett um að sjálfstætt starfandi skólum sé ekki heimilt að innheimta skólagjöld og til þess að greitt verði 100% framlag með hverju barni miðað við meðaltal reksturs grunnskóla á landinu öllu en áfram ekki heimilað að innheimta skólagjöld.“

Greinargerð
Í Garðabæ áttu sjálfstætt starfandi skólar best með að starfa. Hér fóru Sjálfstæðismenn með góðu og mikilvægu fordæmi árið 2003 og stóðu með rekstrarumhverfi þeirra.
Þeir hafa sagt hátt og skýrt að með hverju grunnskólabarni eigi að fylgja 100% framlag, óháð þeim skóla sem valinn er. Á móti hefur innheimta skólagjalda verið óheimiluð. Með þessu hefur rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi skólanna löngum verið sambærilegt öðrum skólum.
Við í Viðreisn stöndum með fjölbreyttu rekstrarumhverfi og teljum mjög mikilvægt að skapa umgjörð fyrir sjálfstætt starfandi skóla sem styrkir rekstrarforsendur og tryggir alvöru valfrelsi um skóla.
Á undanförnum árum hefur þó sigið á ógæfuhliðina hér í Garðabæ. Við stöndum frammi fyrir því að framlag til sjálfstætt starfandi skóla er að nálgast hin hefðbundnu 75%, sem önnur sveitarfélög hafa verið að greiða.
Rekstrarumhverfi sjálfstæðra skóla í öðrum sveitarfélögum hafa þó verið tryggari, því að þeir skólar hafa samhliða getað sótt skólagjöld fyrir eftirstandandi 25% af kostnaði. Við í Viðreisn viljum hins vegar ekki taka upp skólagjöld í Garðabæ og alls ekki að skapa þá stöðu að eftir því yrði kallað að tekin yrði upp skólagjöld í sumum skólum bæjarins. Við viljum heldur tryggja að fullt fjármagn fylgi hverju barni óháð þeim skóla sem valið er að stunda nám við.
Við í Viðreisn viljum forystu Garðabæjar í þessu máli áfram og stöndum með þeirri prinsipp afstöðu að bjóða foreldrum upp á raunverulegt frelsi til að velja.
Sara Dögg Svanhildardóttir - bæjarfulltrúi Viðreisnar.

Almar Guðmundsson, tók til máls um framkomna tillögu og lagði fram f.h. meirihlutans eftirfarandi bókun.

Garðabær hefur um langt árabil langt mikla áherslu á gæði í skólastarfi, valfrelsi og ólík rekstrarform á grunnskólastigi. Þessari nálgun hafa íbúar tekið fagnandi eins og ítrekað kemur fram í þjónustukönnunum. Þá hefur verið lögð áhersla á að allir skólar, óháð rekstrarformi, geti tekið þátt í faglegu starfi innan bæjarins og geti sótt um styrki í þróunarsjóð grunnskóla.
Meðaltal rekstrar grunnskóla á landinu öllu eins og það er birt af Hagstofunni nær yfir alla skóla, stóra sem smáa í þéttbýli og dreifbýli. Það er hærra en meðaltal rekstrar grunnskóla í Garðabæ og raunar mun hærra en meðaltal rekstrar skóla sem Samband íslenskra sveitarfélaga miðar við.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki eðlilegt að greiða meira fjármagn vegna hvers barns til sjálfstætt starfandi skóla heldur en raunin er í tilviki skóla sem reknir eru af Garðabæ. Ef það væri gert væri um að ræða mismunun milli rekstrarforma, sem brýtur í bága við forsendur eðlilegs valfrelsis.
Það er mikilvægt að árétta að samningar við sjálfstætt starfandi skóla þurfa að endurspegla sérstöðu hvers og eins skóla. Þannig þarf eftir atvikum að taka tillit til sértækra þátta eins og fjölda barna alls og eftir námsstigum, fjölda barna með miklar sérþarfir, aðstöðu- og húsnæðismála, veitingu stoðþjónustu og afnota af íþróttaaðstöðu.
Lagt er til að tillögunni verði hafnað.

Sara Dögg Svanhildardóttir, tók til máls um framkomna tillögu.

Sigríður Hulda Jónsdóttir tók til máls um framkomna tillögu.

Almar Guðmundsson, tók til máls að nýju um framkomna tillögu.

Sara Dögg Svanhildardóttir, tók til máls að nýju framkomna tillögu.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, tók til máls að nýju um framkomna tillögu.

Almar Guðmundsson, tók til máls að nýju framkomna tillögu.

Tillagan er felld með níu atkvæðum (AG, BF, SHJ, MB, HBE, GVG, GS). Einn bæjarfulltrúi greiðir atkvæði með tillögunni (SDS) og einn situr hjá (BDG).
14. 2206181 - Tillaga Garðabæjarlistans um örugg hjólastæði.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

„Bæjarstjórn samþykkir að fela tækni- og umhverfissviði að taka saman yfirlit yfir þá skóla og íþróttamannvirki þar sem mest þörf er fyrir öruggari hjólastæði, yfirbyggð og/eða myndavélavöktuð hjólaskýli. Fyrsti fasi í uppsetningu slíkra stæða og skýla, út frá fyrrnefndri þarfagreiningu, verði hluti fjárhagsáætlunar ársins 2023.“

Greinargerð
Líkt og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu hefur hjólum, rafhjólum og rafhlaupahjólum í Garðabæ reglulega verið stolið þar sem þau eru geymd fyrir utan skóla og íþróttamannvirki. Brýnt er að auka veg þeirra vegfarenda sem nota virka ferðamáta og ljóst er að öruggari geymslustaðir munu hvetja fleira fólk á öllum aldri til að nýta sér þessa samgöngukosti oftar. Bæði er um að ræða lýðheilsu- og umhverfismál.

Björg Fenger, tók til máls um framkomna tillögu og lagði fram f.h. meirihlutans eftirfarandi bókun.

,,Tillaga þessi er í samræmi við áherslur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þá áherslu má sjá í fjárhagsáætlun undanfarinna ára þar sem 5 millj. kr. hafa verið eyrnamerktar sérstaklega í að bæta aðstöðu fyrir hjól í bænum. Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí sl. var einnig sett fram fyrirheit um að fjölga og bæta öryggi við hjólageymslur í bænum.
Lagt er til að tillögunni verði jafnframt vísað til umhverfisnefndar.“

Bæjarstjórn samþykkir að vísa tillögunni til tækni- og umhverfissviðs og til umfjöllunar í umhverfisnefnd.


15. 2206189 - Tillaga um nafngiftir og fegrun hringtorga í Garðabæ
Hrannar Bragi Eyjólfsson, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

„Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir að fela menningar- og safnanefnd og umhverfisnefnd að vinna tillögur um hvernig staðið verði að nafngiftum og fegrun hringtorga bæjarins. Jafnframt skulu nefndirnar vinna með tækni- og umhverfissviði að fegrun hringtorga bæjarins.“

Greinargerð:
Hringtorg bæjarins setja mikinn svip á bæinn og eiga að vera prýði fyrir bæjarbúa og vegfarendur. Líta má til þess að hringtorgin hafi að einhverju leyti samræmda ásýnd með sumarblómum og öðrum gróðri sem hentar og skyggir ekki á umferð. Útilistaverk gætu mögulega verið á stærri hringtorgum.
Samkeppni meðal bæjarbúa varðandi nöfn á a.m.k. einhver hringtorg bæjarins er leið til að tengja bæjarbúa með lýðræðislegum hætti við verkefnið og nærsamfélag sitt. Menningar- og safnanefnd gæti einnig horft til sögu Garðabæjar, s.s. til sögu Bessastaða og forsetaembættisins, sem og nágrenni hvers torgs við nafngiftirnar.
Guðfinnur Sigurvinsson, formaður menningar- og safnanefndar.
Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs.

Guðfinnur Sigurvinsson, tók til máls um framkomna tillögu.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, tók til máls um framkomna tillögu.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða framkomna tillögu.
16. 2206188 - Tillaga um skipan undirbúningsnefndar vegna uppbyggingar miðbæjarsvæðis í Garðabæ
Sigríður Hulda Jónsdóttir, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

„Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir að skipa undirbúningsnefnd um uppbyggingu miðbæjar í Garðabæ. Markmið nefndarinnar er að vinna að undirbúningi þess að fullgera aðlaðandi og heildstæðan miðbæ á og í kringum Garðatorg. Nefndin skal m.a. huga að heildarsýn fyrir Garðatorgssvæðið, framkvæmdum og tengingum frá Hofsstöðum auk nærliggjandi svæða, gatna og stíga þar sem markmiðið er aðlaðandi umhverfi og miðbæjarsvæði sem virkar. Þá skoði nefndin hvernig hugmyndasamkeppni geti nýst í þeirri vinnu. Þá skal nefndin kanna og rýna mögulegar áfangaskiptingar framkvæmda og tímaramma. Nefndin skal leggja áherslu á náið samráð við helstu hagsmunaaðila á svæðinu.
Nefndin verði skipuð 3 kjörnum fulltrúum (2 úr meirihluta og 1 frá minnihluta). Með nefndinni starfi viðeigandi starfsmenn bæjarins. Nefndin getur leitað til sérfræðinga eða kallað þá á fund til sín.
Nefndin skili fyrstu niðurstöðum um miðjan október 2022 þannig að unnt verði að styðjast við þær við gerð fjárhagsáætlunar 2023-2026, en vinni síðan áfram og leggi fram fullgerðar hugmyndir á fyrri hluta árs 2023.“

Greinargerð:
Mikilvægt er að skipuleggja og áfangaskipta framkvæmdum við aðlaðandi miðbæ í Garðabæ, við og í kringum Garðatorg, þar sem horft er á miðbæjarsvæðið heildstætt. Hugað verði að framkvæmdum, tengingum og virkni nærliggjandi gatna og stíga.
Farið verður yfir gögn sem liggja fyrir, tækifæri sem felast í hugmyndasamkeppni og öðru vinnulagi þar sem leitast er eftir nútímalegri hönnun sem styður við jákvæða upplifun og fjölbreytt mannlíf á samtengdum svæðum. Aðlaðandi miðbær eflir bæjarbrag, laðar að fólk, fyrirtæki og þjónustu. Þar stendur íbúum til boða fjölbreytt verslun og þjónusta, vettvangur til samveru, afþreying og listir.
Undirbúningsnefnd um uppbyggingu heildstæðs miðbæjar í Garðabæ vinnur að því að móta sýn fyrir Garðatorg auk hönnunar og tengingar við nærliggjandi svæði til framtíðar í samstarfi við bæjarbúa, fagaðila og hagsmunaaðila. Í því felst m.a. að endurgera yfirbyggða hluta torgsins (göngugatan og við bókasafn), huga að aðkomu, bílastæðum, aðgengi, merkingum, hljóðvist og lýsingu. Skilgreina framkvæmdir, ásýnd, og tengingar nærliggjandi svæða, gatna og stíga.
Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar.


Guðfinnur Sigurvinsson, tók til máls um framkomna tillögu.

Sara Dögg Svanhildardóttir, tók til máls um framkomna tillögu.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, tók til máls um framkomna tillögu og lagði fram eftirfarandi bókun.

„Þetta er frábært skref og Garðabæjarlistinn styður tillöguna af heilum hug.
Í þessari vinnu er mjög mikilvægt að horft verði sérstaklega til aðgengis fatlaðs fólks, eldra fólks og barna að svæðinu. Einnig skiptir máli að hafa hjólandi og gangandi vegfarendur í forgangi og leita leiða til þess að miðbærinn okkar kafni ekki í bílaumferð eins og raunin er núna. Garðatorg er frábærlega fjölbreyttur þjónustu- og verslunarkjarni, en við verðum að gera hann meira aðlaðandi og grænni.“

Greta Ósk Óskarsdóttir, tók til máls um framkomna tillögu.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða framkomna tillögu.
17. 2202330 - Reglur um greiðslur til forráðamanna barna eldri en 12 mánaða sem ekki hafa fengið úthlutað leikskólavist.
Almar Guðmundsson, fylgdi úr hlaði reglum um greiðslur til forráðamanna barna eldri en 12 mánaða sem ekki hafa fengið úthlutað leikskólavist.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, tók til máls.

Almar Guðmundsson, tók til máls og lagði til að í 1. tl., komi fram skýrt að um er að ræða vistun á leikskóla í Garðabæ.

Bæjarstjórn samþykkir reglur um greiðslur til forráðamanna barna eldri en 12 mánaða sem ekki hafa fengið úthlutað leikskólavist til að taka gildi 1. júní 2022 með áorðinni breytingu.
18. 2206149 - Tillaga um sumarleyfi bæjarstjórnar 2022.
Með vísan til 14. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 svo og 8. gr. samþykktar um stjórn Garðabæjar nr. 773/2013 samþykkir bæjarstjórn að fella niður reglulega fundi í sumarleyfi bæjarstjórnar í júlí og til 18. ágúst 2022. Fyrsti fundur bæjarstjórnar eftir sumarleyfi verður boðaður með dagskrá sem send verður bæjarfulltrúum 16. ágúst 2022.

Bæjarstjórn samþykkir að veita bæjarráði fullt umboð til afgreiðslu mála meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stendur, svo sem mælt er fyrir um í 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í lok fundar óskaði Sara Dögg Svanhildardóttir, að bóka vegna afgreiðslu samkvæmt 13. tl.

„Það kemur verulega á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ standi ekki með sjálfstæðum skólum og greiði atkvæði gegn því að bæta rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi skóla, líkt og ákveðið hefur verið að gera í Hafnarfirði og Reykjavík.?

Sigríður Hulda Jónsdóttir lagði fram f.h. meirihlutans eftirfarandi gagnbókun

„Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn árétta að ekki er um neina stefnubreytingu að ræða hjá Garðabæ hvað varðar stuðning við fjölbreytt skólastarf og þar með rekstur sjálfstætt starfandi skóla. Garðabær hefur ávallt, á ýmsan hátt, sýnt í verki stuðning við starfsemi sjálfstætt starfandi skóla og mun gera það áfram.“

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:00. 
Til baka Prenta

Fylgigögn eru birt með fundargerðum:

  • bæjarráðs, frá og með 12. fundi 2015
  • skólanefndar grunnskóla frá og með 14. fundi 2015
  • mannréttinda- og forvarnanefndar frá og með 16. fundi 2015
  • umhverfisnefndar frá og með 18. fundi 2015
  • leikskólanefndar frá og með 15. fundi 2015
  • menningar- og safnanefndar frá og með 12. fundi 2015
  • íþrótta- og tómstundaráðs frá og með 14. fundi 2015

Reglur um birtingu gagna með fundargerðum (sjá reglur undir stjórnsýslu).