8. feb. 2022

Þróunarsjóður grunnskóla

Garðabær auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar úr Þróunarsjóði grunnskóla Garðabæjar

  • Nýsköpun og vöruhönnun - Garðaskóli - Hönnunarsafn
    Nýsköpun og vöruhönnun - Garðaskóli - Hönnunarsafn

Þróunarsjóðnum er ætlað að stuðla að nýbreytni og framþróun í starfi skóla í Garðabæ. Einstaka kennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar sem starfa við skóla í Garðabæ, einn skóli eða fleiri skólar/fagaðilar í sameiningu, fræðslu- og menningarsvið í samstarfi við skóla geta sótt um styrk í sjóðinn.
Til úthlutunar árið 2022 eru 28 milljónir.

Áhersluþættir Þróunarsjóðs grunnskóla 2022-2023

  • Félags-, samskipta- og leiðtogaþjálfun: Hagnýt færniþjálfun nemenda varðandi samskipti og vináttu, að takast á við áskoranir nútímasamfélags (s.s. áreiti, streitu, kvíða, samfélagsmiðla og félagslega einangrun) með viðurkenndum aðferðum sem styðja við styrkleikaþjálfun, vellíðan, samhygð og færni í samfélagi 21. aldar.
  • Íslenska sem annað mál og fjöltyngi í skólastarfi: Fjölbreyttar og framsæknar nálganir til að mæta aðstæðum nemenda með annað móðurmál en íslensku. Efla stuðning við nemendur þannig að þeir læri íslensku og geti stundað alhliða nám í íslensku skólastarfi með jafnöldrum sínum. Auka virkni þeirra, menningarfærni og árangur. Skapa umgjörð til að þeir geti tekið virkan í þátt í samfélaginu með jafnöldrum sínum.
  • Menntun til farsældar barna og ungmenna í barnvænu samfélagi: Efla menntun sem stuðlar að lýðræðisþátttöku nemenda í skólastarfinu, auka seiglu þeirra og byggja upp jákvæðan skólabrag þannig að fjölbreytileiki skólasamfélagsins megi dafna. T.d. með því að efla samband nemenda og kennara, samstarf heimilis og skóla, fjölbreytilegt námsumhverfi út frá áhugahvöt og styrkleikum nemenda, auka sveigjanleika og fjölbreytileika námsumhverfisins.
  • Framsæknir kennsluhættir og samvinna kennara/fagaðila: Frumlegar nálganir til að ná til nemenda og styðja við virkni þeirra og árangur, s.s. með eflingu teymiskennslu/vinnu, upplýsingatækni, vendikennslu, einstaklingsverkefna, sköpunarsmiðja, fjölbreytts námsmats o.fl.
  • Horfum til framtíðar með reynslu úr skólastarfi á tímum heimsfaraldurs Skoða reynslu nemenda og starfsfólks á skólahaldi á tímum heimsfaraldurs. Hvað reyndist okkur vel? Nýtum reynsluna enn frekar og festum í sessi í skólastarfinu.


Einnig er hægt að sækja um styrki til verkefna sem styðja við skólanámskrá og sérstöðu hvers skóla. Við afgreiðslu er m.a. horft til tengingar við fræðasamfélagið og samstarfs milli skóla og skólastiga.

Umsóknir skulu hafa borist fyrir 1. mars og verður þeim svarað fyrir 31. mars.

Frekari upplýsingar veitir:
Edda Björg Sigurðadóttir, grunn- og tónlistarskólafulltrúi Garðabæjar, s. 525 8500, eddabsig@gardabaer.is

Reglur:

Reglur þróunarsjóðs grunnskóla og þróunarsjóðs leikskóla eru aðgengilegar á vefnum á síðunni stjórnsýsla/reglugerðir undir flokknum fræðslu- og menningarmál.

Eyðublöð:

Umsókn um styrk úr þróunarsjóði grunnskóla í Garðabæ - rafræn umsókn í þjónustugátt Garðabæjar.

Úthlutanir úr þróunarsjóðnum:

Hér má sjá lokaskýrslur verkefna sem hafa hlotið styrk úr þróunarsjóðnum, flokkuð eftir leikskólastigi, yngsta stigi, miðstigi og unglingastigi grunnskóla