28. feb. 2022

Þróunarsjóður leikskóla

Garðabær auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar úr Þróunarsjóði leikskóla Garðabæjar. 

  • Sögupokar á Lundabóli
    Sögupokar á Lundabóli -verkefni sem hefur fengið styrk úr Þróunarsjóði leikskóla Garðabæjar.

Garðabær auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar úr Þróunarsjóði leikskóla Garðabæjar. Þróunarsjóðnum er ætlað að stuðla að nýbreytni og framþróun í starfi leikskóla í Garðabæ. Einstaka kennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar og starfsfólk sem starfa við leikskóla í Garðabæ, einn leikskóli eða fleiri leikskólar/fagaðilar í sameiningu, fræðslu- og menningarsvið í samstarfi við leikskóla geta sótt um styrk í sjóðinn.

Til úthlutunar árið 2022 eru 4,5 miljónir.

Áhersluþættir Þróunarsjóðs leikskóla 2022-2023

  • Áhrif barna á mótun leikskólastarfs.
    Í leikskóla ber að stuðla að jafnrétti og virkri þátttöku barna í samfélaginu með því að skapa þeim tækifæri til að upplifa lýðræðisleg vinnubrögð og samskipti í daglegu starfi. Þannig öðlast þau skilning á því hvað lýðræði felur í sér, læra lýðræðisleg gildi og vinnubrögð og þróa með sér samfélagsvitund.
  • Samræður með börnum.
    Þarfir og áhugi sem börn láta í ljós á fjölbreyttan hátt eiga að vera sá grunnur sem mótar umhverfi og starfshætti leikskólans. Í samstarfi við önnur börn og fullorðna skiptast þau á skoðunum, finna lausnir og miðla málum.
  • Val barna á verkefnum og efnivið.
    Umhverfi leikskóla á að örva skynjun og styðja við sköpunarkraft barna. Gera skal börnum kleift að nálgast viðfangsefni frá mörgum hliðum og á eigin forsendum. Hlutverk leikskólakennara felst m.a. í því að velja leiðir sem hvetja til skapandi hugsunar og sjálfstæðra vinnubragða hjá börnunum


Einnig er hægt að sækja um styrki til verkefna sem styðja við skólanámskrá, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Heilsueflandi samfélag og sérstöðu hvers skóla. Við afgreiðslu er m.a. horft til tengingar við fræðasamfélagið og samstarfs milli skóla og skólastiga. Styrkir eru ekki ætlaðir til sértækra efnis- eða tækjakaupa.

Umsóknir skulu hafa borist fyrir 1. apríl og þeim verður svarað fyrir 30. apríl.

Frekari upplýsingar veitir:
Halldóra Pétursdóttir leikskólafulltrúi Garðabæjar, s. 525 8500, halldorapet@gardabaer.is

Reglur:

Reglur þróunarsjóðs grunnskóla og þróunarsjóðs leikskóla eru aðgengilegar á vefnum á síðunni stjórnsýsla/reglugerðir undir flokknum fræðslu- og menningarmál.

Eyðublöð:

Umsókn um styrk úr þróunarsjóði leikskóla í Garðabæ - rafræn umsókn í þjónustugátt Garðabæjar.

Úthlutanir úr þróunarsjóðnum:

Hér má sjá lokaskýrslur verkefna sem hafa hlotið styrk úr þróunarsjóðnum, flokkað eftir leikskólastigi, yngsta stigi, miðstigi og unglingastigi grunnskóla