Skipulag í kynningu

Hér má nálgast þau skipulagsmál sem eru í kynningu hjá Garðabæ. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér málin.

Athugasemdum eða ábendingum við kynntar tillögur skal skila skriflega til tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar, Garðatorgi 7, eða með tölvupósti á skipulag@gardabaer.is fyrir lok þess dags sem gefinn er upp hverju sinni.


Fjölnota íþróttahús

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Hnoðraholts og Vetrarmýrar

23.10.2018

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Hnoðraholts og Vetrarmýrar

Bæjarstjórn Garðabæjar auglýsir hér með tillögu á breytingu á deiliskipulagi Hnoðraholts og Vetrarmýrar vegna fjölnota íþróttahúss ásamt umhverfisskýrslu samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 3. mgr. 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 þar sem framkvæmdin fellur undir tl. 10.03 í viðauka 1 í lögum um umhverfismat. Tillagan er auglýst samkvæmt 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 41. gr. sömu laga.

 Tillagan gerir ráð fyrir lóð fyrir fjölnota íþróttahús með rými fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð innanhúss auk upphitunaraðstöðu í plani við hann, ásamt tilheyrandi stoðrýmum.

Byggingareitur er staðsettur austan Vetrarbrautar við rætur Hnoðraholts. Áður auglýst breytingartillaga gerði ráð fyrir byggingarreit fjölnota íþróttahússins nokkuð sunnar.

 Ytri mál byggingarreitsins eru 97x143 m og hámarkshæð frá aðkomukóta er 23 m, sem er 39 mys.

 Markmið deiliskipulags lóðarinnar eru:

  1. Að skapa umgjörð um raunhæfa og framsýna lausn á íþróttasvæði í góðum tengslum við byggð og samgöngur.
  2. Að helstu rými íþróttamannvirkja njóti dagsbirtu í eins ríkum mæli og aðstæður leyfa.
  3. Að hafa umhverfismál og sjálfbærni að leiðarljósi.
  4. Að skapa öruggt og líflegt almenningsumhverfi, m.a. með „opnum og lifandi“ jarðhæðum þar sem því verður við komið.
  5. Að móta skjólsæl rými.
  6. Að byggja upp öruggt umferðarkerfi þar sem sérstök áhersla er lögð á liðugt flæði gangandi og hjólandi umferðar og tengingar við nærliggjandi svæði.

Tillaga að deiliskipulagi - uppdráttur

Deiliskipulagsbreytingartillagan liggur frammi á bæjarskrifstofum Garðabæjar, Garðatorgi 7, frá  24. október 2018 til og með 5. desember 2018.  Hún er einnig aðgengileg á heimasíðu Garðabæjar www.gardabaer.is

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við deiliskipulagsbreytingartillöguna. Frestur til þess að skila inn athugasemdum og ábendingum rennur út miðvikudaginn 5. desember 2018.

Skila skal athugasemdum á bæjarskrifstofur Garðabæjar eða á netfangið skipulag@gardabaer.is og skulu þær vera skriflegar.