Skipulag í kynningu

Hér má nálgast þau skipulagsmál sem eru í kynningu hjá Garðabæ. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér málin.

Athugasemdum eða ábendingum við kynntar tillögur skal skila skriflega til tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar, Garðatorgi 7, eða með tölvupósti á skipulag@gardabaer.is fyrir lok þess dags sem gefinn er upp hverju sinni.


Skipulags- og matslýsing fyrir nýtt deiliskipulag fyrir útivistarsvæði í Urriðavatnsdölum.

26.10.2020

Skipulags- og matslýsing

Þann 15.10.2020 samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar tillögu skipulagsnefndar um skipulags- og matslýsingu vegna deiliskipulags fyrir útivistarsvæði í Urriðavatnsdölum, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Mörk fyrirhugaðs deiliskipulags afmarkast af landamerkjum til vesturs, deiliskipulagsmörkum
Urriðaholts og mörkum friðlýsingar fyrir Maríuhella til norðurs, mörkum deiliskipulags Heiðmerkur til
austurs og mörkum friðlýsingar fyrir Búrfell og landnotkunarreit íþróttasvæðis (ÍÞ 5.17) til suðurs.
Deiliskipulagssvæðið er um 200 ha að stærð. Megin markmið deiliskipulagsins er að í Urriðavatnsdölum verði aðlaðandi útivistarsvæði, með góðu stígakerfi fyrir almenning jafnt sem golfiðkendur og
aðstöðu til golfiðkunar, samhliða vernd einstakrar náttúru, menningarminja og landslags.
Í deiliskipulagi verður gert ráð fyrir góðum aðstæðum til almennrar útivistar á svæðinu m.a.
með því að koma fyrir útivistarstígum með tengingum við nærliggjandi svæði. Áhersla verður lögð á
verndun hraunsins. Gert er ráð fyrir að staðsetja upplýsinga- og fræðsluskilti um jarðfræði, náttúrufar
og sögu svæðisins. Við hönnun golfbrauta og göngustíga verður lögð áhersla á að hagsmunir
ólíkra útivistarhópa geti farið saman. Innan deiliskipulagssvæðisins er Urriðakotshraun, sem til stendur að friðlýsa sem fólkvang, samhliða deiliskipulagsvinnunni. Við jaðar Urriðakotshrauns er
Urriðavöllur, 18 holu golfvöllur. Til stendur að stækka golfvöllinn um níu holur. Ráðgert er að hluti nýrra
brauta fari inn á s.k. hraunflata í Urriðakotshrauni og verði innan marka fyrirhugaðs fólkvangs. 

Í gildi er deiliskipulag fyrir golfvöllinn frá 1991, Deiliskipulag golfvallar í Urriðavatnsdölum, sem gert
er ráð fyrir að falli úr gildi við staðfestingu nýs deiliskipulags. 

Skipulagslýsing fyrir tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030, uppland Garðabæjar er auglýst samhliða. 

Skipulags- og matslýsingin liggur frammi á bæjarskrifstofu Garðabæjar, Garðatorgi 7, frá 27. október til og með 9. nóvember 2020. Einnig er hún aðgengileg á vef Garðabæjar, www.gardabaer.is Þeir sem telja sig eiga hagsmuni að gæta er gefinn kostur á að senda inn skriflegar ábendingar. 

Frestur til að skila inn ábendingum rennur út mánudaginn 9. nóvember 2020. Skila skal ábendingum á bæjarskrifstofu Garðabæjar eða á netfangið skipulag@gardabaer.is