Skipulag í kynningu

Hér má nálgast þau skipulagsmál sem eru í kynningu hjá Garðabæ. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér málin.

Athugasemdum eða ábendingum við kynntar tillögur skal skila skriflega til tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar, Garðatorgi 7, eða með tölvupósti á skipulag@gardabaer.is fyrir lok þess dags sem gefinn er upp hverju sinni.


Uppland Garðabæjar, Urriðakotsdalir og Vífilsstaðahraun

29.3.2022

Aðalskipulagsbreyting og tvæ deiliskipulagstillögur. Forkynning

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar þann 3. mars sl. var samþykkt að vísa til forkynningar samkvæmt 2.mgr. 30. gr. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eftirfarandi tillögum:

Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 vegna stígakerfis í upplandi Garðabæjar
Aðalskipulagsbreytingin felst í endurskoðun á reiðleiðum og stígum í upplandi Garðabæjar til
samræmis við deiliskipulagtillögur og friðlýsingartillögu sem kynntar eru samhliða.

Markmið tillögunnar er að laga stígakerfið að eftirfarandi tillögum: að deiliskipulagi Fólkvangsins í Vífilstaðahrauni, að friðlýsingu Urriðakotshrauns sem fólkvangs í samstarfi við Umhverfisstofnun, að deiliskipulagi fyrirhugaðs fólkvangs og golfvallar í Urriðakotsdölum. Einnig að laga stígakerfið að þeim breytingum sem hafa orðið vegna uppbyggingar í Garðabæ austan Reykjanesbrautar. 
Tillagan gerir m.a. ráð fyrir því að reiðstígur meðfram Flóttamannavegi og Elliðavatnsvegi leggist af en nýr reiðstígur komi úr Grunnuvatnaskarði um Ljóskollulág og niður Vífilsstaðahlíð sem tengist reiðstíg í Urriðakotshrauni. Gert er ráð fyrir breyttri legu Flóttamannavegar frá Urriðaholti að Vífilsstöðum til að bæta umferðaröryggi og einnig göngu- og hjólreiðabrú yfir Reykjanesbraut austan mislægra gatnamóta Urriðaholtsstrætis og Reykjanesbrautar.

Tillaga að deiliskipulagi fyrir útivistarsvæði í Urriðakotsdölum
Markmið deiliskipulagsins er að í Urriðakotsdölum og í Urriðakotshrauni verði aðlaðandi útivistarsvæði og að á Urriðavelli verði aðstaða til golfiðkunar í hæsta gæðaflokki. Samhliða gerð deiliskipulagsins er unnið að því að friðlýsa Urriðakotshraun sem fólkvang og hefur leiðarljós í deiliskipulagsvinnunni verið að stuðla að vernd hraunsins og náttúrlegs gróðurfars á svæðinu og skapa góðar aðstæður til útivistar með vönduðum stígum í góðum tengslum við stígakerfi í upplandi Garðabæjar. Tillagan gerir ráð fyrir stækkun Urriðavallar og nýjum útivistarstíg. Hluti golfvallar verður innan fyrirhugaðs fólkvangs í
Urriðakotshrauni.

Tillaga að deiliskipulagi fólkvangs í Vífilsstaðahrauni.
Markmið deiliskipulagsins er að skipuleggja svæði til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu samhliða því að vernda jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar. Skilgreint er fyrirkomulag göngu- og hjólastíga, fræðslu- og áningarstaða. Veglína Flóttamannavegar er endurskoðuð til að bæta öryggi á veginum. Stofnstígur milli Urriðaholts og Vífilsstaða meðfram Reykjanesbraut verður skilgreindur sem samgöngustígur með aðskildri umferð gangandi og hjólandi.

Tillögurnar eru aðgengilegar á vef Garðabæjar, www.gardabaer.is, og í þjónustuveri Garðabæjar,
Garðatorgi 7, 210 Garðabæ. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að senda inn skriflegar ábendingar. Frestur til að skila inn ábendingum er til og með 25. apríl 2022. Skila skal ábendingum á bæjarskrifstofu Garðabæjar eða á netfangið skipulag@gardabaer.is  

Kynningarfundur verður haldinn í Sveinatungu, Garðartorgi 7, miðvikudaginn 6. apríl kl. 17:00. Á fundinum verða tillögurnar kynntar sem og tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingu fólkvangs í Urriðakotshrauni. Allir velkomnir.