Skipulag í kynningu

Hér má nálgast þau skipulagsmál sem eru í kynningu hjá Garðabæ. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér málin.

Athugasemdum eða ábendingum við kynntar tillögur skal skila skriflega til tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar, Garðatorgi 7, eða með tölvupósti á skipulag@gardabaer.is fyrir lok þess dags sem gefinn er upp hverju sinni.


Urriðaholt

11.12.2020

Tillaga að aðalskipulagsbreytingu í Urriðaholti og tillaga að deiliskipulagi Urriðaholt norðurhluti 4

Bæjarstjórn Garðabæjar auglýsir í samræmi við 1. mgr. 31. gr., sbr. 36. gr., og 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 sem nær til svæðis í Urriðaholti og deiliskipulagstillögu fyrir Norðurhluta 4 í Urriðaholti (endurauglýst).

Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030, tillaga að breytingu. Urriðaholt.
Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar nær til svæðis norðan við Urriðaholtsstræti og er markmið aðalskipulagsbreytingarinnar að setja fram á skýran hátt að íbúðarbyggð er heimil á því svæði sem þarna er vísað til ásamt atvinnuhúsnæði.

Urriðaholt. Norðurhluti 4. Tillaga að deiliskipulagi.
Deiliskipulagstillagan nær til svæðis fyrir nýja íbúðabyggð og atvinnustarfsemi norðan við
Urriðaholtsstræti, auk útivistarsvæðis næst Flóttamannavegi. Hluti af deiliskipulagstillögunni er endurskoðun á deiliskipulagi fyrsta áfanga Urriðaholts, sem kallað er Viðskiptastræti og náði yfir húsin næst gatnamótum Urriðaholtsstrætis og Holtsvegar. Við gildistöku deiliskipulags Norðurhluta 4 fellur deiliskipulag Urriðaholts Viðskiptastrætis úr gildi. Hæðir húsa á skipulagssvæðinu verða á bilinu 4-6 hæðir. Fjöldi íbúða verður 218 (36 þegar byggðar), og atvinnuhúsnæði verður um 48.000 m2 (um 11.000 þegar byggt eða í byggingu). Umhverfisskýrsla er hluti af tillögunni í samræmi við lög nr. 105/2006." 

Tillögurnar liggja frammi á bæjarskrifstofu Garðabæjar, Garðatorgi 7, frá 11.12.2020 til og með 22.01.2021. Einnig eru þær aðgengilegar á vef Garðabæjar ásamt kynningarefni um tillögurnar.
Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að senda inn athugasemdir við tillögurnar.
Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út 22. janúar 2021. Skila skal athugasemdum á bæjarskrifstofu Garðabæjar, Garðatorgi 7, 210 Garðabæ eða á netfangið skipulag@gardabaer.is