Skipulag í kynningu

Hér má nálgast þau skipulagsmál sem eru í kynningu hjá Garðabæ. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér málin.

Athugasemdum eða ábendingum við kynntar tillögur skal skila skriflega til tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar, Garðatorgi 7, eða með tölvupósti á skipulag@gardabaer.is fyrir lok þess dags sem gefinn er upp hverju sinni.


Vífilsstaðahraun, Maríuhellar og Vatnsmýri. Skipulagslýsing

Skipulagslýsing

19.10.2021

Skipulagslýsing

Að tillögu skipulagsnefndar samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar á fundi sínum þann 7. október 2021 lýsingu að gerð deiliskipulags í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulagsnefnd Garðabæjar samþykkti á fundi sínum þann 29. apríl 2021 að fela tækni-og umhverfissviði að hefja vinnu við mótun tillögu að deiliskiplagi Fólkvangs í Vífilsstaðahrauni, Maríuhellum og Vatnsmýrinni. Stærsti hluti svæðisins, ásamt Garðahrauni, var friðlýst 2014 og var friðlýsingin endurskoðuð 2021 þar sem Vatnsmýrinni var bætt við.

Samhliða því að skipuleggja fólkvanginn í samræmi við friðlýsinguna þarf að tengja saman hverfin sem eru norðan, sunnan og vestan við svæðið með stígum. Sérstaklega þarf að tryggja aðgengi að íþróttasvæðinu, sem er norðan við fólkvanginn, úr hverfunum umhverfis. Skilgreint verður fyrirkomulag göngu-, hjóla- og reiðstíga ásamt því að útfæra útivistar- og almenningssvæði. Í rammaskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir stíg til suðurs frá Vífilsstaðaspítala yfir Vatnsmýri þar sem hann endar í göngu- og fuglaskoðunarbrú.

Deiliskipulagssvæðið er um 70 ha að stærð og afmarkast það af Reykjanesbraut í vestri, stofnstíg í norðri, Heiðmörk í austri og Urriðaholti í suðri. Göngustígur liggur um norður- og austurhluta svæðisins og reiðleið um austur og suðurhluta svæðisins. Aðkoma akandi að Vífilsstaðahrauni og Vatnsmýrinni er um Elliðavatnsveg og eru stór bílastæði við Vífilsstaðavatn en einnig er lítið bílastæði við veginn Vífilsstaðahrauns megin. Aðkoman að Maríuhellum er um Heiðmerkurveg og eru bílastæði rétt hjá hellunum við gatnamót Heiðmerkur- og Elliðavatnsvegar. Gangandi og hjólandi komast um stíga frá Urriðaholti og einnig frá Lundar- og Flatarhverfi um undirgöng undir Reykjanesbraut.

Lýsingin verður í samræmi við 2. mgr. 40. gr. sömu laga send umsagnaraðilum. Umsagnaraðilar eru: Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, Umhverfisstofnun, Minjastofnun og Vegagerðin.

Lýsingin verður aðgengileg í þjónustuveri og á heimsíðu Garðabæjar. Birt verður auglýsing um kynningu hennar í Fréttablaði, Garðapósti og á heimasíðu.

Hægt er að skila inn ábendingum vegna lýsingarinnar á netfangið skipulag@gardabaer.is eða í þjónustuver til og með mánudeginum 8. nóvember nk.