Vetrarmýri - ráðgjafarþjónusta - forval

23. apr. 2021

Þjónusta og ráðgjöf við úthlutun lóðarréttinda og sölu byggingarrétta í Vetrarmýri, Garðabæ. // Advisory services in relation to allocation of plots and sale of construction rights - Vetrarmýri

 Garðabær óskar eftir umsóknum um þátttökurétt í lokuðu útboði vegna kaupa á þjónustu og ráðgjöf við úthlutun lóðarréttinda og sölu byggingarrétta í Vetrarmýri í landi Vífilsstaða í Garðabæ, og umsjón með tengdum verkþáttum, líkt og nánar greinir í auglýsingu þessari.

Vetrarmýri - miðsvæði er nýtt uppbyggingarsvæði í Garðabæ, sem er um 20 ha að flatarmáli. Svæðið liggur meðfram Reykjanesbraut til vesturs, Vífilsstaðavegi til suðurs, golfvelli GKG til austurs og Hnoðraholti til norðurs. Gott aðgengi er að svæðinu frá bæði Reykjanesbraut og Arnarnesvegi og fyrirhugað er að á og að svæðinu verði göngu- og hjólastíganet. Auk þess verður greitt aðgengi að fjölbreyttum útivistarsvæðum, svo sem Smalaholti, Vífilsstaðahrauni og upplandi Garðabæjar. Unnið er að því að umhverfisvotta deiliskipulagið samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu Breeam Communities.
Vetrarmýri í GarðabæVetrarmýri í GarðabæÍ Vetrarmýri er gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða, verslunar og þjónustu og fjölnota íþróttasvæði. Samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið liggur fyrir. Áætlað er að á svæðinu verði 664 íbúðir og um 36.000 m² af atvinnuhúsnæði. Vetrarmýri er hluti af stærra skipulagssvæði, rammahluta aðalskipulags, sem skilgreint er sem þróunarsvæði B Vífilsstaðaland. Rammahlutinn gerir ráð fyrir alls níu deiliskipulagsáföngum og horft er til uppbyggingar á Vífilsstöðum til lengri framtíðar. Alls er gert ráð fyrir 2.000 – 2.400 íbúðum á öllu skipulagssvæðinu í heild og 146.000 – 156.000 m² af stofnunum og atvinnuhúsnæði.   

Þjónustan sem leitað er eftir felst í að annast ráðgjöf og þjónustu við Garðabæ um fyrirkomulag úthlutunar lóðarréttinda og sölu byggingarrétta, og umsjón með gerð verðmats og sölukynninga, markaðssetningu, öflun umsókna, skjalagerð og samskipti við væntanlega lóðarhafa og kaupendur byggingarrétta. Áætlað er að verkið hefjist í framhaldi af gerð samnings samkvæmt útboði þessu. Miðað er við að í útboði verði valið á milli tilboða á grundvelli þóknunar sem miðast við hlutfall af söluverði ráðstafaðra byggingarrétta.

Umsækjendur um þátttöku skulu skila inn upplýsingum samkvæmt forvalsgögnum, m.a. um reynslu af vinnu við sambærileg verkefni, þekkingu og reynslu lykilstarfsmanna, þ.m.t. verkefnastjóra, auk upplýsinga um fjárhagsstöðu umsækjanda. Áskilið verður að þeir sem valdir verða til þátttöku í útboði hafi reynslu af sambærilegum verkefnum að tilteknu lágmarksumfangi á síðastliðnum árum. Umsækjendur verða metnir með sérstöku stigakerfi eins og nánar er lýst í forvalsgögnum. Gerð er krafa um að umsækjandi hljóti a.m.k. 250 stig til að koma til greina í forvalinu.

Miðað er við að fjöldi þátttakenda takmarkist við fimm. Umsækjendum verður raðað í hæfisröð eftir stigafjölda. Verði jafn hæfir umsækjendur fleiri en fimm verður dregið á milli þeirra eins og nánar er lýst í forvalsgögnum.

Um er að ræða opið forval bjóðenda sem auglýst er á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Útboðið verður lokað öðrum en þeim sem tekið hafa þátt í forvalinu og uppfyllt allar kröfur þess. Ekki verður greitt fyrir þátttöku í forvalinu.

Hægt verður að nálgast forvalsgögn hér á vef Garðabæjar frá og með föstudeginum 23. apríl 2021. 
Umsóknum ásamt umbeðnum upplýsingum skal skilað rafrænt á netfangiðvetrarmyriforval@gardabaer.is eigi síðar en kl. 14 föstudaginn 28. maí 2021. Þar verða þær opnaðar á rafrænum fundi með þátttöku þeirra umsækjenda sem þess óska. Að forvali loknu verður fimm hæfustu umsækjendunum gefinn kostur á að taka þátt í lokuðu útboði um verkið.

Fyrirspurnir vegna forvalsins má senda á vetrarmyriforval@gardabaer.is

Deiliskipulagsgögn fyrir svæðið - Vetrarmýri:  Smellið hér til að sjá gögn um samþykkt deiliskipulag fyrir Vetrarmýri - miðsvæði auk aðalskipulagsbreytinga fyrir rammahluta Vífilsstaðalands. 

Útboðsgögn