Samþykkt og gildistaka skipulagsáætlana

Hér má nálgast upplýsingar um samþykktir bæjarstjórnar og gildistöku þeirra deiliskipulagsáætlana sem gerðar voru athugasemdir við í auglýsingaferli. Upplýsingarnar varða deiliskipulagsáætlanir sem voru samþykktar frá október 2019.

Upplýsingar um samþykktir og gildistöku annarra deiliskipulagsáætlana eru aðgengilegar á kortavef Garðabæjar og skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar.

Ákvarðanir bæjarstjórnar um deiliskipulagsáætlanir eru stjórnvaldsákvarðanir sem eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsáætlunar í B-deild Stjórnartíðinda.


Uppland Garðabæjar, Urriðavatnsdalir, Heiðmörk, Vífilsstaðahraun og Urriðaholt norður- og austurhluti

11.8.2023

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar sem haldinn var 25. júlí 2023 voru samþykktar eftirfarandi tillögur samkvæmt 32. gr. og 41 gr.  skipulagslaga nr. 123/2010 og 52. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. 

Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 vegna stígakerfis í upplandi Garðabæjar og vegna Flóttamannavegar.


Samþykkt:

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir samkvæmt 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 36. gr. laganna tillögu skipulagsnefndar, frá fundi 25. júlí 2023, um breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 er nær til stíga og gatnakerfis í upplandi bæjarins.



Gildistaka : Ofangreind tillaga hefur öðlast gildi og var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda þann 29. ágúst 2023 nr. 880/2023. Í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er niðurstaða bæjarstjórnar hér með kynnt.


Tillaga að deiliskipulagi fyrir útivistarsvæði í Urriðavatnsdölum (Golfvöllur og fólkvangur).


Samþykkt:

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu skipulagsnefndar, frá fundi 25. júlí 2023, um deiliskipulag fyrir útivistarsvæði í Urriðavatnsdölum. Tillagan gerir ráð fyrir stækkun Urriðavallar um 9 holur, sem fer að hluta inn í gróðurlægð í Urriðakotshrauni, og nýjum útivistarstígum. Samhliða gerð deiliskipulagsins er unnið að því að friðlýsa Urriðakotshraun sem fólkvang og verður hluti golfvallarins innan fólkvangsins.



Tillaga að deiliskipulagi fólkvangs í Vífilsstaðahrauni.


Samþykkt:

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu skipulagsnefndar, frá fundi 25. júlí 2023, um deiliskipulag fyrir Vífilsstaðahraun, Vatnsmýri og Maríuhella. Með tillögunni er verið að skipuleggja svæði sem hentar til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu samhliða því að vernda jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar. Skilgreint er fyrirkomulag stíga, m.a. lega nýs stofnstígs og einnig er fyrirkomulag fræðslu- og áningarstaða skilgreint. Veglína Flóttamannavegar er endurskoðuð til að bæta öryggi á veginum.



Tillaga að breytingu deiliskipulags Heiðmerkur og Sandahlíðar.


Samþykkt:

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu skipulagsnefndar, frá fundi 25. júlí 2023, um breytingu á deiliskipulagi Heiðmerkur og Sandahlíðar. Tillagan gerir fyrir að afmörkun deiliskipulagsins breytist til samræmis við nýtt deiliskipulag Vífilsstaðahrauns og nýtt deiliskipulag fyrir Urriðavatnsdali.



Tillaga að breytingu deiliskipulags Urriðaholts austurhluta.


Samþykkt:

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu skipulagsnefndar, frá fundi 25. júlí 2023, um breytingu á deiliskipulagi austurhluta Urriðaholts. Tillagan gerir ráð fyrir að reiðstígur meðfram Flóttamannavegi verði felldur út.


Tillaga að breytingu á 4. áfanga deiliskipulags Urriðaholts norðurhluta.


Samþykkt:

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu skipulagsnefndar, frá fundi 25. júlí 2023, um breytingu á deiliskipulagi 4. áfanga norðurhluta Urriðaholts. Tillagan gerir ráð fyrir að reiðstígur meðfram Flóttamannavegi verði felldur út og að göng komi undir Flóttamannaveg til að tengja íbúðarbyggð í Urriðaholti við útivistarsvæði í upplandi bæjarins.



Gildistaka : Ofangreindar tillögur hafa öðlast gildi og voru auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda þann 13. október 2023 nr. 1083/2023. Í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er niðurstaða bæjarstjórnar hér með kynnt.


Vakin er athygli á málskotsrétti samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 en þar kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu skipulagsáætlana í B-deild Stjórnartíðinda.

Í samræmi við 2. mgr. 31. gr. og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er niðurstaða bæjarstjórnar hér með auglýst.