16. apr. 2021

Hesthúsalóðir á Kjóavöllum

Garðabær auglýsir lausar til úthlutunar hesthúsalóðir á Kjóavöllum, við göturnar Sunnuvelli og Æsuvelli. Alls er um að ræða um 20 lóðir. Einstaklingar sem og lögaðilar geta sótt um hesthúsalóðirnar.

  • Kjóavellir
    Hesthúsalóðir á Kjóavöllum eru lausar til úthutunar.

Garðabær auglýsir lausar til úthlutunar hesthúsalóðir á Kjóavöllum, við göturnar Sunnuvelli og Æsuvelli. Alls er um að ræða um 20 lóðir. Einstaklingar sem og lögaðilar geta sótt um hesthúsalóðirnar.

Á Kjóavöllum er hesthúsahverfi og athafnasvæði hestamannafélagsins Spretts með reiðhöll og íþróttaleikvangi fyrir hestaíþróttir.

Garðabær og Kópavogsbær hafa sameiginlega staðið að samþykkt deiliskipulags fyrir hesthúsahverfi og íþróttaleikvang að Kjóavöllum. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að innan bæjarmarka Garðabæjar muni rísa 85 ný hesthús með að hámarki 1600 hross sem byggjast upp á næstu árum. Fyrir eru 23 hesthús í Andvarahverfi.

Við úthlutun lóða fyrir ný hesthús gilda eftirfarandi úthlutunarskilmálar sem sjá má hér að neðan og lóðarhafar gangast undir við undirritun úthlutunarsamnings.

Gerðir húsa og stærð lóða

Byggingarreitir lóða eru mismunandi að stærð: 20 m, 25 m og 30 m. Í boði er að sækja um mismunandi gerðir húsa, s.s. einbýli á 1 hæð, einbýli á 1 hæð + ris, parhús á 1 hæð og parhús á 1 hæð + ris. (Ef óskað er eftir að deila parhúsi með öðrum umsækjanda þurfa báðir aðilar að sækja um lóð í sitt hvoru lagi en tilgreina í umsókn með hverjum óskað er eftir að deila parhúsi)

Lóð telst byggingarhæf þegar komin er gata með burðarlagi að henni og borist hefur tilkynning þar um til lóðarhafa.

Gatnagerðargjald á hesthúsalóðum er samkvæmt gjaldskrá 23.054 kr. á hvern byggðan m2 í húsi og breytist í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu miðað við grunnvísitölu í apríl 2021 sem er 153,6 stig.

Lágmarksgatnagerðargjöld vegna einstakra lóða eru eftirfarandi:

  • Húsagerð B kr. 2.412.647 
  • Húsagerð C kr. 3.367.101 
  • Húsagerð D kr. 4.507.144 
  • Húsagerð E kr. 5.700.211 

Við úthlutun lóða er greitt byggingarréttargjald sem er sama krónutala og álagt gatnagerðargjald. Byggingarréttargjald er ekki greitt af fermetrum umfram 240. Í þeim tilvikum sem innheimt er lágmarksgatnagerðargjald kemur ekki til endurgreiðslu þótt minna sé byggt. Byggingarréttargjald miðast þó alltaf við byggða fermetra.

Rafrænar umsóknir

Umsóknareyðublað fyrir hestahúsalóð á Kjóavöllum er rafræn og aðgengileg hér á Þjónustugátt Garðabæjar (innskráning með rafrænum skilríkjum). Umsóknarfrestur er til og með 11. maí 2021.

Fyrirvari um uppbyggingu og úthlutun er að nógu margar umsóknir berist til að hægt verði að byggja öll hús við amk eina götu.

Stefnt er að því að tilkynna um úthlutun fyrir lok júní og gert ráð fyrir að lóðir verði afhentar og byggingarhæfar í upphafi árs 2022.

Hestamannafélagið Sprettur

Hestamannafélagið Sprettur var stofnað árið 2012 og samanstendur félagið af hestamannafélaginu Gusti, Kópavogi og Hestamannafélaginu Andvara, Garðabæ. Sameinuð mynda þessi félög nú öfluga heild í Hestamannafélaginu Spretti. Sprettur er með starfsemi sína á Kjóavöllum og er eitt stærsta hestamannafélag landsins með á annað þúsund félagsmenn.

Upplýsingar um Sprett á vef félagsins.

Fylgigögn með auglýsingu:

 

Fyrirspurnir vegna úthlutun hesthúsalóðanna má senda á netfang Garðabæjar, gardabaer@gardabaer.is