Skipulag í kynningu

Hér má nálgast þau skipulagsmál sem eru í kynningu hjá Garðabæ. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér málin.

Athugasemdum eða ábendingum við kynntar tillögur skal skila skriflega til tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar, Garðatorgi 7, eða með tölvupósti á skipulag@gardabaer.is fyrir lok þess dags sem gefinn er upp hverju sinni.


Norðurnes á Álftanesi

10.6.2020

Aðalskipulagsbreyting og deiliskipulag - Forkynning

NORÐURNES Á ÁLFTANESI. BREYTING Á AÐALSKIPULAGI GARÐABÆJAR 2016-2030 OG NÝTT DEILISKIPULAG. FORKYNNING

Í samræmi við 2. mgr. 30. gr. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 auglýsir Garðabær hér með forkynningu á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar og tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Norðurnes á Álftanesi sem er innan þess svæðis sem aðalskipulagsbreytingin nær til.

Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030, tillaga að breytingu

Breytingartillagan nær til Norðurness á Álftanesi. Meginatriði breytinganna felast í stækkun á golfvallarsvæði. Hafnarsvæði og hesthúsasvæði á Seylunni er breytt í opið svæði og afmörkun íbúðasvæða er breytt lítillega. Stígakerfi breytist í samræmi við breytingu á landnotkun. Hverfisverndað svæði norðan Bessastaðatjarnar færist nær tjarnarbakka en á móti eru hverfisvernduð svæði við Kasthúsatjörn og á Breiðabólstaðaeyri stækkuð.

Norðurnes á Álftanesi, tillaga að nýju deiliskipulagi

Deiliskipulagið tekur á framtíðaruppbyggingu á svæðinu, þar er m.a. gert ráð fyrir nýrri íbúðarbyggð, útivistarsvæðum og golfvelli. Gert er ráð fyrir lágreistri sérbýlishúsabyggð í tveimur meginkjörnum en nýjar lóðir fyrir einbýlishús, parhús og raðhús verða alls 69. Níu holu golfvöllur verður norðan og vestan Bessastaðatjarnar. Á Breiðabólstaðaeyri við víkina Seylu er gert ráð fyrir viðlegukanti og möguleika á naustum við uppsátur.

Húsakönnun og fornleifaskráning er kynnt samhliða. 

Kynningarfundi verður streymt á Facebook síðu Garðabæjar þriðjudaginn 25. ágúst kl.17:00. Þar verða tillögur kynntar og fyrirspurnum svarað. Hægt verður að senda rafrænar fyrirspurnir (komment) í gegnum Facebook á meðan á fundinum stendur eða með því að senda tölvupóst á netfangið skipulag@gardabaer.is og verður þeim svarað að lokinni kynningu. 

Bent er á að í framhaldi af kynningarfundi geta aðilar leitað til skipulagsstjóra varðandi nánari upplýsingar og eftir atvikum óskað eftir fundi.

Tillögurnar liggja frammi á bæjarskrifstofu Garðabæjar, Garðatorgi 7, frá 11. júní til og með 31. ágúst 2020. Einnig eru þær aðgengilegar á vef Garðabæjar. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að senda inn ábendingar við tillögurnar.

Frestur til að skila inn ábendingum rennur út 31. ágúst 2020. Skila skal ábendingum á bæjarskrifstofu Garðabæjar eða á netfangið skipulag@gardabaer.is