Skipulag í kynningu

Hér má nálgast þau skipulagsmál sem eru í kynningu hjá Garðabæ. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér málin.

Athugasemdum eða ábendingum við kynntar tillögur skal skila skriflega til tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar, Garðatorgi 7, eða með tölvupósti á skipulag@gardabaer.is fyrir lok þess dags sem gefinn er upp hverju sinni.


Álftanes miðsvæði

28.6.2019

Samþykkt deiliskipulag fyrir Breiðumýri, Krók, Helguvík, Kumlamýri og Skógtjörn

Auglýsing á niðurstöðu sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt deiliskipulag fyrir miðsvæðið á Álftanesi
(Breiðamýri, Krókur, Helguvík, Kumlamýri og Skógtjörn)

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti þann 4.4.2019 deiliskipulag fyrir miðsvæðið á Álftanesi (Breiðamýri, Krókur, Helguvík, Kumlamýri og Skógtjörn). Tillagan var auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdir bárust og hefur þeim, sem gerðu athugasemdir, verið send umsögn sveitarstjórnar. Deiliskipulagið er samþykkt með breytingum til að koma til móts við athugasemdir. Breytingarnar ásamt svörum við innsendum athugasemdum má sjá á vef Garðabæjar. 

Hægt er að kæra samþykkt sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Í samræmi við skipulagslög er málið nú í afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun.

Þann 4. apríl síðastliðinn samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar tillögu að 5 deiliskipulagsáætlunum á miðsvæði Álftaness. Heiti áætlananna eru Breiðamýri, Krókur, Helguvík, Kumlamýri og Skógtjörn.

Kynningar tillagnanna:

Tillögur að deiliskipulagi fyrir Breiðumýri, Krók, Helguvík, Kumlamýri og Skógtjörn voru auglýstar í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, frá 27. desember 2018 til og með 7. febrúar 2019 með athugasemdafresti til sama tíma. Tillögurnar voru í forkynningu í samræmi við 3. mgr. 40 .gr. sömu laga frá 20. apríl til 11. maí 2018. Almennir íbúafundir voru haldnir bæði á forkynningarstigi (11. maí 2018) og auglýsingarstigi (16. janúar 2019). Tillögur eru byggðar á vinningstillögu í samkeppni um deiliskipulag Miðsvæðis og Suðurness Álftaness sem fram fór árið 2017. Höfundar tillagnanna eru AS-arkitektar í Kaupmannahöfn.

Athugasemdir við tillögurnar:

Alls bárust 24 erindi með athugasemdum og fylgdu þeim vel á fimmta hundrað undirskrifta. Voru athugasemdir gerðar við allar tillögurnar fimm en flestar við tillögu að deiliskipulagi Breiðumýrar. Unnið hefur verið sameiginlega úr athugasemdum við tillögurnar og birtast svörin því í greinargerð sem eiga við allar tillögurnar.

Samþykkt tillagnanna:

Bæjarstjórn samþykkti eftirfarandi breytingar á auglýstir tillögu og er þeim ætlað að koma til móts við athugasemdir. Umsagnir gefa ekki tilefni til breytinga á tillögum.

 • Íbúðum fækki í Breiðumýri um 18 eða sem nemur 2 íbúðum á hvern húskjarna(úr 270 í 252)
 • Íbúðum (raðhúsum) fækki í Króki um 3 (Svanamýri 9 og Gásamýri 23 og 25) (Gildandi deiliskipulag sem staðfest var árið 2007 gerir ráð fyrir allt að 307 íbúðum á landnotkunarreit 1.23 í aðalskipulagi . Eftir breytingu á auglýstri tillögu sem lögð er til þá fækkar íbúðum um 19 og verða þá 264 íbúðir innan landnotkunarreitsins.)
 • Gásamýri 31, 29 og 27 verði hliðrað til suðurs
 • Sett verði ákvæði um að hús í Breiðumýri næst Suðurnesvegi, Norðurnesvegi og Skólatúni verði ekki hærri en 2 hæðir. Þau hús geta hvort heldur verið útfærð sem raðhús eða fjölbýlishúsaíbúðir.
 • Sett verði ákvæði um að hús í norðvesturhorni Hestamýrar nr.3 verði ekki hærri en 1 hæð innan þess reits sem næst liggur Suðurtúni.
 • Sérnotafletir íbúða á jarðhæð verði stækkaðir eins og skipulagsnefnd leggur til.
 • Skjólveggir á sérnotareitum verði útfærðir eins og skipulagsnefnd leggur til.
 • Hámarkshæð húsa í Lambamýri lækki um 1m (úr 12m í 11m) og í Grásteinsmýri og Hestamýri um 1,5 m (úr 12 m í 10,5 m).
 • Hámarkshæð parhúsa í Kumlamýri lækki um 1,0 m (verði 7,5 m) (Í auglýstri tillögu varð misræmi á milli uppdráttar og greinargerðar hvað varðar hámarkshæð einbýlishúsa í Helguvík. Rétt er hæð 7,5 eins og hún kom fram í greinargerð).
 • Göngustígur í gegnum Kumlamýri færist suður fyrir byggðina.
 • Heiti Holtsbrekku verði breytt í Dalsbrekka -Tenging Dalsbrekku verði í beinu framhaldi af Tjarnarbrekku.
 • Byggingarreitir í Breiðumýri breikki úr 10 m í 12,5 m

Við afgreiðslu málsins var eftirfarandi tillaga samþykkt.

Bæjarstjórn samþykkir eftirtaldar tillögur skipulagsnefndar um deiliskipulag fyrir Breiðumýri, Krók, Helguvík, Skógtjörn og Kumlamýri innan miðsvæðis Álftaness, samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. dagskrárliði nr. 5 - 9. Tillögurnar hafa verið auglýstar og frestur til að gera athugasemdir var frá 27. desember 2018 til 7. febrúar 2019. Fjölmargar athugasemdir bárust í athugasemdarfresti. Þær hafa verið yfirfarnar og liggja fyrir svör við þeim. Tekið hefur verið tillit til athugasemda og liggja fyrir tillögur um breytingar sem fram koma undir einstaka tillögum. Þær teljast ekki breyta upphaflegum tillögum í grundvallaratriðum og þarf því ekki að auglýsa tillögurnar að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Lögð er fram fornleifaskráning og húsakönnun. Með gildistöku tillagna að nýju deiliskipulagi falla úr gildi núgildandi deiliskipulög svæðanna.

Samþykktar tillögur skulu sendar Skipulagsstofnun samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og þá skal niðurstaða bæjarstjórnar auglýst, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Málskotsréttur:

Vakin er athygli á málskotsrétti samanber 10. kafla skipulagslaga nr. 123/2010 og lög um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 en þar kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda.

Auglýsing verður birt í fjölmiðlum í framhaldi af auglýsingu um gildistöku deiliskipulagstillögunnar í B-deild Stjórnartíðinda hefur verið birt.

Greinargerð vegna athugasemda sem bárust á auglýsingu. Svör við athugasemdum.

Breiðamýri deiliskipulag

Krókur deiliskipulag

Helguvík deiliskipulag

Kumlamýri deiliskipulag

Skógtjörn deiliskipulag

Viðaukar sem fylgja öllum fimm deiliskipulagsáætlununum

Fyrirspurnir er hægt að senda á skipulag@gardabaer.is 

Arinbjörn Vilhjálmsson
skipulagsstjóri