Hér má nálgast þau skipulagsmál sem eru í kynningu hjá Garðabæ. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér málin.
Vífilsstaðaland
Aðalskipulagsbreyting og deiliskipulagstillögur
Aðalskipulagsbreyting og deiliskipulagstillögur
VÍFILSSTAÐALAND
Bæjarstjórn Garðabæjar auglýsir í samræmi við 1. mgr. 31. gr., sbr. 36. gr., og 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 sem nær til Vífilsstaðalands og þrjár deiliskipulagstillögur sem eru innan þess svæðis. Deiliskipulagstillögurnar eru Vetrarmýri - miðsvæði, Hnoðraholt norður og Rjúpnadalur.
Við gildistöku deiliskipulags Hnoðraholts norður og deiliskipulags Vetrarmýrar miðsvæði fellur úr gildi deiliskipulag Hnoðraholts- og Vetrarmýrar frá 1996 með síðari breytingum.
Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030, tillaga að breytingu. Rammahluti Vífilsstaðalands.
Breytingartillagan nær til Þróunarsvæðis B eins og það er skilgreint í aðalskipulagi, Hnoðraholts, Vetrarmýrar, Vífilsstaða, Smalaholts og Rjúpnadals. Hún nær einnig til Vífilstaðahrauns sem nýtur verndar sem fólkvangur.
Tillagan er sett fram sem breytinga á aðalskipulagi með rammahluta aðalskipulags sbr. gr. 4.9. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og er ætlað að móta heildstætt skipulag byggðar sem byggir á sérstöðu svæðisins og viðmiðum Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 um samgöngumiðuð þróunarsvæði. Innan skipulagssvæðisins er m.a. gert ráð fyrir miðsvæði með blandaðri byggð í góðum tengslum við nálæga íþróttastarfsemi og almenningssamgöngur. Alls er gert ráð fyrir 2.000 -2.400 íbúðum á svæðinu, samfélagsþjónustu, íþróttastarfsemi, útivistarsvæðum og náttúruverndarsvæði. Lögð er áhersla á vistvænar samgöngur og fjölbreytt útivistarsvæði í góðum tengslum við nálæga byggð og starfsemi. Gert er ráð fyrir að lega Elliðavatnsvegar verði færð fjær Vífilsstaðavatni og útivistarsvæði umhverfis vatnið gefið aukið vægi. Klassískt yfirbragð og sterk sjónræn nærvera Vífilstaðaspítala er eitt af megin kennileitum svæðisins og er gert hátt undir höfði m.a. Vífilsstaðaás, stíg í trjágöngum, sem framlengist frá miðju Vífilsstaðaspítala upp hlíðar Hnoðraholts.
Samhliða er auglýst tillaga að umhverfisskýrslu samkvæmt 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.
Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030. Tillaga að breytingu vegna rammahluta Vífilsstaðalands, sett fram á aðalskipulagsuppdrætti með greinargerð og skipulagsskilmálum ásamt umhverfisskýrslu. Ásamt minnisblöðum.
- Aðalskipulagsuppdráttur
- Greinargerð og skipulagsskilmálar
- Umhverfisskýrsla rammahluta Vífilsstaðalands
- Hljóðvist
- Minnisblað um fuglalíf í Vetrarmýri
- Minnisblað um fuglalíf og gróður í Smalaholti
- Minnisblað um losun gróðurhúsalofttegunda vegna röskunar á votlendi
- Minnisblað um trjágróður og mörk golfvallarsvæðis
Vetrarmýri, blönduð byggð. Tillaga að deiliskipulagi.
Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir blandaðri byggð íbúða í fjölbýli, atvinnuhúsnæðis og verslunar auk íþróttamannvirkja. Einnig verða byggð bílastæðahús á svæðinu. Hæðir húsa verða á bilinu 4-5 hæðir. Fjöldi íbúða verður 658, atvinnuhúsnæði verður um 37.000 m2 og íþróttamannvirki um 43.000 m2. Heildarbyggingarmagn ofanjarðar verður um 150.000 m2. Áætlaður fjöldi bílastæða er um 2.700.
- Deiliskipulagsuppdráttur.
- Skýringaruppdráttur.
- Greinargerð og skipulagsskilmálar
- Umhverfisskýrsla
- Hljóðvist
Hnoðraholt norður. Tillaga að deiliskipulagi.
Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir íbúðarbyggð í fjölbýli, rað-, og einbýlishúsum. Land hallar til vesturs og norðurs. Atvinnuhúsnæði verður á norðvestur hluta skipulagsreitsins. Hæðir íbúðarhúsa verða á bilinu 1-4 hæðir. Atvinnuhúsnæði verður 4 hæðir með inndreginni 5 hæð þar sem hún er hæst. Fjöldi íbúða verður 448 og atvinnuhúsnæði verður um 20.000 m2. Heildarbyggingarmagn ofanjarðar verður um 64.000 m2. Áætlaður fjöldi bílastæða er um 1.050.
- Deiliskipulagsuppdráttur.
- Skýringaruppdráttur .
- Greinargerð og skipulagsskilmálar
- Umhverfisskýrsla
- Hljóðvist
Rjúpnadalur. Tillaga að deiliskipulagi.
Tillagan gerir ráð fyrir grafreit (kirkjugarði) á 4,9 ha lands. Gert er ráð fyrir byggingareitum fyrir þjónustubyggingar fyrir grafreitsstarfsemi. Auk þess er gert ráð fyrir lóð fyrir bálstofu og skógarduftreit sem tengjast henni. Sunnar grafreitsins er gert ráð fyrir lóð fyrir meðferðarstofnun.
Húsakannanir og fornleifaskráning eru kynntar samhliða auglýsingu skipulagstillagnanna.
Kynningarfundi verður streymt á Facebook síðu Garðabæjar fimmtudaginn 27. ágúst kl. 17:00. Þar verða tillögur kynntar og fyrirspurnum svarað. Hægt verður að senda rafrænar fyrirspurnir (komment) í gegnum Facebook á meðan á fundinum stendur eða með því að senda tölvupóst á netfangið skipulag@gardabaer.is og verður þeim svarað að lokinni kynningu.
Glærur frá kynningar-fjarfundiBent er á að í framhaldi af kynningarfundi geta aðilar leitað til skipulagsstjóra varðandi nánari upplýsingar og eftir atvikum óskað eftir fundi.
Tillögurnar liggja frammi á bæjarskrifstofu Garðabæjar, Garðatorgi 7, frá 11. júní til og með 7. september 2020. Einnig eru þær aðgengilegar á vef Garðabæjar. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að senda inn athugasemdir við tillögurnar. Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út 7. september 2020. Skila skal athugasemdum á bæjarskrifstofu Garðabæjar eða á netfangið skipulag@gardabaer.is