Kortavefur opnaður á vef Garðabæjar
Nýr kortavefur á vef Garðabæjar, www.gardabaer.is var tekinn í notkun á degi umhverfisins, föstudaginn 25. apríl. Opnun kortavefsins er stórt skref í bættri þjónustu Garðabæjar við íbúa sína og aðra sem málið varðar. Mikil þróunarvinna hefur verið lögð í kortavefinn og eru Garðbæingar og aðrir hvattir til að kynna sér vefinn og virkni hans. Ábendingar eru vel þegnar en þær er t.d. hægt að senda í gegnum vef Garðabæjar með því að velja "Hafðu samband" í efnisyfirliti á forsíðu.
Á kortavefnum eru tvö aðalkort. Annað er af öllu landi Garðabæjar (yfirlitskort) en hitt af bænum sjálfum (þéttbýli). Á báðum kortunum er hægt að skoða einstök svæði nánar með því að velja þau og þysja inn og út eftir því hverju fólk er að leita að. Hægt er að kveikja og slökkva á loftmynd á yfirlitskortinu eftir því sem fólki hentar. Við hönnun vefjarins var megin áherslan lögð á að hann yrði aðgengilegur og "léttur" í notkun.
Á myndinni er Júlía Ingvarsdóttir, formaður umhverfisnefndar sem opnaði kortavefinn formlega.
Kortin eru ekki síst hugsuð til gagns og gamans fyrir þá sem stunda útivist í landi Garðabæjar. Skilgreindar hafa verið nokkrar gönguleiðir bæði í þéttbýlinu og upplandi Garðabæjar sem hægt er að skoða á kortinu. Á kortavefnum er líka hægt að skoða staðsetningu stofnana bæjarins og fleiri þjónustustofnana í Garðabæ. Í þriðja lagi er hægt að nýta kortavefinn við kynningu á skipulagstillögum og samþykktu deiliskipulagi einstakra hverfa. Núna er þannig hægt að nálgast þar mynd af deiliskipulagi Sjálands í Garðabæ, tillögu að deiliskipulagi á Garðahrauni í Garðabæ og kort sem sýnir þær lóðir sem nú eru til úthlutunar í Ásahverfi í Garðabæ.
Kortin eru unnin af fyrirtækinu Teikn á lofti í umsjónarkerfinu Inter-map. Kerfið sem þróað er af starfsmönnun Teikna á lofti hefur þann kost að starfsfólk Garðabæjar getur á einfaldan hátt hlaðið inn upplýsingum um t.d. einstaka byggingar, gönguleiðir eða merka staði í bænum. Sú vinna mun halda áfram eftir að vefurinn hefur verið opnaður enda gert ráð fyrir að hann verði í stöðugri þróun.