14. okt. 2011

Fræðsla um ADHD

Garðabær hefur í samstarfi við Velferðarráðuneytið og ADHD samtökin staðið að fræðslu fyrir starfsfólk leikskóla um börn með ADHD. Dr. Urður Njarðvík og Þórdís Bragadóttir sálfræðingar hafa komið á starfsmannafundi leikskólanna á síðustu vikum og flutt þar erindi um helstu einkenni ADHD og hvernig umhverfi leikskóla og starfsfólk getur komið til móts við þarfir fjölbreytts barnahóps.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær hefur í samstarfi við Velferðarráðuneytið og ADHD samtökin staðið að fræðslu fyrir starfsfólk leikskóla um börn með ADHD. Dr. Urður Njarðvík og Þórdís Bragadóttir sálfræðingar hafa komið á starfsmannafundi leikskólanna á síðustu vikum og flutt þar erindi um helstu einkenni ADHD og hvernig umhverfi leikskóla og starfsfólk getur komið til móts við þarfir fjölbreytts barnahóps.

 

Líffræðilegir þættir og erfðir

Urður fjallaði um orsakir ADHD sem eru líffræðilegar og því er ekki um að kenna umhverfisþáttum, t.d. slöku uppeldi eða óheppilegum kennsluaðferðum. Rannsóknir benda til að orsaka sé að leita í truflun í boðefnakerfi heila á stöðum sem gegna mikilvægu hlutverki í stjórn hegðunar. Erfðir gegna mikilvægu hlutverki, talið er að erfðir útskýri 75-95% ADHD einkenna. ADHD getur einnig komið fram í tengslum við sjúkdóma eða slys, t.d. höfuðáverka eða áföll á meðgöngu, og hún fylgir oft öðrum þroskatruflunum.

 

Uppeldi barna og unglinga með ADHD

Þórdís fjallaði síðan um  uppeldi barna og unglinga með ADHD sem er oft krefjandi og reynir því töluvert á bæði foreldra og leikskólakennara.  Góð sjálfsímynd er forsenda velgengni og því er lykilatriði að stuðla að því að börnin bíði ekki stöðuga ósigra í daglegu lífi. Börn og unglingar læra ekki af skömmum og neikvæðu viðmóti. Þetta brýtur niður sjálfsmyndina og eykur hættu á kvíða og depurð. Mikilvægt er að leita eftir sterkum hliðum en ekki að einblína á veikleika. Börn og unglingar með ADHD þurfa skýra ramma í uppeldinu, fáar en einfaldar reglur og ótvíræð og einföld fyrirmæli sem fylgt er eftir. Fyrst og fremst þarf þó jákvætt viðmót, hrós og viðurkenningu fyrir það sem vel er gert. Skilningur á eðli ADHD og samvinna þeirra sem umgangast barnið eða unglinginn, hvort sem það er heima eða utan heimilis, í skóla eða leikskóla eða í tómstundastarfi, er forsenda þess að hægt sé að takast á við vandann og skapa þeim og fjölskyldum þeirra gott líf.


Þórdís Bragadóttir sálfræðingur

Bæði erindin voru mjög upplýsandi og áhugaverð og hafa vonandi aukið skilning áheyrenda á einstaklingum með ADHD.


Starfsmannafræðsla á leikskólanum Bæjarbóli.