9. feb. 2017

Degi leikskólans var fagnað í tíunda sinn

Dagur leikskólans var haldinn í tíunda sinn mánudaginn 6. febrúar sl. en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti og þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið.
  • Séð yfir Garðabæ

Dagur leikskólans var haldinn í tíunda sinn mánudaginn 6. febrúar sl. en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti og þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið.  Leikskólar í Garðabæ héldu upp á daginn með ýmsum móti eins og sjá má í frétt frá leikskólanum Kirkjubóli.  Börnin þar teiknuðu myndir og fóru svo með myndirnar í göngutúr að Garðatorgi þar sem myndirnar voru hengdar upp og verða til sýnis í vikunni.

Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.

Í tilefni dagsins rituðu þær Anna Bjarnadóttir leikskólastjóri Bæjarbóls og Ásta Kristín Valgarðsdóttir leikskólastjóri Kirkjubóls grein um leikskólastarf sem birtist í Fréttablaðinu mánudaginn 6. febrúar sl. 

Greinina má lesa hér fyrir neðan:

Bjóða góðan dag alla daga með bros á vör

Í dag, 6. febrúar, er Degi leikskólans fagnað í tíunda sinn, því er vert að óska leikskólakennurum og öðru leikskólafólki til hamingju með daginn.
Leikskólinn er einn af hornsteinum samfélagsins og hefur margbreytilegu hlutverki að gegna. Hann er menntastofnun, þjónustustofnun og vinnustaður fjölmargra starfsmanna. Ekkert skólastig hefur tekið jafnmiklum breytingum á tiltölulega stuttum tíma. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og menntunarhlutverk hans óumdeilt. Í Aðalnámskrá leikskóla er skýrt kveðið á um hlutverk leikskólans og þau lögboðnu verkefni sem honum ber að sinna. Langflest börn hér á landi dvelja í leikskóla og viðvera þeirra er alltaf að lengjast. í Aðalnámskrá er lagður grunnurinn að samfellu í námi þar sem fyrstu þrír kaflarnir eru sameiginlegir í námskrám skólastiganna þriggja. Starfshættir, áherslur og markmið hvers skóla eru vel ígrunduð og grundvallast af lögum, reglugerðum og námskrám sem mynda leiðbeinandi ramma utan um starfið. Í leikskólum skal velferð og hagur barna vera leiðarljós í öllu starfi og skal þeim  búið hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Nám barna fer að mestu fram í gegnum leik og skapandi starf, þar sem lögð er rík áhersla á leikinn.
Íslenskir foreldrar eru önnum kafnir og vilja þeir allt það besta fyrir börnin sín. Það sama á við um starfsfólk leikskóla sem sér um að börnin þroskist og dafni í öruggu umhverfi. Árangursrík skólaganga hefst í leikskóla og þörf á nýrri hugsun, nýju verðmætamati þar sem leikskólastigið er metið að verðleikum.  Það er mikið áhyggjuefni hversu illa gengur að manna leikskólana. Leikskólakennarar eru metnaðarfullur hópur sem sinnir störfum sínum vel en því miður er þeim stöðugt að fækka og grípa þarf til aðgerða hið fyrsta til að laða ungt fólk í leikskólakennaranám. Leikskólinn sem vinnustaður er nefnilega bráðskemmtilegur og starf í leikskóla er fjölbreytt, skemmtilegt, krefjandi og ekki síst gefandi. Við hvetjum alla áhugasama til að kynna sér starfið inni á vefnum www.framtidarstarfid.is.
Starfsfólk leikskóla býður góðan dag, alla daga með bros á vör.

Anna Bjarnadóttir og Ásta Kristín Valgarðsdóttir leikskólastjórar