30. apr. 2014

Nýjar friðlýsingar í Garðabæ

Búrfellshraun, Búrfell, Búrfellsgjá og Maríuhellar eru á meðal merkra staða sem njóta friðlýsingar eftir undirritun umhverfis- og auðlindaráðherra á nýjum friðlýsingum í Garðabæ í dag.
  • Séð yfir Garðabæ

Búrfellshraun, Búrfell, Búrfellsgjá og Maríuhellar eru á meðal merkra staða sem njóta friðlýsingar eftir undirritun Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra til staðfestingar á nýjum friðlýsingum í Garðabæ í dag 30. apríl 2014. 

Friðlýsingarnar ná til:

  1. Hraunahluta Búrfellshrauns þ.e. Garðahrauns, Vífilsstaðahrauns og Maríuhella, samtals 156,3 hektara. Þetta svæði er friðlýst sem fólkvangur.
  2. Búrfells, Búrfellsgjár og eystri hluti Selgjár, samtals 323 hektarar sem voru friðlýstir sem náttúruvætti.

Samtals eru svæðin sem voru friðlýst í dag 480 ha að flatarmáli.

Meira en þriðjungur bæjarlandsins friðlýstur

Eftir undirrituna verður búið að fiðlýsa samtals um 1740 ha lands í Garðabæ sem er meira en þriðjungur af landi bæjarins. Friðlýsingarnar eru áfangi að því markmiði að friðlýsa Búrfellshraun allt frá gíg að strandar en að því hefur verið unnið í áföngum frá árinu 2006.

Í máli Gunnars Einarssonar bæjarstjóra við undirritunina kom fram að tilgangurinn með friðlýsingunum og áherslu Garðabæjar á náttúru- og umhverfisvernd sé að auka verðmæti samfélagsins og bæta lífsgæði íbúa, bæði þeirra sem búa í Garðabæ í dag og komandi kynslóða.

Margar merkar náttúru- og söguminjar eru á þeim svæðum sem voru friðlýst.

Samningur um umsjón friðlýstra svæða

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar undirrituðu einnig samninga um umsjón hraunanna, Búrfells og Búrfellsgjár milli Umhverfisstofnunar og Garðabæjar. Samkvæmt samningnum tekur Garðabær að sér umsjón hinna friðlýstu svæða og skuldbindur sig til að gæta þeirra og upplýsa almenning um varðveislugildi þeirra.

Búrfell og gjárnar eru innan marka Reykjanesfólkvangs.

Áður hafa verið friðlýst í Garðabæ

Á Álftanesi hafa eftirfarandi svæði verið friðlýst:

  • Kasthúsatjörn 4,2 hektarar
  • Fjaran við Kasthúsatjörn 17,6 hektarar
  • Hlið 39,6 hekarar

Friðlýstu svæðin búa yfir náttúruperlum á heimsmælikvarða. Með friðlýsingunni tekur Garðabær á sig þá ábyrgð að vernda þau til framtíðar.

Á myndinni eru frá vinstri: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.  Standandi eru Júlía Ingvarsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar og Erla Bil Bjarnardóttir, umhverfisstjóri en bæjarstjóri þakkaði þeim sérstaklega fyrir að hafa unnið ötullega að málinu.

Nánar um nýju friðlýsingarnar. 

Frétt á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins