24. mar. 2014

Ekki marktækur munur á launum kynjanna hjá Garðabæ

Samkvæmt nýrri launagreiningu sem fyrirtækið Capacent Gallup vann fyrir Garðabæ er ekki marktækur munur á launum kynjanna hjá Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ

Samkvæmt nýrri launagreiningu sem fyrirtækið Capacent Gallup vann fyrir Garðabæ fá konur í starfi hjá bænum hærri grunnlaun en karlar. Karlar fá hins vegar greiddar hærri upphæðir fyrir yfirvinnu, vaktaálag og akstur og eru heildarlaun þeirra hærri en kvenna. Karlar í fullu starfi hjá Garðabæ fá rúmlega 3% hærri heildarlaun en konur í fullu starfi þegar tekið hefur verið tillit til annarra breyta en kyns. Munurinn er vel innan skekkjumarka.

Ef aðeins eru skoðaðar konur og karlar í fullu starfi, þá fá konur greidd 10% hærri grunnlaun en karlar. Ef tekið er tillit til áhrifa aldurs, starfsaldurs, starfsstéttar og atvinnugreinar er munurinn á grunnlaunum rúm 2% konum í vil og er vel innan skekkjumarka. Þar sem karlar vinna lengri vinnutíma en konur dregur úr muninum þegar tekið er tillit til vinnutíma.

Þegar horft er á heildarlaun breytist myndin þar sem konur í fullu starfi fá greidd 4% lægri heildarlaun en karlar í fullu starfi. Að teknu tilliti til annarra breyta er munurinn rúm 3% körlum í vil og vel innan skekkjumarka. Því er ekki um marktækan kynbundinn mun á heildarlaunum karla og kvenna hjá Garðabæ að ræða.

Á fundi bæjarstjórnar 20. mars sl. var ákveðið að skipa starfshóp til að skoða nánar niðurstöður launagreiningarinnar. Í greinargerð sem fylgdi tillögu þar um segir að þrátt fyrir að munurinn hafi reynst innan skekkjumarka sé „..nauðsynlegt að greina nánar einstök tilvik með það að markmiði að móta tillögur til að tryggja að fullu launajafnrétti fólks í störfum hjá Garðabæ“.

Markmið launagreiningarinnar var að skoða hvort munur væri á launum kynjanna hjá Garðabæ og hver hann væri út frá greiddum launum bæjarins í október 2013. Unnið var með laun fólks í 70-100% starfi, eða laun 112 karla og 449 kvenna.

Til að reikna kynbundinn launamun á heildarlaunum var notuð aðhvarfsgreining þar sem leiðrétt var fyrir áhrifum eftirfarandi þátta á laun: aldurs, starfsaldurs, yfirflokka starfsstétta, vinnutíma, þrískiptrar atvinnugreinar og hvort fólk vinnur vaktavinnu eða ekki. Til að skoða launamun á grunnlaunum var leiðrétt fyrir áhrifum eftirfarandi þátta: aldurs, starfsaldurs, yfirflokka starfsstétta og þrískiptingu atvinnugreinar.

Skýrsla Capacent