2. nóv. 2007

Vífilsstaðavatn og nágrenni - friðland í þéttbýli

Vífilsstaðavatn og nágrenni - friðland í þéttbýli
  • Séð yfir Garðabæ


Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra undirritaði í dag, 2. nóvember, yfirlýsingu um friðlýsingu Vífilsstaðavatns og nágrennis í Garðabæ, sem friðlands. Markmiðið með friðlýsingunni er að friða og vernda vatnið, lífríki þess og nánasta umhverfi ásamt því að treysta svæðið sem útivistarsvæði. Friðlýsingin er sú fyrsta í Garðabæ og með henni er almenningi tryggður réttur til að njóta ósnortinnar náttúru á miðju höfuðborgarsvæðinu til framtíðar.

Frá undirrituninni

Í tilefni dagsins er öllum Garðbæingum boðið í kaffi og vöfflur á Garðatorgi kl. 16-18 í dag en þar er jafnframt sýning á verkum nemenda grunnskóla Garðabæjar á sviði umhverfisfræðslu.

Friðland í þéttbýli

Svæðið sem friðlýsingin nær yfir er 188 hektarar að stærð og þar af er vatnið sjálft 27 hektarar. Svæðið er í eigu Garðabæjar sem er óvenjulegt þar sem flest friðlönd eru í einkaeigu eða á afrétt. Það er einnig óvenjulegt að jafn stórt svæði sé friðlýst í miðju þéttbýlinu. Friðlýsingin tekur til Vífilsstaðavatns og hlíðanna að sunnan- og austanverðu upp frá vatninu að meðtöldu Grunnavatnsskarði.

Fjölbreytt lífríki

Lífríki Vífilsstaðavatns hefur verið rannsakað um ára skeið. Þar eru sérstæðir stofnar bleikju, urriða, áls og hornsíla. Óvenjuleg blanda glerála frá Ameríku og Evrópu gengur upp Vífilsstaðalæk í Vífilsstaðavatn. Hornsílin í vatninu eru heimsfræg, en þau eru sérstök að því leyti að þau skortir kviðgadda. Hornsílin í Vífilsstaðavatni hafa komið við sögu í rannsóknum vísindamanna á Íslandi og í Bandaríkjunum á sviði þróunar- og erfðafræði.

Nýtt fræðsluskilti fyrir útivistarfólk

Eftir að friðlýsingin hefur verið undirrituð er óheimilt að spilla náttúrulegu gróðurfari, hrófla við jarðmyndunum og náttúruminjum í friðlandinu og trufla þar dýralíf. Mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi verða óheimilar nema með leyfi Umhverfisstofnunar og bæjarstjórnar Garðabæjar. Umhverfisnefnd Garðabæjar hefur umsjón með aðgerðum til verndunar landsins og til þess að almenningur geti notið svæðisins. Þegar hefur verið ákveðið að koma upp nýju fræðsluskilti við vatnið með leiðbeiningum til útivistarfólks.

Umferð vélknúinna ökutækja verður bönnuð á friðlandinu nema vegna þjónustu við það. Heimilt verður að fara á reiðhjólum um svæðið eftir vegum og stígum. Stangveiði verður áfram heimil í vatninu einsog verið hefur yfir sumartímann.

Umhverfisvænsti bærinn

Friðlýsing Vífilsstaðavatns og nágrennis er gerð að tillögu Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar Garðabæjar og með samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar. Friðlýsingin er eitt skref í átt að því markmiði Garðabæjar að verða einn umhverfisvænsti og snyrtilegasti bær landsins.

Undirritun yfirlýsingarinnar fer fram í Tónlistarskóla Garðabæjar í dag á ráðstefnunni Náttúran og nærumhverfið. Umhverfisráðherra setur ráðstefnuna og undirritar yfirlýsinguna kl. 13.05.

Á myndinni frá undirrituninni eru frá vinstri: Páll Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Júlía Ingvarsdóttir, formaður umhverfisnefndar.