25. maí 2007

Traust fjárhagsstaða kemur fram í niðurstöðum ársreiknings

Traust fjárhagsstaða kemur fram í niðurstöðum ársreiknings
  • Séð yfir Garðabæ
Niðurstaða ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2006 ber vott um sterka stöðu bæjarsjóðs og gott jafnvægi í rekstri bæjarsjóðs og fyrirtækja hans. Rekstarniðurstaða ársreikningsins er jákvæð sem nemur 212 mkr. en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 58 mkr. Skuldir á hvern íbúa lækka frá fyrra ári.

Almennt er það niðurstaða ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2006 að rekstur málaflokka og stofnana bæjarins hafi verið innan fjárheimilda á árinu 2006. Í máli sínu við framlagningu ársreiknings þakkaði bæjarstjóri forstöðumönnum sviða og stofnana fyrir þann árangur í starfi.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 4.119 mkr. Rekstrartekjur eru 19 mkr hærri en áætlun ársins gerði ráð fyrir, en það er einungis um 0,5% frávik. Stærsti útgjaldaliður bæjarsjóðs er launakostnaður og nema laun og launatengd gjöld samkvæmt ársreikningi 1.864 mkr. Annar rekstrarkostnaður samkvæmt ársreikningi nemur 1.567 mkr. Laun og annar rekstrarkostnaður er rúmri 1 mkr lægri en áætlun gerði ráð fyrir.

Samkvæmt sjóðstreymi nemur veltufé frá rekstri 795 mkr, en áætlun gerði ráð fyrir 682 mkr. Er þar um að ræða hækkun sem nemur 116 mkr og munar þar mest um auknar útsvarstekjur. Sem hlutfall af tekjum er veltufé frá rekstri 19,3% sem sýnir glögglega trausta fjárhagsstöðu bæjarins.

Í lykiltölum kemur fram að skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa lækka úr 449 þkr í 419 þkr frá árinu 2005 til 2006, en engin ný langtímalán voru tekin á árinu.

Samkvæmt niðurstöðu sjóðstreymisyfirlits var handbært fé í árslok 245 mkr sem er í góðu samræmi við áætlun, en hún gerði ráð fyrir 219 mkr.