16. maí 2007

Aukið framhaldsnám í Garðaskóla - vinsælt meðal nemenda

Aukið framhaldsnám í Garðaskóla - vinsælt meðal nemenda
  • Séð yfir Garðabæ


Nemendur í 10. bekk í Garðaskóla geta frá og með næsta hausti tekið tvo fyrstu áfanga framhaldsstigsins í íslensku, stærðfræði og ensku um leið og þeir ljúka skyldunámi. Þeir sem það gera hafa lokið námsefni fyrsta ársins í framhaldsskóla í þessum greinum um leið og þeir útskrifast úr grunnskóla. Um 75 nemendur hafa skráð sig í nám í tvo áfanga framhaldsskóla í einni eða fleiri grein næsta vetur.

Metið til eininga í FG

Skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ og skólastjóri Garðaskóla, í samráði við bæjaryfirvöld, hafa gert með sér samkomulag um að nemendum Garðaskóla gefist kostur á að ljúka tveimur fyrstu áföngum framhaldsstigsins í íslensku, stærðfræði og ensku, þ.e. áföngum 103 og 203, í Garðaskóla. Þetta þýðir að nemendur Garðaskóla geta í 10. bekk lokið námsefni fyrsta árs framhaldsskóla í þessum fögum jafnframt því sem þeir ljúka skyldunámi og útskrifast úr grunnskóla. Námið er metið sem fullgilt nám til eininga þegar þeir hefja nám í Fjölbrautaskóla Garðabæjar.

Helmingur árgangsins tekur tvo áfanga í a.m.k. einni grein

Viðbrögð nemenda við samkomulaginu eru einkar góð og hafa um 75 nemendur, helmingur árgangsins, skráð sig í tvo framhaldsskólaáfanga í einni eða fleiri grein næsta vetur. Um þriðjungur nemenda 10. bekkjar getur því næsta vetur lokið fyrsta ári framhaldsnáms í ensku og stærðfræði og um 20% nemenda í íslensku. Að auki geta nemendur sótt framhaldsáfanga í náttúrufræði, bókfærslu og spænsku og lokið því enn meiru af námsefni framhaldsskólans.

Fljótandi skil grunnskóla og framhaldsskóla

Nemendur Garðaskóla hafa um árabil getað lokið námi í fyrstu áföngum framhaldsskólans og flestir áfangaskólar metið það nám til eininga. Ákvörðunin um að gera þeim kleift að ljúka tveimur framhaldsskólaáföngum í 10. bekk er liður í að skerpa á fljótandi skilum grunnskóla- og framhaldsskólastigs og að skapa nemendum val á samfellu í námsframboði í Garðabæ.

Skilyrði fyrir því að geta sótt framhaldsnámið er að hafa lokið skyldunámi í viðkomandi greinum, en Garðaskóli hefur um árabil boðið 9. bekkingum upp á að nema námsefni 9. og 10. bekkjar samhliða í svonefndum “flugferðum” 9. bekkjar.

Samningur handssalaður, skólameistari FG, bæjarstjóri og skólastjóri Garðaskóla

Þorsteinn Þorsteinsson, skólameistari FG, Gunnar Einarsson
bæjarstjóri og Ragnar Gíslason, skólastjóri Garðaskóla.