9. maí 2007

Samkomulag um hjúkrunarheimili í Garðabæ

Hjkrunarheimili
  • Séð yfir Garðabæ


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og bæjarstjóri Garðabæjar skrifuðu í dag undir samning um fjármögnun byggingar 40 rýma hjúkrunarheimilis á Sjálandi í Garðabæ.

Heimili með 60 rýmum á einum stað

Nýja heimilið mun leysa af hólmi hjúkrunarheimilið Holtsbúð, sem er með jafnmörg rými en í óhentugu leiguhúsnæði. Samningurinn felur því í sér tilfærslu en ekki fjölgun hjúkrunarrýma. Áður hafði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ákveðið byggingu 20 nýrra hjúkrunarrýma í Garðabæ árið 2010 og er gengið út frá því að þau verði í sama húsnæði og þau 40 rými sem samningurinn nær til. Öll hjúkrunarrýmin 60 verða því byggð á einum stað og fæst þannig umtalsverð hagræðing.

Garðabær fjármagnar framkvæmdir á byggingartíma

Samkvæmt samningnum fjármagnar Garðabær byggingu hjúkrunarheimilisins meðan á framkvæmdum stendur en ríkissjóður endurgreiðir síðan sinn hlut í kostnaðinum með verðbótum í samræmi við heimildir fjárlaga. Samningurinn nær ekki til rýmanna 20 sem áður höfðu verið ákveðin heldur var fjármögnun þeirrar framkvæmdar tryggð með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um viðbótarfjármagn til uppbyggingar hjúkrunarrýma, sem fólst í samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara á síðasta ári.

Verkinu verði lokið innan þriggja ára

Áætlað er að heildarkostnaður vegna samnings ríkisins við Garðabæ nemi 776 milljónum króna vegna þeirra 40 hjúkrunarrýma sem flutt verða frá Holtsbúð. Þar við bætist kostnaður vegna 20 hjúkrunarrýma sem áður hafði verið tekin ákvörðun um. Undirbúningur verksins mun hefjast þegar í stað og á honum að vera lokið innan þriggja ára. Verkið verður unnið samkvæmt lögum og reglum um skipulag opinberra framkvæmda, lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um málefni aldraða. Hlutur Ríkissjóðs í kostnaði er 85% en hlutur Garðabæjar 15%.

Skrifað undir samninginn

Skrifað var undir samninginn í Jónshúsi á Sjálandi, þar
sem eru íbúðir fyrir 60 ára og eldri.

Á myndinni eru frá vinstri: Sigrún Aspelund bæjarfulltrúi,
Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Siv Friðleifsdóttir
heilbrigðisráðherra og Erling Ásgeirsson, formaður bæjarráðs

 

Afstöðumynd sem sýnir hvar hjúkrunarheimilið mun rísa.

 

Fumhugmynd að útliti hjúkrunarheimilis á Sjálandi