4. maí 2007

Grunnskólar Garðabæjar fá yfir tvær milljónir í styrk til þróunarverkefna

Grunnskólar Garðabæjar fá yfir tvær milljónir í styrk til þróunarverkefna
  • Séð yfir Garðabæ


Grunnskólar Garðabæjar fengu styrki úr Þróunarsjóði grunnskóla samtals að fjárhæð 2.200.000 krónur, við úthlutun úr sjóðnum fyrir skólaárið 2007-2008.

Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, kennsluráðgjafi í íslensku í grunnskólum Garðabæjar hlaut 600.000 króna styrk vegna nettímaritsins Málgarðs, sem er vefur fyrir íslenskukennslu í grunnskólum Garðabæjar. Vefurinn Málgarður er ætlaður kennurum, nemendum og forráðamönnum þeirra. Á honum má finna bæði fræðilegar og hagnýtar upplýsingar um móðurmálskennslu í grunnskólum, s.s. kennsluhugmyndir og leiðbeiningar, gátlista, verkefni og kennsluáætlanir.

Flataskóli  hlaut 600.000 króna styrk vegna verkefnisins "Fjölbreyttir kennsluhættir í Flataskóla"

Hofsstaðaskóli hlaut tvo styrki.

Annars vegar vegna notkunar á fjölgreindakenningunni í enskukennslu í 1.-4. bekk í leik og starfi, 400.000 krónur.

Hins vegar vegna verkefnis sem ber heitið "Það er alltaf hollt að setja spurningamerki aftan við þá hluti og atburði sem maður hefur lengi tekið sem gefna." Styrkur til þess verkefnis er 600.000 krónur.

Tilgangur sjóðsins er að efla nýjungar, tilraunir og nýbreytni í grunnskólum.

Fimm manna ráðgjafarnefnd mat umsóknirnar og gerði tillögur til menntamálaráðherra um styrkveitingar. Í nefndinni eru fulltrúar frá Kennaraháskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, samtökum kennara og skólastjóra og menntamálaráðuneyti. Alls var úthlutað 20 milljónum króna til 35 verkefna að þessu sinni.