Fjárveitingar til vegagerðar á höfuðborgarsvæðinu verði stórauknar
Framkvæmdastjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu fara þess á leit við samgöngunefnd Alþingis að hún taki til endurskoðunar framlagðar þingsályktunartillögur um samgönguáætlanir fyrir árin 2007-2010 og 2007-2018. Þetta kemur fram í
Stefnir í óefni í umferðarmálum
Í ályktuninni kemur fram að verði ekki brugðist við stefni í mikil óefni í umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Umferð á helstu stofnleiðum verði eftir aðeins 5-10 ár um og yfir flutningsgetu þeirra. Það hafi í för með sér miklar tafir á umferð, langar biðraðir og aukna slysahættu í íbúðahverfum.
Framkvæmdastjórarnir benda á að þjóðvegaumferð er nú þegar langmest á höfuðborgarsvæðinu og slys tíðust þar eins og kemur reyndar fram í framlagðri þingsályktunartillögu til samgönguáætlunar 2007-2010.
Mun meira fjármagn nauðsynlegt
Bæjarverkfræðingum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu var í mars árið 2005 falið að gera úttekt á þörf fyrir úrbætur á vegakerfi höfuðborgarsvæðisins miðað við skipulagsáætlanir sveitarfélaganna til næstu ára. Í tillögum þeirra kemur fram að nauðsynlegt er að leggja verulegt fjármagn til vegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu á næsta áratug umfram það sem framlagðar þingsályktunartillögur gera ráð fyrir.
Umferðarspár sýna að helstu stofnleiðir anna ekki umferð 2012
Umferðarspár fyrir uppbyggingu til ársins 2012 sýna að umferð á helstu stofnleiðum höfuðborgarsvæðisins verður þá orðin mun meiri en þær geta með góðu móti flutt miðað við að framkvæmdum á núgildandi vegáætlun verði lokið. Fjárveitingar samkvæmt framlögðum þingsályktunartillögum til næstu ára duga engan veginn til að koma í veg fyrir að það ástand skapist sem lýst er í greinargerð bæjarverkfræðinganna.
Ályktunin í heild er aðgengileg hér í PDF-skjali.