4. okt. 2002

Mislæg gatnamót komi samhliða tvöföldun Reykjanesbrautar

Mislæg gatnamót komi samhliða tvöföldun Reykjanesbrautar
  • Séð yfir Garðabæ


Bæjarstjórn Garðabæjar ítrekar þá kröfu sína að mislæg gatnamót verði gerð á Reykjanesbraut samhliða því að brautin verði tvöfölduð.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær ályktun þar sem hún ítrekar hvatningu sína til samgönguráðherra, þingmanna Reykjaneskjördæmis og Vegagerðarinnar um að hafa að leiðarljósi þá forgangsröðun vegaframkvæmda sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu samþykktu í upphafi ársins.

Í ályktuninni kemur fram að nýjar forsendur hönnunar á tvöföldun Reykjanesbrautar eru ekki í samræmi við forgangsröðun sveitarfélaganna. Í þeim er gert ráð fyrir að brautin verði tvöfölduð án þess að jafnhliða verði gerð mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Arnarneshæðar og mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Vífilsstaðavegar. Þessar forsendur eru í ósamræmi við þá forgangsröðun vegaframkvæmda sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu samþykktu.

Í greinargerð sem fylgdi ályktuninni kemur eftirfarandi fram: "Í viðræðum Vegagerðar og bæjaryfirvalda á undanförnum árum um lagningu og breikkun stofnbrauta í Garðabæ hefur áhersla verði lögð á gerð mislægra gatnamóta samhliða þeim framkvæmdum Fjölmörg rök mæla með því að samhliða tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fífuhvammsvegi í Kópavogi að Álftanesvegi í Garðabær verði að ljúka uppbyggingu mislægra gatnamóta.

Rökin eru m.a. þau að mikilvægt er að kljúfa ekki í sundur bæjarfélög með hraðbrautum án þess að jafnframt sé hugað að tengingu bæjarhluta. Í gegnum Garðabæ liggja nú tveir af stofnvegum höfuðborgarsvæðisins, þ.e. Hafnafjarðarvegur og Reykjanesbraut, og það er mikilvægt hagsmunamál fyrir íbúana að hverfi bæjarins verði betur tengd saman með mislægum gatnamótum. Mislæg gatnamót auka mjög öryggi borgaranna og þau tryggja greiða og hindrunarlausa umferð en umferð á Reykjanesbraut fer mjög vaxandi á næstu árum.

Í forgangsröðun sveitarfélaganna er gert ráð fyrir að uppbyggingu mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Arnarnesvegar og uppbyggingu mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Vífilsstaðavegar verði lokið árið 2006. Mikilvægt er að framkvæmdunum verði alls ekki frestað fram yfir þann tíma."