17. okt. 2019

Samstarfssamningur Garðabæjar og Skátafélagsins Vífils

Skátafélagið Vífill og Garðabær skrifuðu undir samstarfssamning í lok september sl. Samningurinn kveður á um gagnkvæmar skyldur samningsaðila um útfærslur á tómstundastarfi í Garðabæ. 

  • Undirskrift samstarfssamnings Vífils og Garðabæjar
    Frá vinstri: Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Thelma Rún van Erven félagsforingi skátafélagsins Vífils og Guðbjörg Lilja Sveinsdóttir meðstjórnandi í Vífli.

Skátafélagið Vífill og Garðabær skrifuðu undir samstarfssamning í lok september sl. Samningurinn kveður á um gagnkvæmar skyldur samningsaðila um útfærslur á tómstundastarfi í Garðabæ. Skátafélagið skal þannig hafa það að markmiði í starfseminni að bjóða börnum og unglingum af öllum kynjum skipulagt skátastarf undir leiðsögn vel menntaðra og hæfra leiðbeinenda þar sem lýðheilsa og forvarnagildi skátastarfs er höfð að leiðarljósi.

Garðabær greiðir Skátafélaginu Vífli 9,6 milljónir króna sem árlegt framlag í samræmi við fjárhagsáætlun bæjarstjórnar hverju sinni og skal félagið nýta fjármunina í almennan rekstur á skrifstofu, útilífs- og sumarnámskeið og þjálfunarnámskeið fyrir foringja. Sérstakur samningur er þá gerður um aðkomu Skátafélagsins Vífils og greiðslur frá Garðabæ vegna hátíðarhalda á 17. júní og Sumardaginn fyrsta.

Í samningnum segir að skátafélagið Vífill skal einsetja sér í starfi sínu að uppfylla öll gæðaviðmið Bandalag íslenskra skáta. Þá skal vera samstarf á milli Vífils og íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar um stefnumörkun í skátastarfinu þar sem m.a. verði komið inn á áherslur og markmið beggja aðila.

Við framkvæmd samningsins skal sérstaklega huga að því að mæta þörfum barna og ungmenna með fatlanir í samræmi við stefnu Garðabæjar í málefnum fatlaðs fólks. Einnig skal Vífill vinna jafnréttisáætlun sem taka skal mið af jafnréttisáætlun Garðabæjar og skipuleggja starf sitt með þarfir og hagsmuni allra kynja í huga. Félagið skal tala tillit til forvarnastefnu Garðabæjar við skipulagningu starfseminnar og ber einnig að setja upp áætlanir varðandi eineltismál.