24. maí 2018

Umræða um tillögu að deiliskipulagi miðsvæðis á Álftanesi

Í umræðu um tillögu að deiliskipulagi miðsvæðis á Álftanesi sem hefur verið í forkynningu hafa vaknað upp spurningar varðandi mun á tillögunni og því deiliskipulagi sem verið hefur í gildi frá árinu 2008. Eins og vitað er hafa framkvæmdir eftir því deiliskipulagi aldrei hafist. 

  • Útlit inngarðs í fjölbýlishúsasamstæðu og útsýni milli húsa til Bessastaða
    Útlit inngarðs í fjölbýlishúsasamstæðu og útsýni milli húsa til Bessastaða

Í umræðu um tillögu að deiliskipulagi miðsvæðis á Álftanesi sem hefur verið í forkynningu hafa vaknað upp spurningar varðandi mun á tillögunni og því deiliskipulagi sem verið hefur í gildi frá árinu 2008. Eins og vitað er hafa framkvæmdir eftir því deiliskipulagi aldrei hafist. 

Nú hefur borist fjöldi ábendinga sem vísað hefur verið til deiliskipulagshöfundar og tækni- og umhverfissviði til úrvinnslu.  Rétt er að geta þess að ábendingum á þessu stigi er ekki svarað með formlegum hætti en tekið tillit til slíkra ábendinga eins og kostur er áður en tillaga er sett í formlegt skipulagsferli með möguleikum á frekari athugasemdum sem þá ber að svara með rökstuddum hætti hvort heldur á þær er fallist eða þeim synjað á því stigi. 

Skýringarmyndir

Hér má sjá skýringamyndir sem draga fram þennan mun á því svæði þar sem byggðin er þéttust eða í Breiðumýri/Eyvindarstaðamýri og nær til svæðis sem er 113.000 m2 að flatarmáli (11,3ha).

Samanburðarmyndir

Fyrsta samanburðarmyndin dregur fram stærðir almenningsrýma utan lóða. Þar kemur fram að í tillögunni er flatarmál almenningsrýma um 60 % af svæðinu á meðan í gildandi deiliskipulagi er um 42 %. 

Önnur samanburðarmynd sýnir opin svæði innan fjölbýlishúsalóðanna þar sem í tillögunni er gert ráð fyrir um 30.000 fermetrum en gildandi deiliskipulag um 13.000 fermetrum. Fjöldi íbúða er þó svipaður eða um 300 en tillagan gerir ekki ráð fyrir eins mikilli atvinnu- og þjónustu starfsemi eins og gildandi deiliskipulag.

Þriðja samanburðarmyndin sýnir þann flöt sem byggingar munu þekja (hér kallað fótspor). Þar kemur í ljós að meðan tillagan gerir ráð fyrir því að um 15 % svæðisins lendi undir byggingum þá gerir gildandi deiliskipulag ráð fyrir um 25 %. 

Þrívíddarmyndir

Þá má einnig líta þrívíddarmyndir sem sýna ásýnd fjölbýlishúsabyggðarinnar samkvæmt deiliskipulagstillögunni. Fyrsta myndin sýnir ásýnd frá Suðurnesvegi í átt að Bessastöðum. Þar sést að þriðja hæðin er ekki fullnýtt og léttir það á ásynd bygginganna um leið og það skapar möguleika á skjólmyndun á þaksvölum.

ásýnd frá Suðurnesvegi í átt að Bessastöðum

Önnur myndin sýnir útlit inngarðs í fjölbýlishúsasamstæðu og útsýni milli húsa til Bessastaða.

Útlit inngarðs

Þriðja myndin sýnir útlit fjölbýlishúsa frá opnum svæðum og þar sést hvernig allar íbúðir liggja að opnu landi og mynda þar með sterk tengsl íbúða og náttúru.

Útlit fjölbýlishúsa frá opnum svæðum