22. okt. 2019

Úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum Garðabæjar

Skýrsla um úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum Garðabæjar var lögð fram og tekin til umfjöllunar í bæjarstjórn Garðabæjar 17. október sl.

Skýrsla um úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum Garðabæjar var lögð fram og tekin til umfjöllunar í bæjarstjórn Garðabæjar 17. október sl. Skýrslan er unnin af Haraldi L. Haraldssyni hagfræðingi (HLH ehf.). Við vinnslu skýrslunnar var stuðst við gögn frá sveitarfélaginu og til samanburðar voru skoðuð gögn varðandi rekstur sambærilegra sveitarfélaga. Úttektin byggir meðal annars á viðtölum við forstöðumenn og deildarstjóra einstakra málaflokka á sviðum bæjarins. Auk greiningarinnar á stjórnsýslunni, rekstrinum og fjármálum eru lagðar fram tillögur til úrbóta í skýrslunni.
   
Í bókun bæjarstjórnar um úttektina segir: ,,Bæjarstjórn Garðabæjar lýsir ánægju með framkomna skýrslu sem staðfestir traustan rekstur bæjarfélagsins þar sem starfsmenn leggja sig fram af metnaði og með fagmennsku að leiðarljósi við að veita bæjarbúum góða þjónustu. Í skýrslunni felast jafnframt tækifæri til að gera enn betur með það að markmiði að fylgja eftir tillögum og ábendingum til að bæta rekstur, fjárhag og þjónustu bæjarins.“

Skýrsla um stjórnsýslu, rekstur og fjármál Garðabæjar.  

Aðgerðaráætlun um tillögur og ábendingar til úrbóta

Í skýrslunni eru lagðar fram 63 tillögur ásamt 36 ábendingum um það sem sérstaklega er vert að skoða í stjórnsýslu, rekstri og fjármálum bæjarins. Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti á fundi sínum 17. október sl. að fela bæjarstjóra að vinna aðgerðaráætlun um framgang einstakra tillagna og fylgja eftir ábendingum sem koma fram í skýrslunni. Aðgerðaráætlun verður lögð fram í bæjarráði Garðabæjar og fylgt eftir með stöðumati eftir sex mánuði.

Ítarleg greining á rekstri og fjármálum

Í greiningunni hefur íbúaþróun verið skoðuð, farið í greiningu á skuldum, veltu- og handbæru fé frá rekstri. Einnig hefur verið skoðað hvernig ársreikningur hefur komið út í samanburði við fjárhagsáætlun. Rekstrarafkoma, laun og önnur rekstrarútgjöld hafa verið greind og einnig er þar að finna greiningu á tekjum sveitarfélagsins, samsetningu tekna o.fl. Í úttektinni er farið yfir hvernig fjöldi stöðugilda hefur þróast síðustu ár í samanburði við önnur sveitarfélög af svipaðri stærð.
Einnig er að finna í úttektinni greiningu á þróun framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga ásamt greiningu á áhrifum nýrra reglna sjóðsins á framlögum til Garðabæjar.

Kynning á skýrslunni – íbúafundur 24. október kl. 17

Starfsmenn bæjarskrifstofa og forstöðumenn stofnana hafa fengið kynningu á helstu niðurstöðum úr úttektinni. Fimmtudaginn 24. október kl. 17 verður haldinn opinn íbúafundur í Sveinatungu á Garðatorgi 7 þar sem skýrslan verður kynnt. Á fundinum fara Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Haraldur L. Haraldsson, hagfræðingur og skýrsluhöfundur, yfir helstu niðurstöður sem koma fram í skýrslunni.