1. des. 2022

Ábyrgur rekstur og sterk fjárhagsstaða

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2023 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 1. desember sl. Samhliða áætlun næsta árs var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2024, 2025 og 2026. 
Fjárhagslegt svigrúm er til að sækja fram en einnig til þess að viðhalda lágum og í sumum tilfellum lækka álögur á íbúa og fyrirtæki.Á árinu 2023 verður stóraukin áhersla á endurbætur á húsnæði og lóðum sveitarfélagsins og áframhaldandi uppbygging innviða. 

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2023 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 1. desember sl. Samhliða áætlun næsta árs var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2024, 2025 og 2026.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Garðabæjar er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta verði jákvæður um 51,5 m.kr. og einnig er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðureiknings (A og B hluta) um 589 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað að verði 2.688 m.kr. hjá A sjóði og 3.499 m.kr. í samstæðureikningi. Framlegð er áætluð 13,5%. Fjárhagsstaða bæjarins er traust og skuldahlutfall lágt í samanburði við önnur sveitarfélög.

Fjárhagsáætlun Garðabæjar verður kynnt á opnum fundi fyrir íbúa þriðjudaginn 6. desember nk. kl. 17.15 í fundarsal bæjarins í Sveinatungu á Garðatorgi 7. Fundinum verður streymt af vefsíðu Garðabæjar.

Fjárhagsáætlun Garðabæjar og greinargerð með áætluninni má nálgast hér á vef Garðabæjar.

Fjárhagslegt svigrúm til að sækja fram í Garðabæ

 

 

„Í fjárhagsáætluninni er lögð áhersla á ábyrgan rekstur og sterka fjárhagsstöðu annars vegar og framsækna uppbyggingu þjónustu og innviða hins vegar,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. „Staðan hefur verið góð í Garðabæ og við búum við fjárhagslegt svigrúm til að sækja fram og fjárfesta í mannauði og mannvirkjum. Bæjarbúar eiga von á því að njóta áfram góðrar þjónustu um leið og álögum er haldið í lágmarki. Ég vil þakka starfsfólki bæjarins fyrir góða vinnu, bæjarfulltrúum úr öllum flokkum fyrir góða samvinnu og íbúum fyrir góðar ábendingar og aðhald,“ segir Almar. 

Fjárhagslegt svigrúm er til að sækja fram en einnig til þess að viðhalda lágum og í sumum tilfellum lækka álögur á íbúa og fyrirtæki. Þar má nefna að:

 

  • Útsvar verður óbreytt í 13,7% og er lægst í Garðabæ meðal stærri sveitarfélaga.
  • Fasteignagjöld á íbúa lækka í 0,166% og eru lægst meðal stærri sveitarfélaga.
  • Vatnsgjald og holræsagjald lækka einnig á árinu 2023.
  • Fasteignagjald á atvinnuhúsnæði lækkar í 1,52%.
  • Mikil lækkun fasteignaskatta er til að vega á móti hækkun fasteignamatsstofns.
  • Gjaldskrár bæjarins hækka um 7% sem felur í sér raunlækkun þar sem verðbólga er hærri.

 

Endurbætur á húsnæði og áframhaldandi uppbygging

Á árinu 2023 verður stóraukin áhersla á endurbætur á húsnæði og lóðum sveitarfélagsins og áframhaldandi uppbygging innviða. Framlög til endurbóta skólahúsnæðis, íþróttamannvirkja og skólalóða verða þrefölduð milli ára. Stórar framkvæmdir halda áfram svo sem uppbygging 2. áfanga Urriðaholtsskóla og byggingu nýs leikskóla við Holtsveg í Urriðaholti.

Áhersla verður á umhverfi og sjálfbærni og liður í því er m.a. fyrsti áfangi í uppbyggingu nýs fráveitukerfis og hreinsistöðvar á Álftanesi. Fjárfest verður í loftgæðamæli, áframhaldandi uppbyggingu útivistarstíga og meiri flokkun sorps.

Vöxtur í velferð, þjónustu og menningu

Í byggingu er sjö íbúða búsetukjarni við Brekkuás sem stefnt er að verði tekinn í notkun fyrri hluta árs 2024. Fyrir liggur að skipuleggja sambærilegan búsetukjarna fyrir fatlað fólk í Hnoðraholti á nýju ári. Áframhaldandi vöxtur er í þjónustu við fatlað fólk. Móttaka flóttafólks er sístækkandi verkefni og fyrirséð að fjöldi flóttafólks mun aukast í Garðabæ á næsta ári.

Á árinu 2023 verður haldið áfram með innleiðingu á samþættri þjónustu í þágu farsældar barna. Framlög til sumarfrístundar barna verða stóraukin og lögð verður áhersla á forvarnir í starfi félagsmiðstöðva.

Haldið verður áfram með endurbætur á Garðatorgi og aðgerðir til að auka sýnileika miðbæjarins. Einnig verður settur á laggirnar sérstakur þróunarsjóður fyrir skapandi greinar.

Fjárhagsáætlun Garðabæjar verður kynnt á opnum fundi fyrir íbúa þriðjudaginn 6. desember nk. kl. 17.15 í fundarsal bæjarins í Sveinatungu á Garðatorgi 7. Fundinum verður streymt hér af vefsíðu Garðabæjar.