1. okt. 2020

Aðgerðir til að hefta útbreiðslu ágengra plöntutegunda

Garðyrkjudeild og umhverfishópar Garðabæjar hafa undanfarin ár unnið að skrásetningu og heftingu á útbreiðslu ágengra tegunda í bæjarlandinu. Plöntutegundirnar eru skógarkerfill, bjarnarkló, lúpína og njóli. 

  • Skógarkerfill
    Skógarkerfill

Garðyrkjudeild og umhverfishópar Garðabæjar hafa undanfarin ár unnið að skrásetningu og heftingu á útbreiðslu ágengra tegunda í bæjarlandinu. Plöntutegundirnar eru skógarkerfill, bjarnarkló, lúpína og njóli. Fylgst er reglulega með vaxtarsvæðum kerfils og annara ágengra plöntutegunda í Garðabæ. Á svæðum þar sem lítið vex af ágengum plöntutegundum er fljótt gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu tegundanna.

Skógarkerfill er sleginn snemma sumars

Skógarkerfill er ágeng tegund og erfitt getur verið að uppræta hann. Skógarkerfill er að breiðast út víða í bæjarlandinu og hefur garðyrkjudeild Garðabæjar unnið markvisst að því undanfarin ár að hefta útbreiðslu hans m.a. með orfaslætti yfir sumarið. Baráttan við kerfilinn er erfið því þó svo að slegið sé fyrir fræmyndun og plantan sjálf eyðileggst, þá vaxa nýjar plöntur upp af hliðasprotum rótarinnar.

Nauðsynlegt er að hefta útbreiðslu kerfilsins og vinna að aðgerðum til að uppræta hann alveg. Þær aðferðir sem garðyrkjudeildin hefur helst notað til að halda kerflinum niðri á svæðum innan bæjar og utan byggðar er að slá plöntuna snemma sumars áður en hún losar fræ og koma þannig í veg fyrir frekari útbreiðslu. Einnig hafa plöntur verið stungnar upp með rót á stöðum þar sem stakar plöntur finnast.

Í sumar voru mörg ungmenni í Garðabæ starfandi í umhverfishópum og þá gekk sérstaklega vel að stinga upp stakar plöntur í friðlandi Vífilsstaðavatns.

Tilraun við að hefta útbreiðslu kerfils með hestabeit

Sumarið 2017 var í tilraunaskyni reynt að hefta útbreiðslu kerfils með hestabeit á landspildu í landi Vífilsstaða og hestamannafélagið Sóti tók þátt með því að beita hrossum á svæði þar sem skógarkerfill var útbreiddur. Vonast var til að sumarbeitin myndi hefta útbreiðslu kerfilsins sem hefur m.a. ógnað friðlandi Vífilsstaðalands. Sumarbeitin hófst snemma það vor (en plantan getur orðið beisk þegar líður á sumarið) en hestarnir vildu ekki éta kerfilinn og því hefur orfasláttur orðið ofan á undanfarin ár við að hefta útbreiðsluna.

Er Bjarnarkló í garðinum þínum?

Bjarnarkló er stórvaxin planta af sveipjurtaætt og hefur verið nokkuð vinsæl sem skrautjurt í einkagörðum. Varast ber að rækta þessa tegund, þar sem hún þroskar auðveldlega mikið af fræjum og dreifir sér af sjálfsdáðum. Bjarnarkló er eitruð planta, safinn í stönglinum og blöðunum virkjast í sólarljósi og getur valdið alvarlegum bruna á húð og valdið blindu ef hann berst í augu. Garðyrkjudeild Garðabæjar hefur fjarlægt þær plöntur sem hafa fundist á opnum svæðum og öðrum stöðum innan Garðabæjar. Hægt er að tilkynna um vaxtarstaði Bjarnarklóar til garðyrkjudeildar Garðabæjar.

Bjarnarkló