19. okt. 2018

Gagnrýni bæjarstjórnar Garðabæjar um samgönguáætlun

Á fundi bæjarstórnar Garðabæjar fimmtudaginn 18. október 2018 var samþykkt ályktun um forgangsröðun til brýnna framkvæmda í samgönguáætlun. 

  • Hafnarfjarðarvegur stokkalausn
    Hafnarfjarðarvegur - stokkalausn

Á fundi bæjarstórnar Garðabæjar fimmtudaginn 18. október 2018 lagði Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar, fram eftirfarandi ályktun um forgangsröðun til brýnna framkvæmda í samgönguáætlun sem var samþykkt samhljóða.

„Bæjarstjórn Garðabæjar gagnrýnir harðlega þær tillögur að samgönguáætlun sem nú eru til umræðu á Alþingi, bæði tillögu um fimm ára samgönguáætlun 2019-2023 og tillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033.
Það er óásættanlegt að ekki sé gert ráð fyrir meira fjármagni til nýframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu til að leysa og létta á umferðarþunga á þessu svæði.
Samkvæmt ástandsgreiningu starfshóps SSH og ríkisins frá árinu 2017 fær fjöldi umferðarmannvirkja á höfuðborgarsvæðinu einkunnina F sem þýðir að umferð gangi mjög erfiðlega fyrir sig.
Bæjarstjórn Garðabæjar mótmælir því að í tillögu að samgönguáætlun 2019-2023 sem nú liggur fyrir sé ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni til framkvæmda við gatnamót Hafnarfjarðarvegar ogVífilsstaðavegar né gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Lyngáss en bæði gatnamótin fá þjónustustig F í ástandsgreiningunni auk þess sem umferðaröryggi þar er verulega ábótavant.
Í tillögu að samgönguáætlun 2019-2033 er stokkur undir Hafnarfjarðarveg í Garðabæ tímasettur á tímabilinu 2029-2033 og þá einungis með helmingi þess framlags sem áætlað er að framkvæmdin kosti.
Bæjarstjórn Garðabæjar mótmælir því að svo brýn framkvæmd sé látin sitja á hakanum og leggur mikla áherslu á að framkvæmdin sé færð framar í samgönguáætlun.
Tveir þriðju hluti landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu og á hverju ári koma rúmlega tvær milljónir ferðamanna til landsins sem flestir fara í gegnum Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog á leið sinni til og frá landi.
Bæjarstjórn Garðabæjar hvetur ráðherra og þingmenn til þess að forgangsraða fjármagni í samgönguáætlun þar sem hún nýtist flestum og þörfin er brýn. Óbreytt ástand er ólíðandi.“