13. jan. 2021

Ánægja með þjónustu Garðabæjar á heildina litið

Garðabær lendir í fyrsta sæti þegar spurt er um ánægju með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið í samanburði við önnur sveitarfélög í árlegri þjónustukönnun Gallup sem var framkvæmd í lok árs 2020.

Garðabær lendir í fyrsta sæti þegar spurt er um ánægju með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið í samanburði við önnur sveitarfélög í árlegri þjónustukönnun Gallup sem var framkvæmd í lok árs 2020. Markmið könnunarinnar er að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar ásamt því að skoða breytingar á mælingum milli ára.

Í heildina eru niðurstöður könnunarinnar mjög góðar og Garðabær er í efstu sætum í flestum almennum viðhorfsspurningum könnunarinnar eða í 1.-5. sæti í 10 af 13 spurningum (1.-3. sæti í 7 af 13 spurningum). Garðabær er fyrir ofan meðaltal í öllum spurningum utan einnar þar sem meðaltalið er jafnt í samanburði við önnur sveitarfélög. Í samanburði milli ára þá er sama skor í 6 af 13 spurningum og lækkun í sjö spurningum (þar af er marktæk lækkun í 3 spurningum).

Ánægja með sveitarfélagið sem stað til að búa á

Garðabær lendir einnig í fyrsta sæti þegar spurt er um hversu ánægðir íbúar eru með sveitarfélagið sem stað til að búa á og sú spurning fær einnig hæsta skorið eða 4,4 (á mælikvarða upp í 5). Aðrar spurningar þar sem Garðabær lendir í efstu sætum eru um þjónustu grunnskóla, þjónustu leikskóla, gæði umhverfis í nágrenni heimilis, þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu við sorphirðu, skipulagsmál og hversu vel eða illa er leyst úr erindum. Einnig er spurt um þjónustu við eldri borgara, þjónustu við fatlað fólk, menningarmál og aðstöðu til íþróttaiðkunar í könnuninni.

Notendur ánægðari

Í könnuninni er m.a. greining á svörum eftir kyni, aldri, fjölskyldusamsetningu og tekjum. Einnig er samanburður á svörum íbúa sem búa á Álftanesi í samanburði við önnur hverfi.
Jafnframt er greint hvernig þeir sem nota tiltekna þjónustu svara í samanburði við aðra og eins og fyrri ár er merkjanlegur munur þar sem þeir sem nýta þjónustuna, s.s. íbúar með börn í leik- og grunnskóla, þeir sem nýta íþróttaaðstöðu, eldri borgarar og aðstandendur þeirra, fatlað fólk og aðstandendur þeirra, eru ánægðari með þjónustuna.

Þjónustukönnunin var lögð fram til kynningar í bæjarráði Garðabæjar í vikunni. Niðurstöður könnunarinnar verða áfram rýndar hjá nefndum og sviðum bæjarins til að geta þróað og bætt þjónustu Garðabæjar enn betur.

Niðurstöður fyrir Garðabæ úr þjónustukönnuninni eru aðgengilegar hér á vef Garðabæjar og þar má jafnframt sjá niðurstöður til samanburðar úr eldri könnunum.

Þjónustukönnun Gallup 2020 – niðurstöður Garðabæjar
Eldri þjónustukannanir – niðurstöður Garðabæjar