4. júl. 2023

Bessastaðanes friðlýst

Í lok síðustu viku var Bessastaðanes friðlýst sem friðland, en það staðfesti Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við hátíðlega athöfn að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar.

  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar.
    F.v. Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar., Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Í lok síðustu viku var Bessastaðanes friðlýst sem friðland, en það staðfesti Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra  við hátíðlega athöfn að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar.

Á Bessastaðanesi eru fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Þá er svæðið viðkomustaður margæsar og rauðbrystings, en auk þess er þar æðarfugl, sendlingur og tildra sem hafa alþjóðlegt verndargildi. Verndargildi vistgerðanna á svæðinu er frá því að vera miðlungs hátt og upp í mjög hátt og eru til að mynda votlendisvistgerðirnar starungsmýravist, gulstaraflóavist og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Friðlýsingunni er ætlað að tryggja vernd náttúrulegs ástand svæðisins sem bú- og viðkomusvæðis fugla, sem og að vernda líffræðilega fjölbreytni þess - lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi Bessastaðaness, sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki, tækifærum til útivistar innan þéttbýlis og nýtingar sem samrýmist verndun búsvæða fugla.

Með friðlýsingunni nú er Lambhúsatjörn að stærstum hluta friðuð, en við hana er m.a. að finna vistgerðina marhálmsgræður, sem hefur takmarkaða útbreiðslu og er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir.

Viðstödd friðlýsinguna voru, auk forseta, ráðherra og bæjarstjóra, fulltrúar Minjastofnunar, forsætisráðuneytis og starfsmenn forsetaembættisins, ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar.