6. mar. 2019

Betri Garðabær -Hugmyndir íbúa og kosning

Betri Garðabær er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ. Verkefnið hefst 14. mars og lýkur að hausti 2020.

  • Betri Garðabær - sendu inn þína hugmynd!
    Ertu með góða hugmynd? Hvað vantar í hverfið þitt? Hugmyndasöfnun í lýðræðisverkefninu Betri Garðabæ stendur yfir til og með 4. febrúar 2024.

Betri Garðabær er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ. Verkefnið hefst 14. mars og lýkur að hausti 2020.

Markmiðið þessa verkefnis er að efla með markvissum hætti lýðræðisleg vinnubrögð í sveitarfélaginu
og verja fé til framkvæmda sem byggir á þátttökufjárlagagerð, þar sem íbúar forgangsraða sjálfir fjármagni í framkvæmdir. Með verkefninu koma íbúar hugmyndum sínum varðandi nærumhverfi sitt á framfæri, færa rök fyrir hugmyndum og að lokum ráðstafa fjármagni í hugmyndir sem verða framkvæmdar af sveitarfélaginu. Verkefnið eykur m.a. vitund íbúa um gæði í nærumhverfi sínu. 

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti árið 2010 lýðræðisstefnu bæjarins og var þar með fyrsta íslenska bæjarfélagið til að setja stefnu í lýðræðismálum. Tilgangurinn með stefnunni var að stuðla að auknum möguleikum íbúa til að taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum bæjarins og jafnframt að hvetja íbúa markvisst til að taka þátt í málum sem snúa að sveitarfélaginu. Verkefnið Betri Garðabær er liður í fjölbreyttum lýðræðisverkefnum Garðabæjar.

Í fyrstu umferð verkefnisins sem verður nú á vormánuðum verður stuðst við reynslu nágrannasveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem hafa farið í samskonar verkefni. Áhersla er lögð á að verkefnið er þróunarverkefni sem verður þróað áfram með íbúum út frá reynslu, ábendingum og þátttöku. Í lok verkefnisins verður unnið endurmat og farið yfir það hvernig verkefnið tókst til, lagðar fram hugmyndir að betrumbótum og nýjum útfærslum ef þörf þykir. Reynsla þessa verkefnis mun einnig verða tekin inn í vinnu við endurnýjun á lýðræðisstefnu bæjarins sem á að ljúka haustið 2019.

Hugmyndasöfnun á vef hefst 14. mars

Hugmyndasöfnun stendur yfir frá 14. mars til 1. apríl 2019. Hugmyndum er safnað rafrænt á hugmyndavef sem rekinn er af Íbúum ses. Þar geta íbúar og aðrir lagt fram hugmyndir, rætt hugmyndir og líkað við þær eða hafnað. Á hugmyndavef er hægt að setja inn texta, ljósmyndir, stutt myndbönd og staðsetja hugmyndir á korti. Hugmyndirnar geta verið nýframkvæmdir sem m.a. geta eflt hreyfi- og leikmöguleika og haft jákvæð áhrif á nærumhverfið m.a. til útivistar og samveru, bætta lýðheilsu og aðstöðu til leikja- og skemmtunar.

Úrvinnsla hugmynda - matshópur

Eftir að hugmyndasöfnun lýkur fer matshópur skipaður starfsmönnum bæjarins yfir innsendar hugmyndir út frá skilyrðum verkefnisins og leggur fram ákveðinn fjölda hugmynda á kjörseðil þar sem hugmyndirnar eru kostnaðarmetnar. Horft verður til þess að þær hugmyndir sem fara á kjörseðilinn verði dreift landfræðilega jafnt um sveitarfélagið.

Rafræn kosning í maí og framkvæmdir

Þegar búið er að vinna úr hugmyndunum og kostnaðarmeta, fá íbúar í Garðabæ tækifæri til að kjósa um hugmyndirnar og úthluta allt að 100 milljónum króna í verkefni sem þeir vilja sjá framkvæmd í sveitarfélaginu næstu tvö árin. Rafræn kosning er fyrirhuguð dagana 23. maí til og með 3. júní 2019. Kosningin er rafræn og þátttaka er opin öllum þeim íbúum sem hafa skráð lögheimili í Garðabæ þegar kosning fer fram og verða 15 ára og eldri á kosningaárinu. 

Undirbúningur framkvæmda fer af stað strax að loknum kosningum. Verkefni sem þarfnast minni undirbúnings fara í framkvæmd sumarið 2019 en stærri verkefnum verði lokið eigi síðar en í ágúst 2020.

Upplýsingar um Betri Garðabæ – íbúafundur 20. mars

Boðið verður upp á kynningu á verkefninu og hugmyndasöfnuninni á íbúafundi sem verður haldinn miðvikudaginn 20. mars kl. 17:15 í Flataskóla.
Öll gögn um Betri Garðabæ eru aðgengileg hér á vef Garðabæjar og allar nánari upplýsingar verða veittar í þjónustuveri Garðabæjar eða á netfanginu gardabaer@gardabaer.is þegar verkefnið hefst.