5. feb. 2021

Dagur leikskólans

Þann 6. febrúar nk. er dagur leikskólans en þann dag er vakin sérstaklega athygli á leikskólastiginu, hlutdeild þess í menntakerfinu og samfélagslegu gildi fyrir atvinnulíf og fjölskyldur í landinu. 

  • Börn að leik (mynd birt með leyfi)

Þann 6. febrúar nk. er dagur leikskólans en þann dag er vakin sérstaklega athygli á leikskólastiginu, hlutdeild þess í menntakerfinu og samfélagslegu gildi fyrir atvinnulíf og fjölskyldur í landinu. Á þeim degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Í Garðabæ hefur verið vakin athygli á degi leikskólans með ýmsu móti í gegnum árin til að greina frá því uppbyggilega starfi sem á sér stað innan leikskólanna.

Hlutverk leikskólans er óumdeilt í dag sem órjúfanlegur þáttur í velferðarsamfélagi þar sem lögð er áhersla á jöfnuð til menntunar og tækifærum beggja foreldra til þátttöku í atvinnulífi. Leikskóli er lærdómssamfélag þar sem starfshættir hvetja til samvinnu og samstarfs milli starfsfólks og foreldra og tekið er mið af því samfélagi og umhverfi sem hann starfar í.

Í aðalnámskrá leikskóla kemur fram að leikur sé órjúfanlegur þáttur bernskuáranna og þungamiðja leikskólastarfsins. Leikur er sjálfsprottinn og börnum eðlislægur. Þau leika sér af fúsum og frjálsum vilja og á eigin forsendum. Leikur getur veitt gleði og vellíðan en jafnframt falið í sér valdabaráttu og átök og þannig er leikurinn meginnámsleið barna. Hann skapar börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfi sitt, tjá hugmyndir sínar, reynslu og tilfinningar og þróa félagsleg tengsl við önnur börn.

Fyrsta skólastigið

Leikskólinn er fyrsta stig skólakerfisins og þannig upphaf formlegrar menntunar einstaklinga. Í samstarfi við foreldra á leikskólinn að kappkosta að fylgjast með og efla alhliða þroska allra barna, veita öllum börnum hvetjandi uppeldisumhverfi og stuðla að öryggi þeirra og vellíðan. Skólaganga barna á að mynda samfellda heild þannig að reynsla og nám barna á fyrri skólastigum nýtist þeim á því næsta. Þannig verður sú þekking sem börn tileinka sér í leikskólanum, að grunni sem grunnskólanámið byggist á.

Í aðalnámskrá leikskóla segir að tengsl leikskóla og grunnskóla sé samstarfsverkefni barna, foreldra, kennara og annars starfsfólks beggja skólastiga, þar sem barnið, velferð þess, þroski og menntun eru í brennidepli. Kennarar á báðum skólastigum eiga að kynna sér nám og starfsaðferðir hver annars, leita leiða til að móta samstarf og skapa samfellu í námi barna í því augnamiði að auka sjálfstraust barna og styðja við nám þeirra.

Hér má sjá nánari upplýsingar um leikskóla í Garðabæ og tengla yfir á vefi leikskólanna þar sem er að finna upplýsingar um starfsemi skólanna.