Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2019-2022
Fjárhagsáætlun Garðabæjar var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar fimmtudaginn 1. nóvember sl. Samhliða næstu árs áætlun var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun Garðabæjar fyrir árin 2020, 2021 og 2022. Síðari umræða um fjárhagsáætlun verður 6. desember 2018, en samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal bæjarstjórn hafa samþykkt áætlunina fyrir 15. desember ár hvert.
Fjárhagsáætlun Garðabæjar var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar fimmtudaginn 1. nóvember sl. Samhliða næstu árs áætlun var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun Garðabæjar fyrir árin 2020, 2021 og 2022. Síðari umræða um fjárhagsáætlun verður 6. desember 2018, en samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal bæjarstjórn hafa samþykkt áætlunina fyrir 15. desember ár hvert.
Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A hluta bæjarsjóðs verði um 142 mkr. og A og B hluta um 584 mkr. Veltufé frá rekstri er áætlað 1.411 mkr. hjá A hluta og 1.984 mkr. í A og B hluta. Framlegð er áætluð 15% en er 14% samkvæmt áætlun 2018.
Fjárhagsstaða Garðabæjar er sterk, skuldir eru hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Skuldahlutfall var 84,8% samkvæmt ársreikningi Garðabæjar árið 2017, en er áætlað 97,4% í árslok 2018. Í áætlun sem nú er lögð fram er skuldahlutfall í árslok 2019 áætlað 94,7%. Skuldaviðmið í árslok 2019 er áætlað 80,5% en var áætlað 82% í árslok 2018.
Í forsendum fyrir fjárhagsáætlun Garðabæjar er gert ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 13,7% og að álagningarhlutfall fasteignaskatta verði skoðað milli umræðna með lækkun í huga.
Hófleg íbúafjölgun hefur verið síðustu ár í Garðabæ og samhliða hafa fylgt auknar skatttekjur. Íbúafjölgunin hefur verið nokkuð stöðug á bilinu 1,5 – 3% og langt yfir landsmeðaltali. Á sama tíma hafa stofnanir bæjarins getað fylgt eftir fjölguninni og veitt góða þjónustu. Í frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árin 2019-2022 er tekið tillit til mikillar uppbyggingar sem sést m.a. í framlögum til Urriðaholtsskóla, þar sem starfræktur er leik- og grunnskóli ásamt tómstundaheimili.
Á árinu 2019 er gert ráð fyrir framkvæmdum að fjárhæð 2.340 mkr. Stærstu einstöku framkvæmdirnar eru viðbygging við Álftanesskóla sem áætlað er að verja 620 mkr. og til fjölnota íþróttahúss sem einnig er áætlað að verja 620 mkr. Þá eru áætlaðar 400 mkr. til Urriðaholtsskóla en gert er ráð fyrir framlagi frá Urriðaholti ehf. að sömu fjárhæð. Áætlað er að verja 75 mkr. til framkvæmda í Bæjargarði og 75 mkr. til framkvæmda vegna miðbæjar á Garðatorgi.
Gert er ráð fyrir að 100 mkr. fari í endurbætur á leikskólanum Kirkjubóli og alls fari 100 mkr. í endurbætur á skólalóðum. Til gatnagerðar, hljóðvistar og umferðarmála er áætlað að verja um 650 mkr. og einnig er gert ráð fyrir fjármagni í framkvæmdir á strætóskýlum, hjólaaðstöðu, hleðslustöðvum og grenndargámum. Þá er áætlað að verja 50 mkr. til lýðræðisverkefna þar sem íbúum gefst tækifæri til að kjósa um verkefni.
Íbúum Garðabæjar gefst kostur á að senda inn ábendingar og tillögur vegna fjárhagsáætlunargerðar fyrir árin 2019-2022. Allar ábendingar verða teknar til skoðunar á milli umræðna í bæjarstjórn.
Fjárhagsáætlun 2019-2022 –fyrri umræða
Greinargerð með fjárhagsáætlun