8. nóv. 2019

Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2020-2023

Fjárhagsáætlun Garðabæjar var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar fimmtudaginn 7. nóvember sl. Samhliða áætlun næsta árs var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun Garðabæjar fyrir árin 2021, 2022 og 2023.

  • Ábendingar um fjárhagsáætlun

Fjárhagsáætlun Garðabæjar var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar fimmtudaginn 7. nóvember sl. Samhliða áætlun næsta árs var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun Garðabæjar fyrir árin 2021, 2022 og 2023. Gert er ráð fyrir að síðari umræða og afgreiðsla áætlunarinnar verði í bæjarstjórn Garðabæjar þann 5. desember 2019 en samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal bæjarstjórn hafa samþykkt áætlunina fyrir 15. desember ár hvert.

Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta bæjarsjóðs verði um 159 m.kr. og samstæðureiknings um 566 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað að verði 1.469 m.kr. hjá A sjóði og 2.022 m.kr. í samstæðureikningi. Framlegð er áætluð 13,8% en er 13,1% samkvæmt áætlun 2019.

Fjárhagsstaða Garðabæjar er sterk, skuldir eru hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Skuldahlutfall var 93,9% skv. ársreikningi Garðabæjar árið 2018, en er áætlað 99% skv. fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2019 og áætlun fyrir árið 2020 gerir ráð fyrir að skuldahlutfallið verði 95,5%. Skuldaviðmið er áætlað að verði 82,6%. Framkvæmdir eru áætlaðar 2.310 millj. árið 2020.

Í forsendum fyrir fjárhagsáætlun Garðabæjar er gert ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 13,7%.

Hófleg íbúafjölgun hefur verið síðustu ár í Garðabæ og samhliða hafa fylgt auknar skatttekjur. Íbúafjölgunin hefur verið nokkuð stöðug á bilinu 1,5 – 3% sem er yfir landsmeðaltali. Á sama tíma hafa stofnanir bæjarins getað fylgt eftir fjölguninni og veitt góða þjónustu. Í frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árin 2020-2023 er tekið tillit til mikillar uppbyggingar sem sést m.a. í framlögum til Urriðaholtsskóla, þar sem starfrækt er leikskóladeild og tómstundaheimili ásamt grunnskóla. Jafnframt er gert ráð fyrir framlagi til Áss styrktarfélags sem samið hefur verið um rekstur á starfsemi íbúðakjarna við Unnargrund fyrir fatlað fólk. Einnig hefur nýju tómstundaheimili fyrir fötluð ungmenni, Garðahrauni, verið hleypt af stokkunum í Garðaskóla þar sem börn dvelja eftir að grunnskólakennslu lýkur á daginn.

Á árinu 2020 er gert ráð fyrir framkvæmdum að fjárhæð 2.310 mkr. Stærstu einstöku framkvæmdirnar eru áframhaldandi bygging fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri og ljúka á viðbyggingu Álftanesskóla. Áfram verður unnið að endurbótum á leik- og grunnskólum auk endurbóta á skólalóðum fyrir samtals 300 mkr. Einnig er gert ráð fyrir 100 mkr í búsetuúrræði fyrir fatlað fólk og 40 mkr í stofnframlagi leiguíbúða. Til lýðræðisverkefnisins Betri Garðabæjar eru áætlaðar 50 mkr til að koma í framkvæmd og ljúka við þau verk sem íbúar kusu um á þessu ári.

Leitað hefur verið til bæjarbúa með ábendingar um fjárhagsáætlun Garðabæjar eins og gert hefur verið á síðastliðnum árum. Það er mikið ánægjuefni hversu margir íbúar hafa brugðist við og skilað inn ýmsum ábendingum um það sem betur má fara eða leggja skuli áherslu á. Ábendingar íbúa verða teknar fyrir milli umræðna.

Fjárhagsáætlun 2020-2023 - fyrri umræða

Greinargerð með fjárhagsáætlun