20. nóv. 2020

Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2021-2024

Frumvarp að fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2021 var lagt fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Garðabæjar 19. nóvember 2020. Gert er ráð fyrir að síðari umræða og afgreiðsla áætlunarinnar verði í bæjarstjórn Garðabæjar þann 3. desember 2020. Samhliða áætlun næsta árs er jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2022, 2023 og 2024. 

Frumvarp að fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2021 var lagt fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Garðabæjar 19. nóvember 2020. Gert er ráð fyrir að síðari umræða og afgreiðsla áætlunarinnar verði í bæjarstjórn Garðabæjar þann 3. desember 2020. Samhliða áætlun næsta árs er jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2022, 2023 og 2024.

Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðureiknings verði neikvæður um 71 mkr. Veltufé frá rekstri er áætlað að verði 1.098 m.kr. hjá A sjóði og 1.654 m.kr. í samstæðureikningi. Framlegð er áætluð 9,5% en er 11,5% samkvæmt áætlun 2020.

Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2021 skipting málaflokka

Sterk fjárhagsstaða og skuldir undir viðmiðunarmörkum

Fjárhagsstaða Garðabæjar er sterk, skuldir eru hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Skuldaviðmið veður 88,3% sem er mjög ásættanlegt. Framkvæmdir eru áætlaðar 3.584 millj. árið 2021 en voru áætlaðar 3.028 millj. árið 2020.
Gert er ráð fyrir óbreyttu álagningarhlutfalli útsvars 13,7 %, sem er það lægsta sem þekkist meðal stærri sveitarfélaga landsins. Í forsendum fyrir fjárhagsáætlun Garðabæjar er gert ráð fyrir að þjónusta við bæjarbúa verði áfram eins og best verður á kosið, að ekki verði dregið úr grunnþjónustu vegna samdráttar tekna og að álögur á íbúa verði haldið eins lágum og kostur er. Jafnframt verði gætt ítrasta aðhalds í rekstri bæjarins.

Framkvæmdir á árinu 2021

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Garðabæ á undanförnum árum og áfram er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum á árinu 2021. Stærsta framkvæmdin er áframhaldandi uppbygging á fjölnota íþróttahúsi í Vetrarmýri fyrir um 2.000 mkr. Stefnt er að því að byggja tvo nýja búsetukjarna fyrir fatlað fólk á næstu tveimur árum og á næsta ári er áætlað að verja um 200 mkr í þá uppbyggingu. Samkvæmt framkvæmdaáætlun er gert ráð fyrir að bæta aðstöðu fyrir félags- og tómstundastarf eldri borgara með nýrri aðstöðu á miðsvæði Álftaness auk þess sem gert er ráð fyrir að möguleikar verði skoðaðir á stækkun félagsaðstöðu eldri borgara í Jónshúsi. Gert er ráð fyrir að byggingaframkvæmdir við nýjan leikskóla í Urriðaholti hefjist á árinu 2021 og að á árinu verði undirbúningur hafinn að næsta áfanga Urriðaholtsskóla. Til gatnagerðar, hljóðvistar, umferðarmála er áætlað að verja um 1.001 mkr. og til samveitna um 300 mkr. Einnig verður ráðist í áframhaldandi viðhald á íþrótta- og skólamannvirkjum utandyra sem innan.

Ábendingar bæjarbúa

Eins og síðustu ár var leitað til bæjarbúa í haust með ábendingar um fjárhagsáætlun þar sem íbúar gátu sent inn hugmyndir og tillögur um ný verkefni eða það sem betur má fara eða leggja skuli áherslu á. Alls bárust rúmlega 40 ábendingar og allar verða þær teknar til skoðunar á milli umræðna í bæjarstjórn um fjárhagsáætlun.

Óvissa um tekjur og kostnað

Í framsögu Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra Garðabæjar, á fundi bæjarstjórnar með fjárhagsáætlunarfrumvarpinu kom fram að fjárhagsáætlunin væri nú unnin við óvenjulegar aðstæður þar sem óvissa væri mikil hvað varðar útsvarstekjur og kostnað og þá sérstaklega á sviði félagsmála. Einnig væri óvissa tengd sölu á lóðum og sölu á byggingarétti, en í framlagðri áætlun væri gert ráð fyrir 250 milljónum vegna sölu á byggingarétti. Í máli Gunnars kom einnig fram að ekki lægi fyrir hvort og hvernig stuðningur ríkisins yrði við sveitarfélög umfram það sem nú er en að áætlunin tæki mið af útkomuspá 2020 og þeirri óvissu sem ríkir í samfélaginu.

Fjárhagsáætlun 2021-2024 – fyrri umræða
Greinargerð með fjárhagsáætlun