3. des. 2021

Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2022-2025

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2022 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 2. desember sl. Samhliða áætlun næsta árs var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2023, 2024 og 2025.

  • Turn tekin úr kirkjuturni

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2022 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 2. desember sl. Samhliða áætlun næsta árs var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2023, 2024 og 2025.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Garðabæjar er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta bæjarsjóðs verði neikvæður um 463 m.kr. en jákvæð rekstrarniðurstaða samstæðureiknings um 49 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað að verði 1.337 m.kr. hjá A sjóði og 2.011 m.kr. í samstæðureikningi. Framlegð er áætluð 10%.

Sterk fjárhagsstaða bæjarins og hóflegar skuldir

Fjárhagsstaða Garðabæjar er sterk, skuldir eru hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Skuldaviðmið er áætlað að verði 89,9%.
Í forsendum fyrir fjárhagsáætlun Garðabæjar er gert ráð fyrir að útsvarshlutfall verði áfram 13,7 % sem er það lægsta sem þekkist meðal stærri sveitarfélaga landsins. Álögum á íbúa verði haldið eins lágum og kostur er, skuldahlutfall verði svipað og undanfarin ár, þjónusta við bæjarbúa verði eins og best verður á kosið og ekki verði dregið úr grunnþjónustu vegna samdráttar skatttekna. Þá sé gert er ráð fyrir lækkun álagningarprósentu á fasteignaskatti vegna mikillar hækkunar fasteignamats.

Íbúafjöldi yfir 18 þúsund

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Garðabæ á undanförnum árum og íbúafjöldi fór yfir 18 þúsund á árinu 2021. Í Garðabæ hefur uppbygging á nýjum svæðum verið jöfn og þétt en um er að ræða svæði sem gefa meiri tekjur inn í framtíðina, t.d. í Vetrarmýri og Hnoðraholti, við Lyngás, í Urriðaholti og á miðsvæði Álftaness. Áfram er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu með framboði lóða fyrir íbúðahúsnæði og atvinnuhúsnæði t.d. í Vífilsstaðalandi, Hnoðraholti, Urriðaholti og Álftanesi.

Á árinu 2022 er gert ráð fyrir framkvæmdum að fjárhæð 4.326 m.kr.. Stærstu framkvæmdirnar á árinu 2022 verða í Urriðaholti þar sem byrjað verður á byggingu næsta áfanga Urriðaholtsskóla (900 m.kr) og nýjum leikskóla (800 m.kr). Einnig er samkvæmt framkvæmdaáætlun gert ráð fyrir að byggja búsetukjarna fyrir fatlað fólk, endurbæta skólalóðir, skólahúsnæði, opin leiksvæði og íþróttavelli. Til gatnagerðar, hljóðvistar og umferðarmála er áætlað að verja um 1,295 m.kr.

Hér má sjá fjárhagsáætlun Garðabæjar 2022-2025.