30. des. 2019

Garðabær hefur hlotið jafnlaunavottun

Garðabær hefur hlotið jafnlaunavottun þar sem jafnlaunastaðalinn ÍST 85 hefur verið innleiddur hjá Garðabæ.

  • Merki jafnlaunavottunar

Garðabær hefur hlotið jafnlaunavottun þar sem jafnlaunastaðalinn ÍST 85 hefur verið innleiddur hjá Garðabæ. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Samkvæmt lögum er gert ráð fyrir að opinberir aðilar og fyrirtæki þar sem fleiri en 25 starfa að jafnaði á ársgrundvelli hafi öðlast jafnlaunavottun eigi síðar en 31. desember nk. Garðabær fékk vottun á jafnlaunakerfi sínu 16. desember 2019 sem gildir í þrjú ár eða til 16. desember 2022.

Nýtt jafnlaunakerfi Garðabæjar

Á síðustu mánuðum hefur farið fram mikil vinna hjá Garðabæ við að setja upp og innleiða nýtt jafnlaunakerfi sem tekur til allra starfsmanna sveitarfélagsins. Jafnlaunakerfið tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér ómálefnalega mismunun. Launagreiningar verða framkvæmdar árlega til að mæla árangur jafnlaunakerfisins. Jafnlaunastaðallinn IST 85:2012 er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi og jafnlaunakerfi Garðabæjar stenst kröfur staðalsins samkvæmt jafnlaunavottuninni.

Garðabær gerði samning við faggiltu vottunarstofuna iCert ehf í apríl á þessu ári um vottun á jafnlaunakerfi Garðabæjar og lokavottunarúttektin fór fram í lok nóvember. Í vottunarúttektinni var farið yfir framkvæmd jafnlaunakerfis Garðabæjar með tilliti til krafna staðalsins og innri krafna kerfisins. Þá var einnig farið yfir launagreiningar og aðferðafræði Garðabæjar að baki þeim. Engin frávik eða athugasemdir voru greindar í vottunarúttektinni. Í úttektarskýrslu úttektarteymis iCert segir m.a. ,,Almennt hefur vinna við innleiðingu og upplýsingamiðlun einkennst af metnaði og vilja stjórnenda til þess að leggja sitt af mörkum til að stuðla að árangri í jafnlaunamálum og að láta jafnlaunakerfið vinna fyrir GB í mannauðs- og launamálum sveitarfélagsins. Útfærsla og aðlögun jafnlaunakerfis GB að kröfum staðalsins ÍST 85:2012 og þeirrar framkvæmdar sem hefur verið við lýði hjá GB er til fyrirmyndar.“

Jafnlaunastefna Garðabæjar

Samhliða innleiðingu jafnlaunavottunar var jafnlaunastefna Garðabæjar samþykkt í október 2019 þar sem kveðið er á um að stefna Garðabæjar er að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og er stefnunni ætlað að tryggja að jafnréttis sé gætt við allar launaákvarðanir.
Jafnlaunastefna Garðabæjar

Nánari upplýsingar um jafnlaunavottun má sjá hér á vef Jafnréttisstofu.