5. jún. 2023

Gunnsteinn Ólafsson er bæjarlistamaður Garðabæjar 2023

Útnefningin fór fram við hátíðlega athöfn í Sveinatungu í Garðabæ.

  • Utnefning_23-13-

Bæjarlistamaður Garðabæjar 2023 er Gunnsteinn Ólafsson hljómsveitar- og kórstjóri, tónskáld og frumkvöðull. Útnefningin fór fram við hátíðlega athöfn í Sveinatungu í Garðabæ föstudaginn 2. júní en kvöldið áður stjórnaði Gunnsteinn stórfenglegum flutningi á Carmina Burana eftir Carl Orff þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands lék en 300 manna kór söng ásamt þremur einsöngvurum.

Gunnsteinn stjórnar Háskólakórnum og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins auk þess sem hann er stofnandi og stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði.

Við sama tilefni var John Speight söngvari og tónskáld heiðraður fyrir framlag sitt til menningarlífs en John hefur búið á Íslandi frá árinu 1972, lengst af á Álftanesi. John starfaði sem söngvari og kennari en undir lok áttunda áratugarins fór hann að semja í meira mæli.Við athöfnina söng Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir mezzósópran lagið Tálsýn eftir Gunnstein Ólafsson og Morgunljóð I og II eftir John Speight. Þá voru styrkir til ungra hönnuða og listamanna veittir.

Utnefning_23-2-

Gunnsteinn Ólafsson er stjórnandi Háskólakórsins, stofnandi og stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins, kennari í Listaháskóla Íslands og stofnandi Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði en hann kom á fót Þjóðlagasetri Sr. Bjarna Þorsteinssonar. Gunnsteinn nam tónsmíðar við Franz Liszt tónlistarakademíuna í Budapest og tónsmíðar og hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi. Ævintýraóperan Baldursbrá, fjölda mörk verk fyrir kóra og einsöngvara en einnig verk fyrir hljóðfæri og hljómsveitir liggja eftir Gunnstein.

Gunnsteinn ritaði texta í tvær bækur um náttúru Íslands enda vel kunnugur landinu eftir störf sín sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn. Myndirnar tók Páll Stefánsson.


John Speight er ættaður frá Norður- Englandi en nam söng og tónsmíðar við Guildhall School of Music and Drama í London. Hann starfaði sem söngvari og kennari eftir að hann fluttist til Íslands árið 1972 en stjórnaði auk þess kór Bessastaðakirkju í 15 ár. Undir lok áttunda áratugarins fór hann að semja í meira mæli svo sem 5 sinfóníur, tvær óperur, 7 einleikskonserta, jólaóratóríu sem var valin tónverk ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2002, fjölda kammerveraka og tæplega 100 einsöngslög. Upptaka með píanóeinleiksverkkum í flutningin Peter Mate var einnig valið tónverk ársins 2021.

Utnefning_23-34-

Ungmennin sem fengu styrki úr Hvatningarsjóði fyrir unga hönnuði og listamenn í Garðabæ eru eftirfarandi:

Einar Örn Magnússon stendur nú í upptökum á smáskífu og fær til liðs við sig góða tónlistarmenn en mun halda útgáfutónleika í Garðabæ.

Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar sem fór í tónleikaferð austur fyrir fjall þar sem sveitin lék með jafnöldrum sínum. Lagt var upp með að ferðin yrði ekki síður hópeflisferð enda að baki erfið ár fyrir ungmenni í blásarasveit og ekki sjálfgefið að nemendur haldi áfram að leika með Blásarasveitinni.

Guðrún Ágústa Gunnarsdóttir og Helena Guðrún Þórsdóttir fengu styrk fyrir bókaútgáfu en þær vinna efnið í bókina á ferð sinni um Evrópu. Ljóð, ljósmyndir, skissur og vatnslitamyndir eru meðal verka sem túlka upplifun þeirra. Bókinni er ætlað að hafa jákvæð áhrif á ungt fólk í Garðabæ.

Sólrún Arnarsdóttir hlaut styrk til að skoða möguleika lífræns úrgangs sem fellur til við framleiðslu þörunga sem efnivið í byggingar og við innanhússhönnun. Tilgangurinn er að koma nýrri, staðbundinni og umhverfisvænni viðbót í flóru efniviðs á Íslandi sem geta leyst mengandi efni af hólmi.

Júlía Kolbrún Sigurðardóttir og Linde Hanne Rongen fá styrk til að halda áfram að þróa dansverk og brjóta upp form sem þær þróuðu með sér í fyrra sem starfsmenn skapandi sumarstarfa. Hringrás, Hringhreyfingar og húmor eru útgangspunktar en dansverkið þróa þær út frá málverkum og verða gerðar tilraunir á mismunandi stöðum í Garðabæ í sumar. Þær stöllur vilja efla sviðslistir í Garðabæ og tengja verkið við náttúruna sem bærinn hefur uppá að bjóða.