6. júl. 2018

Kynningarfundur um skipulagsmál

Þann 27. júní sl. var haldinn íbúafundur í Flataskóla þar sem tillögur að skipulagsáætlunum í Vífilsstaðalandi voru kynntar.

  • Skipulagssvæðið
    Skipulagssvæðið

Þann 27. júní sl. var haldinn íbúafundur í Flataskóla þar sem tillögur að skipulagsáætlunum í Vífilsstaðalandi voru kynntar.

Þær áætlanir sem nú eru í kynningu eru:

·         Verkefnislýsing breytingar á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 sem nær til Vífilsstaðalands.

·         Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Hnoðraholts og Vetrarmýrar.

Sigurður Guðmundsson formaður skipulagsnefndar kynnti í inngangi sínum nýskipaða skipulagsnefnd. Auk hans sitja í nefndinni  þau Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir, Lúðvík Steinarsson og Stella Stefánsdóttir fyrir hönd D-listans og Baldur Ó. Svavarsson fyrir hönd G-listans.


Frá kynningarfundinum

Formaður skipulagsnefndar greindi frá þeim áætlunum sem til kynningar eru og að hægt verði að skila inn ábendingum og athugasemdum til 27. ágúst.

Kynntir voru til sögunnar þeir skipulagsráðgjafar sem vinna að þeim skipulagsmálum sem til meðferðar eru í Vífilsstaðalandi. Skipulagsteymið skipa þau Sigurður Einarsson arkitekt hjá Arkitektastofunni Batteríinu ehf, Þráinn Hauksson landlagsarkitekt hjá Landlagsarkitektastofunni Landslag ehf og Jóhanna Helgadóttir arkitekt og skipulagsfræðingur hjá Verkfræðistofunni Eflu.

Formaður nefndarinnar greindi frá því að nýtt aðalskipulag, Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030, tók gildi þann 4. maí síðastliðinn. (nr.448/2018), og að sú aðalskipulagsbreyting sem nú er ýtt úr vör yrði fyrsta breyting hins nýja aðalskipulags.

Sigurður Einarsson arkitekt kynnti síðan verkefnislýsinguna og tillöguna að deiliskipulagsbreytingu.

Aðalskipulagsbreytingin

Samkvæmt skipulagslögum skal gera lýsingu á skipulagsbreytingunni skv 30.gr. Skipulagslaga. Þar kemur fram hvaða áherslur bæjarstjórn hafi við gerð breytingarinnar, upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.  Dæmi um mikilvæga hagsmunaaðila á Vífilsstaðasvæðinu eru Golfklúbbur GKG, íbúar í Hnoðraholti, Ungmennafélagið Stjarnan og Skógræktarfélag Garðabæjar svo einhverjir aðilar séu nefndir.

Skipulagssvæðið

Í kjölfarið verður unnin tillaga að aðalskipulagsbreytingu sem verður forkynnt og að lokinni forkynningu verður tillagan auglýst.  Hægt verður að koma með ábendingar bæði um lýsinguna sem núna er kynnt en einnig vegna tillögunnar þegar hún verður forkynnt. Síðan gefst kostur á að gera formlegar athugasemdir þegar tillagan verður auglýst.

Í lýsingu kemur fram að vinna skuli rammahluta aðalskipulags sem nær til Vífilsstaðalands, Hnoðraholts, Vetrarmýrar, Smalaholts, Rjúpnahæðar, Vífilsstaða og Vífilsstaðahrauns. Það svæði er skilgreint sem þróunarsvæði í aðalskipulaginu.

Á grundvelli rammahluta aðalskipulagsins verður deiliskipulag unnið í áföngum. Þegar unnin er rammahluti aðalskiulags er kveðið nánar á um ýmis atriði sem í tilfelli Vífilsstaðalands eru lega vega og stíga, afmörkun opinna svæða og íþróttasvæða, afmörkun og þéttleiki og byggðar, þjónustu o.s.f.v.

Tillagan mun byggja á vinningstillögu samkeppni um rammaskipulag Vífilsstaðalands sem fram fór á síðasta ári.

Hægt verður að koma með ábendingar vegna lýsingarinnar til 27. ágúst næstkomandi.

Stefnt verður að því að móta breytingartillöguna á næsta misseri og í kjölfarið verður hún forkynnt og svo auglýst.

Deiliskipulagsbreytingin

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur unnið að því undanfarin ár að koma í framkvæmd byggingu fjölnota íþróttahúss. Mikilvægasti liður í þeim undirbúningi hefur verið að finna byggingunni stað og niðurstaðan er sú að skynsamlegast sé að reisa húsið neðst í Vetrarmýri. Í þeirri stenfumótunarvinnu sem fram fór við gerð hins nýsamþykkta aðalskipulags var ákveðið að ráðstafa landi neðst í Vetrarmýri til íþróttaiðkunar við hlið golfvallarins sem fær á móti svæði nær Vífilsstaðalvatni og Smalaholti.

Í gildi er deiliskipulag Hnoðraholts og Vetrarmýrar frá árin 1996. Þar er gert ráð fyrir golfvelli í Vetrarmýri og íbúðarbyggð í Hnoðraholti. Til að áform um byggingu fjölnota íþróttahúss nái fram að ganga eins og stefnt hefur verið að þá er ákveðið að byrja á því að gera breytingu á gildandi deiliskipulagi en taka um leið mið af vinningstillögu um rammaskipulag Vífilsstaðalands sem sú lýsing sem nú er kynnt boðar að unnið skuli eftir. Breytingartillögunni fylgir umhverfisskýrsla í samræmi við lög um umhverismat áætlana. Hægt verður að skila inn athugasemdur við tillögna til 27.ágúst og skulu þær vera skriflegar.

Í lok kynningarinnar var kynnt sú tillaga að útfærslu fjölnota íþróttahússins sem hlutskörpust var í alútboði sem nýverið fór fram. Þeir sem standa að þeirri tillögu eru Íslenskir aðalverktakar og arkitektastofan ASK. Sú tillaga er í samræmi við þær skipulagsáætlanir sem nú eru í mótun í Vífilsstaðalandi.


Fjölnota íþróttahús

Garðbæingar eru hvattir til þess að kynna sér þær áætlanir sem nú eru í kynningu. Þær eru fyrstu skrefin á langri vegferð uppbyggingar í Vífilsstaðalandi sem nú er framundan. Markmiðið er að þar rísi glæsilegasta íbúðar-, íþrótta- og útivistarsvæði höfðuborgarsvæðisins við hlið svæða sem rómuð eru fyrir náttúrufegurð.