2. des. 2011

Aukið fjármagn til fjölskyldumála

Við gerð fjárhagsáætlunar Garðabæjar fyrir árið 2012, sem lögð var fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær, var fjármagn aukið til ýmissa rekstrarliða svo sem á fjölskyldusviði, fræðslusviði og í æskulýðs- og íþróttamálum.
  • Séð yfir Garðabæ

Við gerð fjárhagsáætlunar Garðabæjar fyrir árið 2012, sem lögð var fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær, var fjármagn aukið til ýmissa rekstrarliða svo sem á fjölskyldusviði, fræðslusviði og í æskulýðs- og íþróttamálum. Áætlunin sýnir vel sterka fjárhagsstöðu Garðabæjar. Þessa góðu stöðu má m.a. rekja til þess hversu skjótt var brugðist við breyttum aðstæðum hausið 2008 og hversu góðum árangri þær aðgerðir skiluðu.

Óbreytt lágt útsvar

Ein af forsendum frumvarpsins að fjárhagsáætlun er að útsvar verður áfram óbreytt í Garðabæ, 13,66% sem er það lægsta á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir það og að fjármagn er aukið til ýmissa málaflokka er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu að fjárhæð 116 m.kr.

Nýtt stöðugildi á fjölskyldusviði

Helstu breytingar í rekstrinum á næsta ári er að nýr leikskóli í Akrahverfi verður tekin í notkun í janúar. Málefni fatlaðs fólks fluttu til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nýju stöðugildi á fjölskyldusviði til að mæta þessum nýju verkefnum og almennt auknu álagi á sviðinu.

Hóflegar skuldir

Stærsta framkvæmd ársins 2012 er bygging hjúkrunarheimilis á Sjálandi. Á árinu 2012 er áætlað að taka lán að fjárhæð 1,0 milljarður vegna framkvæmdarinnar. Þrátt fyrir það eru skuldir Garðabæjar áfram hóflegar. Þegar hjúkrunarheimilið verður tekið í notkun á árinu 2013 mun ríkið greiða Garðabæ árlega leigu fyrir húsnæðið sem stendur undir afborgunum af láninu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri nemi 12,1%. Eiginfjárhlutfall er áætlað að verði 0,57 og veltifjárhlutfall rétt tæplega 1,0.

Aðrar helstu forsendur fjárhagsáætlunar Garðabæjar fyrir árið 2012 eru:

Að fasteignaskattar hækki sem nemur verðlagsbreytingu ársins 2011.
Að rekstrarniðurstaða bæði A-sjóðs og samstæðu verði jákvæð um a.m.k. 100 millj.
Að langtímaskuldir frá ársreikningi 2010 lækki.
Að ekki komi til uppsagnar starfsmanna eða niðurskurðar í rekstri.
Að gjaldskrár hækki almennt um 5% sem er áætluð verðlagsbreyting milli ára.
Að reglur vegna lækkunar á fasteignaskatti elli- og örorkulífeyrisþega tryggi að tekjulágir eldri borgarar njóti afsláttar af fasteignaskatti og holræsagjöldum.
Að framlög verði aukin til fræðslu-, íþrótta- og tómstundamála.
Að framkvæmt verði fyrir 1.469 millj. kr. og þar af 900 millj. vegna byggingar hjúkrunarheimilis.
Að áfram sé gætt að aðhaldi í rekstri og hagkvæmum innkaupum.
Að Garðabær verði áfram fyrirmyndarsveitarfélag hvað varðar fjármál og rekstur.


Frumvarp að fjárhagsáætlun 2012

Greinargerð með fjárhagsáætlun 2012 - fyrri umræða