15. júl. 2016

Votlendi endurheimt í Garðabæ

Fyrsti samningurinn um endurheimt votlendis var undirritaður á Bessastöðum í dag.
  • Séð yfir Garðabæ

Fyrsti samningurinn um endurheimt votlendis var undirritaður á Bessastöðum í dag. Samninginn undirrituðu Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands f.h. Bessastaðalands og Árni Bragason, f.h. Landgræðslu ríkisins sem hefur umsjón með verkefninu um endurheimt votlendis. Samningurinn snýst um endurheimt votlendis á um fjögurra hektara svæði í Músavík á sunnanverðu Bessastaðanesi og um 2,5 hektara svæði í Sauðavík á norðanverðu nesinu. Markmið verkefnisins er að endurheimta það votlendi sem áður einkenndi þetta svæði.

Sjá nánar um verkefnið á vef umhverfisráðuneytisins og vef Landgræðslunnar.

Landgræðslan hefur umsjón með styrkveitingum og eftirliti þeirra verkefna er hlutu styrki til að endurheimta votlendi þegar auglýst var eftir umsóknum á síðasta ári. Garðabær sótti um styrk til að endurheimta votlendi við Kasthúsatjörn og forsetaembættið sótti um fyrir Bessastaðaland. Gott samstarf hefur verið á milli umhverfisstjóra Garðabæjar, starfsmanna forsetaembættisins og Landgræðslunnar um undirbúning þessara verkefna og voru báðar umsóknirnar samþykktar.

Af hverju að endurheimta votlendi?

Votlendi búa oft yfir mikilli frjósemi, fjölbreyttu lífríki og eiginleikum til að miðla næringu og vatni. Jarðvegur þeirra er mjög kolefnaríkur og geymir verulegan hluta af kolefnisforða jarðar.

Áætlað er að um 4.200 km2 votlendis hafi verið framræstir á Íslandi. Þegar votlendi er ræst fram opnast greiðari leið fyrir súrefni niður í jarðveginn og kolefnis- og köfnunarefnissambönd losna sem gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Endurheimt votlendis getur því vegið mjög þungt í mótvægisaðgerðum Íslands gegn loftslagsbreytingum.

(Úr aðgerðaráætlun Samráðshóps um endurheimt votlendis).

Embætti forseta Íslands annast framkvæmdina í landi Bessastaða í samráði við Garðabæ. Landgræðsla ríkisins veitir ráðgjöf og metur árangur verkefnisins.

Sjá aðgerðaráætlun Samráðshóps um endurheimt votlendis á vef umhverfisráðuneytisins. (pdf-skrá).