28. mar. 2011

Frábær árangur nemenda í Garðabæ

Nemendur í Garðabæ náðu einna bestum árangri á landsvísu í PISA könnuninni sem lögð var fyrir 10. bekk á Íslandi í mars 2009. Árangur þeirra er sambærilegur við árangur nemenda í Finnlandi
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur í Garðabæ náðu einna bestum árangri á landsvísu í PISA könnuninni sem lögð var fyrir 10. bekk á Íslandi í mars 2009. Árangur nemenda Garðabæjar var marktækt betri en meðaltal Íslands í öllum þáttum þ.e. lesskilningi, læsi á stærðfræði og læsi í náttúrufræði og er sambærilegur við árangur nemenda í Finnlandi sem oftast hafa komið best út úr þessari könnun.

Sambærilegur árangur og í Finnlandi

Meginniðurstaða PISA 2009 er að Ísland hækkar frá síðustu prófum og nálgast það ár sem útkoman var best þ.e. árið 2000. Fyrir Garðabæ er árangurinn árið 2009 sá besti frá upphafi og marktækt betri en árið 2006. Þannig er árangur Garðabæjar einn sá besti á landsvísu og marktækt betri en meðaltal Íslands í öllum þáttum þ.e. lesskilningi, læsi á stærðfræði og læsi í náttúrufræði.

Nánari útkomu Garðabæjar í samanburði við Ísland og löndin í OECD sem Ísland ber sig gjarnan saman við (Evrópuríkin og þróuð ríki eins og Bandaríki Norður-Ameríku, Ástraílu o. fl.) má sjá í töflunni hér fyrir neðan.

Það má geta þess að væri Garðabær ríki eða land þá væri frammmistaða nemendanna sem voru í 10. bekk vorið 2009 sambærileg árangri landa eins og Finnlands í lesskilningi, læsi á stærðfræði og læsi á náttúrufræði. Þetta verður að teljast frábær árangur hjá þessum árgangi í Garðabæ og er þessum nemendum , kennurum í grunnskólum Garðabæjar og foreldrum til mikils sóma.

Í morgunútvarpi Rásar 2 28. mars sl. var rætt við Almar Halldórsson, verkefnisstjóra PISA um góðan árangur Garðaskóla í könnuninni.


Hægt er að hlusta á viðtalið
hér á vef RUV.

Víðtæk og nákvæm rannsókn

PISA eða Programme for International Student Assessment er alþjóðleg könnun á þekkingu og hæfni 15 ára nemenda, sem endurtekin er á þriggja ára fresti. Þar er metið hve vel 15 ára ungmenni eru undirbúin fyrir þátttöku í nútímasamfélagi við lok skyldunáms. PISA er víðtæk og nákvæm rannsókn þar sem lesskilningur og læsi nemenda er metið og að auki aflað bakgrunnsupplýsinga um nemendur og fjölskyldur þeirra sem hjálpar til við að útskýra ólíka námsfærni. Rannsóknin er afrakstur samvinnu á vegum Efnahags‐ og framfarastofnunarinnar OECD og byggir á bestu mögulegum aðferðum til þess að tryggja réttmætan samanburð á frammistöðu í mismunandi löndum og á mismunandi menningarsvæðum. Rannsóknin beinist að því að fylgjast með og meta frammistöðu 15 ára nemenda við lok grunnskólans í nokkrum lykilgreinum, sem eru lestur, stærðfræði og náttúrufræði.

Rannsóknin metur aðra þætti skólagöngunnar en námsframvindu og hefur m.a. verið lögð áhersla á þrautalausnir, námsvenjur, skólaumhverfi og lestrarvenjur. Við 15 ára aldurinn, eða við lok 10. bekkjar á Íslandi, er frammistaða nemenda í þessum lykilgreinum nokkuð góður mælikvarði á það hvernig skólakerfinu tekst til við að búa nemendur undir áframhaldandi nám og störf. Það hefur sýnt sig að þær þjóðir sem standa sig best í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum af þessu tagi eru jafnframt þær þjóðir þar sem meirihluti þegnanna virðist hafa góð tækifæri til þess að lifa innihaldsríku lífi. Því eru rannsóknir af þessu tagi mikilvægar fyrir allar þjóðir sem taka þátt í þeim. Alls tóku 65 lönd þátt í PISA 2009, OECD löndin 33 auk 32 landa utan OECD.

PISA hefur verið lagt fyrir á Íslandi á þriggja ára fresti frá 2000. Niðurstöður Íslands fyrir PISA 2009 voru kynntar í desmber sl. og fengu einstök sveitarfélög kynningu um mánaðamótin janúar/febrúar.

Niðurstöður PISA könnunar í 10. bekk (15 ára nemendur)

Vor 2000 Vor 2003 Vor 2006 Vor 2009
Þátttaka í Garðabæ   88% 82% 81% 79%
Lesskilningur          
meðaleinkunn: OECD 500 500 500 494
meðaleinkunn: Ísland 507 492 486 500
meðaleinkunn : Garðabær 516 499 472 544
* 95% bilkvarði Garðabæjar 318-714 313-686 273-672 384-705
munur á hæst og lægsta   396 373 400 321
Læsi á stærðfræði          
meðaleinkunn: OECD 500 500 496
meðaleinkunn: Ísland 515 507 507
meðaleinkunn : Garðabær 524 507 560
* 95% bilkvarði Garðabæjar 357-692 324-690 412-708
munur á hæst og lægsta     335 366 296
Læsi á náttúrufræði          
meðaleinkunn: OECD 500 501
meðaleinkunn: Ísland 491 498
meðaleinkunn : Garðabær 493 535
* 95% bilkvarði Garðabæjar 297-690 377-692
munur á hæst og lægsta       392 315
* 95%bilkvarði fyrir Garðaskóla er bilið milli 2,5% lægstu einkunnar og 2,5% hæstu einkunnar