29. des. 2010

Ný gjaldskrá leikskóla

Ný gjaldskrá leikskóla tekur gildi frá áramótum. Helstu breytingar samkvæmt henni eru að matargjald hækkar um 1.830 kr. eða úr 4.370 kr. í 6.200 kr. á mánuði.
  • Séð yfir Garðabæ

Ný gjaldskrá leikskóla tekur gildi frá áramótum. Helstu breytingar samkvæmt henni eru að matargjald hækkar um 1.830 kr. eða úr 4.370 kr. í 6.200 kr. á mánuði.

Systkinaafsláttur fyrir barn umfram eitt verður áfram 50% en afsláttur fyrir þriðja barn lækkar úr 75% í 50%. Þá tekur gildi nýtt ákvæði þar sem dvalargjald umfram átta stundir hækkar úr 3.200 kr. (sem er grunngjald) í 6.400 kr. og er það óháð systkinaafslætti. Einstæðir foreldrar og námsmenn fá afslátt í samræmi við reglu sem um þá gilda.

Grunngjald sem er 3.200 kr. fyrir klst. er óbreytt og afsláttur fyrir einstæða foreldra og námsmenn verður áfram 40% á árinu 2011.
Afsláttur sem veittur er vegna fimm ára barna lækkar úr 6 klst. í 4 klst. frá og með áramótum en fellur alveg niður frá og með næsta hausti.

Leikskólagjald fyrir 8 klst. dvöl verður frá og með næstu áramótum 31.800 kr. sem er hækkun um 1.830 kr. (matargjald) eða sem nemur 6,1%. Í þeim tilvikum sem dvöl barna er umfram 8 klst. og í tilvikum fimm ára barna getur hækkunin verið meiri í prósentum. Þá hækka gjöldin hlutfallslega meira hjá afsláttahópum. Þannig hækkar almennt gjald fyrir 9 klst. úr 33.170 kr. í 38.200 kr. eða um 5.030 kr. sem er 15% hækkun. Í tilviki einstæðra foreldra og námsmanna hækkar gjald fyrir 8 klst. um 1.830 kr. (matargjald) sem er 9% hækkun.

Leikskólagjöld foreldra nema um 25% af heildarkostnaði við rekstur leikskóla bæjarins.

Gjaldskrá tómstundaheimila hækkar um 10% en gjaldskráin hefur verið óbreytt frá 1. janúar 2007. Systkinaafsláttur fyrir barn umfram eitt verður áfram 50% en afsláttur fyrir þriðja barn lækkar úr 75% í 50%.

Áfram er í gildi sú regla að systkinaafsláttur gildir fyrir dvöl á leikskóla, í tómstundaheimili, hjá dagforeldrum og gildir fyrir eldra/elsta barnið.

Gjöld foreldra til tómstundaheimila eru um 70% af kostnaði við rekstur tómstundaheimila skólanna en í upphafi var stofnað til starfseminnar með það að leiðarljósi að gjöldin stæðu undir rekstrarkostnaði enda ekki lögbundið skylduverkefni sveitarfélaga að starfrækja tómstundaheimili.

Nánari upplýsingar um gjaldskrár eru að finna á vefsíðu bæjarins gardabaer.is/Stjornsysla/gjaldskrar.

 

Yfirlit yfir breytingar á gjaldskrá leikskóla frá áramótum